Þegar erfiðleikar knýja dyra vaknar spurningin um hver taki á sig byrðina við að mæta þeim. Á Íslandi hefur fengist svar við þessari spurningu. Almenningur borgar hærra verð og vexti af húsnæðislánum, en bankarnir taka inn meiri hagnað með hærri vöxtum og matvörukeðjurnar auka hagnað sinn, þótt þær segist vera að berjast gegn verðbólgu.
Vaxtaverkir banka og fólks
Einhver gæti ímyndað sér að á sama tíma og þrengir að í hagkerfinu og verð hækkar, myndi banki geta tapað eins og almenningur. Hins vegar er Íslandsbanki ekki aðeins að hagnast, heldur hagnast meira en á sama tíma í fyrra. Vaxtakostnaður bankans hækkar, eins og okkar hinna, en ólíkt okkur eykur bankinn vaxtatekjur sínar – sem hann fær frá okkur – og það um milljarð meira en kostnaður hans hækkar. Niðurstaðan er að á meðan almennir lántakendur greiða 90 þúsund krónum meira á mánuði vegna vaxtahækkunar á 50 milljóna króna húsnæðisláni, eykur Íslandsbanki hagnað sinn úr 9 milljörðum í 11 milljarða fyrri helming þessa árs.
Bankinn hefur boðað sterka stefnu um samfélagsábyrgð. „Stefna Íslandsbanka um sjálfbærni miðar að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar og að bankinn sé hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu,“ segir á vef bankans.
Íslandsbanki margfaldaði hagnað sinn í fyrra, upp í 23,7 milljarða króna. Á þessu ári gengur enn betur hjá bankanum. Fyrri helming ársins hagnaðist hann um 11 milljarða, upp frá 9 milljörðum árið áður.
Arion banki græddi 28,6 milljarða króna í fyrra og í ár gengur enn betur, þótt viðskiptavinir bankans greiði 10% meira fyrir mat og mun meira fyrir húsnæði. Söluhagnaður er hluti af ástæðunni fyrir því að hagnaður Arion fór úr 7,8 milljörðum í 9,7 milljarða á síðasta ársfjórðungi milli ára, engu að síður stærði forstjóri bankans sig af auknum tekjum af vöxtum, af hækkandi hreinum vaxtamun.
„Kjarnatekjur bankans aukast um tæp 24% á milli ára ef horft er til annars ársfjórðungs og vegur aukning í vaxtatekjum þar þyngst,“ sagði hann í kauphallartilkynningu.
Vaxtamunurinn sem bankinn hafði upp úr viðskiptunum fór úr 15 milljörðum – eins og hann hefur verið sömu tímabil síðustu ár – upp í 19 milljarða. Það hefur legið fyrir að vaxtamunur íslensku bankanna hefur verið um einu prósentustigi meiri en hjá norrænum bönkum, en þeir hafa kennt smæðinni og sköttum um það.
Vaxtahækkanirnar, sem eiga aðdraganda í stýrivaxtahækkunum Seðlabankans, hafa verið gagnrýndar vegna þess hversu harkalega þær lenda á húsnæðiseigendum með takmörkuð fjárráð. Á sama tíma stefnir í metár hjá sumum bankanna.
Þegar fjármálaráðherra okkar, sem er í umboði almennings við stjórn efnahagsmála, var spurður út í óánægju með vaxtahækkanir, sagði hann: „Það er ekki hægt að flýja verðbólguna,“ og bætti svo við: „Við þurfum að undirgangast viðurkennd lögmál hagfræðinnar.“
En bankarnir eru ekki einir um að stefna í metár.
Svona á að flýja verðbólgu
Sumum tekst samt að flýja verðbólguna. Nánar tiltekið þeim sem eru í aðstöðu til þess að ákveða verðið. Það er nefnilega ekki eingöngu til vaxtamunur, heldur einnig aðstöðumunur.
Eins og flestir hafa tekið eftir erum við farin að afgreiða okkur sjálf í verslunum. Framlag verslunarinnar minnkar að því leyti að ekki er lengur þörf á að ráða starfsfólk í að skanna vörurnar og rukka viðskiptavini. Þú getur gengið inn, verslað með símanum, og farið aftur út, án þess að verslunin geri annað en að panta vörurnar, stilla þeim fram og hýsa. Forsvarsmenn verslananna segja, andstætt almennri skynsemi, að þetta sé ekki til þess að minnka kostnað hjá þeim. En engu að síður hefur greinst hjá þeim óvæntur hlutur á pokasvæði.
Hagnaður Haga, sem reka Bónus, jókst um 200 milljónir króna á milli ára tímabilið mars til maí. Salan jókst um 19% en launakostnaður aðeins um 6%.
Rekstrarhagnaður Festis, sem rekur Krónuna, hefur tæplega þrefaldast frá 2017 – árið áður en félagið setti upp fyrstu sjálfsafgreiðslukassana. Á sama tíma hefur eigið fé félagsins sömuleiðis tæplega þrefaldast.
Við upphaf verðbólguöldunnar, árið 2021, jókst rekstrarhagnaður Festis um 43 prósent. „Besta ár Krónunnar frá upphafi,“ segir í ársskýrslunni. Og núna, verðbólguárið 2022, hefur Festi aukið hagnað sinn fyrri helming ársins um tæplega hálfan milljarð milli ára.
Spurningin sem stendur eftir er: Erum við að vinna vinnuna fyrir matvörukeðjurnar án þess að njóta afrakstursins með lægra verði? Án þess að stjórnendur keðjanna endurgjaldi okkur með því að takmarka að lágmarki verðbólguna raunverulega að einhverju leyti?
Hækka fyrst og berjast svo
Eftir þennan methagnað á fyrri helmingi ársins, sem var enn betri en metárið í fyrra, boðaði Krónan í ágúst að hún myndi „frysta vöruverð á 240 vörum til að berjast gegn verðbólgunni“. Um var að ræða þær vörur sem Krónan hefur mestan hag af því að selja, vörur undir merkjum Krónunnar sjálfrar, og svo First Price.
Forstjóri Samkaupa vildi taka þátt í baráttunni gegn verðbólgu og boðaði í síðustu viku að Samkaup myndu „lækka verð á fjögur hundruð vörum“. Þar kom ekki fram að frá síðasta hausti fram á vor höfðu verslanir Samkaupa hækkað verð mun meira en aðrar verslanir á landinu. Á táknrænan hátt hækkaði Iceland verðið mest um 12,4% á sama tíma og Krónan hækkaði um 5,1%.
Þau eru við
Hagar eru aðallega í eigu lífeyrissjóða og svo Samherja, þannig að hagnaðurinn rennur á endanum að miklu leyti aftur til dreifðs almennings. Þessi merkisberi íslenskrar lágvöruverslunar og láglaunastarfi hefur þó haldið úti hæstu launum forstjóra í sínum geira, forstjóri móðurfélagsins með 7,3 milljónir í mánaðarlaun og framkvæmdastjóri Bónuss með tæpar 5 milljónir. Forstjóri Haga hefur almennt haft 12 til 15 föld laun almenns starfsmanns. Krónan, sem fékk verðlaun Viðskiptaráðs Íslands fyrir skýrslu sína um sjálfbærni 2020, þar sem var valið að gefa ekki upp launahlutfall forstjóra þótt það sé hluti sjálfbærniviðmiða, borgar framkvæmdastjóranum mun lægri laun, 3,3 milljónir króna á mánuði.
Bandaríski risinn Costco er hins vegar í sérflokki. Framkvæmdastjóri Íslandshluta Costco fær borgaðar 24 milljónir króna á mánuði, sem má áætla gróflega en hóflega miðað við skoðanakannir um að annar hver Íslendingur sé korthafi sé minnst 40% af öllum aðildargreiðslum Íslendinga. Áætla má að laun framkvæmdastjóra íslensku Costco-verslunarinnar geti haldið úti meira en 50 manns í afgreiðslustörfum.
Í okkar umboði
Hin fyrirtækin sem græða á því sem við hin töpum á eru mörg hver í okkar eigu.
Þau sem hafa mestar áhyggjur af því að ríkið eigi í banka geta huggað sig við að Landsbankinn hefur verið með lægstu vextina á húsnæðismarkaði af stóru bönkunum þremur. Á meðan Arionbanki og Íslandsbanki rukka 7,3-7,4% breytilega vexti á óverðtryggðu láni rukkar Landsbankinn 7% eftir nýjustu hækkun.
Þau geta líka huggað sig við að bankinn hefur greitt 166,7 milljarða króna í arð til ríkisins frá 2013, sem gæti skapað svigrúm fyrir samsvarandi skattalækkanir eða dreifingu hagnaðarins til fólks sem starfar við heilbrigði og menntun.
En það er stöðugur þrýstingur á að skapa hvatann af einkarekstri í þjónustu við almenning sem getur þó valdið hagsmunaárekstri. Nýlega greiddi Hjallastefnan, sem heldur úti einkareknum leik- og grunnskólum, framkvæmdastjóra félagsins 55 milljónir króna fyrir hlutafé.
Einkareknir leikskólar í Reykjavík hafa verið að greiða arð þrátt fyrir lélega eða neikvæða eiginfjárstöðu.
Og verið er að byggja upp einkarekið sjúkrahús í Reykjavík.
Fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, vill selja fleiri fyrirtæki úr okkar eigu. „Ég myndi líka vilja selja hlut í Landsbankanum þegar fram í sækir,“ sagði hann í síðasta mánuði.
Milliliðir – spilliliðir
Með því að selja þjónustu úr almannaeigu í einkaeigu getur skapast hagræðing, en það gagnstæða getur líka gerst. Það skapast hvati og aðstæður fyrir milliliðinn til þess að hagnast eins mikið og honum er unnt án þess að bæta við virði, þar sem ástæðan verður aðstaðan.
Hættan af því að bankar misbeiti sér varð augljós á Íslandi árin fyrir efnahagshrun, þegar starfsmenn bankanna brutu lög til að halda uppi hlutabréfaverði þeirra. Þeir lánuðu starfsmönnum og vildarvinum, bjuggu til hagsmunaárekstra með kúlulánum, til að kaupa hlutabréf, í svikamyllu sem stjórnmálamenn studdu meðvitað eða ómeðvitað alla leið til Danmerkur og til baka. Þeir gátu þetta í krafti þess að hafa stöðu milliliða í hagkerfinu, að mega lána út fjármagn, langt umfram það sem þeir eiga. En ólíkt vatnslind, fiskveiðiauðlind eða olíulind, eru peningar og bankastarfsemi alfarið mannleg uppfinning. Ef reynt er að eiga við þá uppfinningu og margfalda peninga um of, verður til verðbólga, sem í íslenskum veruleika er með milliliðalaust samband beint inn í eignir almennings, í gegnum verðtrygginguna sem hækkar lán og lækkar húsnæðiseign í hverjum mánuði sem líður. Og í hverjum mánuði sem líður með hækkandi vöxtum á óverðtryggð húsnæðislán fælast fleiri og fleiri inn í skjól verðtryggingarinnar sem hækkar lán og étur upp eignir.
Hagfræðilögmál annarra landa
Í Danmörku eru dæmigerðir fastir vextir á húsnæðisláni rúmlega 4%. Sömu vextir eru um tvöfalt hærri á Íslandi, eða 7,75%-9%, hjá Arion banka, sem fagnar góðu gengi þetta árið í miðjum stýrivaxtahækkunum. Útborgunin er 5% í Danmörku, en minnst 15% til 20% hér.
Greiðslan er 310 þúsund krónur á mánuði af 54 milljón króna fasteignaláni. Það er að segja, ef aðeins eru borgaðar tæpar þrjár milljónir út. Íslendingur borgar hins vegar 400 þúsund krónur á mánuði af jafnháu láni með föstum vöxtum. Hins vegar býðst í Danmörku að greiða breytilega vexti, til dæmis 1,3%, og greiða undir 200 þúsund krónum á mánuði. Þá er ekki búið að taka tillit til vaxtabótakerfisins, sem er varla til staðar lengur á Íslandi. Að teknu tilliti til hagstæðasta lánsins fer greiðslan á óverðtryggða láninu niður í 160 þúsund krónur á mánuði.
En það er þetta með hagfræðilögmálin. Og pólitískan ómöguleika.
Einhvern veginn hefur þó íslenskum stjórnvöldum, samfélagi og ekki síst fjármálaráðherra síðasta áratugar mistekist að hafa áhrif á þennan veruleika.
Bankarnir verða fyrir áhrifum af stýrivöxtum Seðlabanka Íslands og Seðlabankinn hækkar vextina til að reyna að halda aftur af verðbólgu, sem aftur orsakast af hækkuðu verðlagi. Verðlag getur hækkað með hækkun innkaupaverðs og svo líka tregðu söluaðila til að halda aftur af verðhækkunum. Á Íslandi er engin hækkun á orkuverði til heimila. Verðbólgan var 9,9% í júlí á sama tíma og verðbólga í Danmörku var 8,7% og 9,8% í Evrópusambandinu. Munurinn er auðvitað að fasteignaverð lækkar í nágrannalöndunum en hér hækka lánin, það er að segja þau verðtryggðu.
„Það skiptir heimilin öllu að við varðveitum stöðugleika og lága vexti,“ sagði fjármálaráðherrann í september í fyrra, fyrir kosningarnar, þegar hann var í þann veginn að framlengja setu sína í fjármálaráðuneytinu í 13 ár. „Ísland er land tækifæranna,“ bætti hann við.
Það virðist hins vegar fyrst og fremst vera val milli 12% raunvaxta eða óstöðugleika, eins og horfir við almenningi.
Stöðugleikinn er hjá stórfyrirtækjunum og bönkunum, hjá milliliðunum, sem auka jú virði en skapa ekki endilega verðmæti heldur miðla þeim.
Fólkið sem skapar verðmæti
Hvað með fólkið sem skapar sannarlega virði, en er ekki staðsett við virðisstrauminn til að taka réttlátan skerf?
Kennarar eru gott dæmi um þetta. Bandarísk rannsókn frá 2014 sýndi að það að skipta út kennara með 5% lélegasta námsárangurinn fyrir miðlungskennara, mælt í einkunnum, jók ævitekjur nemendanna í sama bekk um samanlagt 35 milljónir króna. Eina sem þurfti til var eitt ár með betri kennara. Hörðustu viðskiptafræðingar ættu að geta verið sammála um að þarna sé raunverulega verið að búa til verðmæti, eins bjagað og það er að verðmeta fólk. Í tilfelli kennara er hægt að meta efnahagsleg verðmæti þeirra framlags til samfélagsins, en til viðbótar kemur ómetanlegt virði sem tengist gildum og manngildi.
Þannig sjáum við að milliliðir geta hagnast án verulegs framlags, og stundum á kostnað annarra. Og útkoman eins konar einkavædd skattlagning á almenning.
Á meðan fyrirfinnast aðrir sem búa til verðmæti en fá ekki endurgjald framlags síns til samfélagsins.
Það er ekkert einfalt svar og engin ein leið. Svar okkar er að taka hlutverk neytandans og kjósandans alvarlega, með því að beita meðvitund, umræðu og aðhaldi gagnvart milliliðunum.
Athugasemdir (1)