„Milljónir manna kaupa eldislax á hverjum degi án þess að velta því fyrir sér hvaðan hann kemur, umhverfisáhrifunum af því að hann var búinn til, eða hvort staðhæfingar um sjálfbærni hans og jákvæð áhrif á heilsu fólks eru réttar eða ekki,“ segja höfundar nýrrar bókar um laxeldisiðnaðinn í Bandaríkjunum og Evrópu, Salmon Wars: The Dark Underbelly of Our Favorite Fish, sem kom út í Bandaríkjunum í júlí. Bókin er eftir bandarísku blaðamennina Douglas Frantz og Catherine Collins. „Þessi bók var skrifuð með það fyrir augum að hjálpa fólki að skilja hvernig laxinn kemst á diskinn hjá því og hvaða afleiðingar það ferðalag hefur.“
Bókin bætist við nokkrar aðrar bækur um laxeldi sem komið hafa út á liðnum árum, meðal annars tvær í Noregi. Önnur þessara bóka, Undir yfirborðinu eftir norsku blaðakonuna Kjersti Sandvik, hefur verið þýdd á íslensku. Í hinni norsku bókinni er fjallað talsvert um Ísland og komu höfundarnir hingað til lands og fóru til Vestfjarða þar sem þeir kynntu sér laxeldi. Bókin heitir Den Nye Fisken: Om temmingen av laksen och alt det forunderlige som fulgte og er eftir blaðamennina Simen Sætre og Kjetil Østli.
Íslenski eldislaxinn í Bandaríkjunum
Sérstaða bókarinnar fyrir lesendur í Evrópu er fyrst og fremst sú að kastljósinu er beint hvað mest að laxeldi í Bandaríkjunum og Kanada, löndum sem höfundarnir þekkja betur til en Noregs, Skotlands eða Íslands. Höfundarnir fjalla hins vegar líka um þessi lönd og önnur í Evrópu þar sem laxeldi er stundað en þeir kafa ekki með sama djúpa hætti ofan í það og laxeldið í Bandaríkjunum og Kanada. Þær frumrannsóknir eða rannsóknarblaðamennska sem er að finna í bókinni fjallar um Bandaríkin og Kanada á meðan stuðst er við heimildir annarra þegar fjallað er um laxeldi í Noregi til dæmis.
„Markmið bókarinnar er ekki að skrifa minningargrein um laxeldi“
Bókin getur hins vegar sannarlega hjálpað lesendum í öllum löndum, meðal annars á Íslandi, að átta sig á jákvæðum og neikvæðum hliðum laxeldis. Vandamálin sem fylgja þessari atvinnugrein eru alls staðar svipuð eða hin sömu.
Höfundarnir þreytast ekki á því að nefna að eldislax er vinsælasta sjávarafurðin í Bandaríkjunum, á eftir rækjum, og kemur 90 prósent af þessari framleiðslu frá sjókvíaeldisfyrirtækjum í Noregi, Síle, Skotlandi og Íslandi. Allur þessi lax er að stofninum til norskur eldislax. Eldislax frá Íslandi og Noregi er meðal annars seldur í verslanakeðjunni Whole Foods í Bandaríkjunum, þangað sem hann er fluttur með flugi.
Ekki minningargrein um laxeldisiðnaðinn
Tilgangurinn með bókinni er ekki að reyna að skrifa „minningargrein um laxeldisiðnaðinn“, líkt og höfundarnir segja í lok hennar heldur er markmiðið að útskýra fórnarkostnað þessarar matvælaframleiðslu. „Tilgangur bókarinnar er að útskýra dulinn fórnarkostnað laxeldis, hinn raunverulega kostnað við það sem aldrei er tilgreindur í fiskbúðinni eða á matseðlinum á veitingastaðnum og sem ekki er endilega hægt að meta í krónum og aurum. Markmið bókarinnar er ekki að skrifa minningargrein um laxeldi heldur er tilgangurinn að benda á ábyrgðarfyllri aðferðir til að framleiða lax. Jafnvel þó við vildum gera það þá er ekki raunhæft markmið að ætla að loka milljarða dollara iðnaði. Kannski er þetta ekki einu sinni nauðsynlegt, að því gefnu að sjókvíaeldisfyrirtækin tileinki sér vinnubrögð sem vernda náttúruna og umhverfið, að þau eyðileggi ekki fiskimið á uppsjávarfiski og að þau selji heilnæmari vöru til neytenda,“ segir í henni.
Helsta gagnrýnin á sjókvíaeldi snýst um umhverfisáhrif laxeldisins, möguleikann á slysasleppingum á laxi, erfðablöndun við villta laxastofna og mengunina sem verður í sjónum vegna þess.
Gagnrýnin í bókinni er því uppbyggileg og höfundarnir segja frá mörgum jákvæðum breytingum sem laxeldisfyrirtækin hafa gert síðustu áratugina til að reyna að bæta framleiðsluaðferðir og þeir segja frá nýjum aðferðum við laxeldi.
Þeir verja meðal annars töluverðu púðri í að fjalla um landeldi á eldislaxi en útgerðarfélagið Samherji hefur til dæmis stundað slíkt eldi um árabil í Öxarfirði á Norðurlandi og stefnir félagið á enn meira eldi á Reykjanesi. Þá fjalla höfundarnir einnig talsvert um aflandseldi á eldislaxi sem norskt móðurfélag Arnarlax, Salmar AS, er einn helsti hvatamaðurinn að með notkun á risastórum laxeldiskvíum langt frá fjörðum landa og laxveiðiám.
Höfundarnir horfa því til framtíðar vegna þess að þeir átta sig á því að framleiðsla á eldislaxi er komin til að vera og þarf að vera fyrir hendi til að „fæða mannkynið“ eins og þeir segja. Spurningin er því ekki hvort eldislax verður framleiddur heldur hvernig hann verður framleiddur. Eins og höfundarnir spyrja að í bókinni: „Ábyrgðarfullt laxeldi býður upp á lausn til að mæta aukinni matarþörf heimsins. Hins vegar eru opnar sjókvíar ráðandi í iðnaðinum í dag og þær eru að skemma vistkerfi sjávar og skapa neytendum mögulega áhættu. Grundvallarspurningin fyrir ríkisstjórnir og neytendur á þessum tímapunkti í þróun fiskeldis er: Skapa laxeldisfyrirtæki sem reka opnar sjókvíar fleiri vandamál en þær leysa?“
Útrásin frá Noregi
Sjókvíaeldið á Íslandi er tiltölulega ný atvinnugrein hér á landi þar sem fyrri tilraunir til að koma þessum iðnaði upp hér á landi hafa runnið út í sandinn í gegnum tíðina. Helsta ástæðan fyrir því er kuldinn og veðurfarið við Íslandsstrendur. Sjókvíaeldið á eldislaxi sem nú er stundað við Ísland er einungis rétt rúmlega 10 ára gamalt og hófst það með stofnun fyrirtækja eins og Arnarlax og Fjarðalax á Vestfjörðum fyrir rúmlega áratug. Síðan þá hefur framleiðsla á eldislaxi á Íslandi margfaldast.
Nú stendur fyrir dyrum að eitt stórt laxeldisfyrirtæki Salmar AS, eigandi Arnarlax á Bíldudal, eignist einnig móðurfélag Arctic Fish á Ísafirði. Fyrir vikið er líklegt að einn stór laxeldisrisi verði til á Íslandi. Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar gefið það út að það hafi hafið rannsókn á þessum mögulega samruna vegna markaðsráðandi stöðu hins sameinaða fyrirtækis ef samruninn gengur í gegn.
Í nýju bókinni um laxeldið fjalla höfundarnir um það hvernig það gerðist að norsk laxeldisfyrirtæki eins og Salmar, Mowi og Grieg Seafood hófu útrás til annarra landa. Þar kemur fram að þessi fyrirtæki hafi orðið að horfa til nýrra landa með framleiðslu sína vegna aðstæðna í Noregi. „Þegar norsku fyrirtækin áttu í erfiðleikum með að vaxa heima fyrir vegna dýrra framleiðsluleyfa og krítískrar fjölmiðlaumræðu byrjuðu þau að horfa til landa eins og Kanada, Síle og Skotlands. Í öllum löndum urðu Norðmennirnir fljótlega ráðandi í atvinnugreininni.“
Útrás norsku laxeldisfyrirtækjanna til Íslands er hluti af þessari þróun sem höfundar bókarinnar lýsa þarna enda eru framleiðsluleyfi til að rækta eldislax ekki seld dýrum dómum hér á landi eins og í Noregi.
Ein stærsta slysaslepping sögunnar
Höfundarnir verja svo mörgum blaðsíðum í að segja frá því hvernig andvaraleysi og slæmt eftirlit með laxeldisiðnaðinum í Bandaríkjunum og Kanada hefur leitt til umhverfisslysa eins og einnar stærstu slysasleppingar á eldislöxum í sögunni.
Hún átti sér stað í Washington-ríki í Bandaríkjunum árið 2017 þegar á milli 243 og 263 þúsund eldislaxar sluppu úr sjókvíum laxeldisfyrirtækisins Cooke Aquaculture. Ástæðan fyrir slysasleppingunni var að sjávargróður og skeljar settust á sjókvíarnar og sökktu þeim með þeim afleiðingum að þær sukku í hafið og eldislaxarnir sluppu úr kvíunum. Það er í þessari frásögn sem höfundarnir kafa hvað dýpst eftir ástæðum þessa slyss þar sem þeir hafa aðgang að frumgögnum og ræða við starfsmenn Cooke Aquaculture sem urðu vitni að þessu slysi.
Þessi slysaslepping varð til þess að laxeldi í sjókvíum var bannað í Washington-ríki og segja höfundarnir að ein af ástæðum þess af hverju þetta var sé að sjókvíaeldi skipti ekki svo miklu máli í efnahagslífi ríkisins þar sem Microsoft og Boeing eru meðal stærri vinnuveitenda. Öðru máli gegni hins vegar víða í Kanada þar sem atvinnulífið er fábrotnara og sjókvíaeldið skiptir meira máli efnahagslega og erfiðara hefur reynst að skapa gagnrýna umræðu um það.
Bókin er því fyrst og fremst spegill á laxeldisiðnaðinn í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem höfundarnir eru á heimavelli, en sannarlega getur sú umfjöllun einnig varpað ljósi á laxeldið í öðrum löndum eins og á Íslandi. Umhverfisáhrif og eins samfélagsleg áhrif laxeldisins eru enda víða hin sömu eða svipuð, meðal annars hér á Íslandi þar sem byggðasjónarmið eru yfirleitt mjög ofarlega í umræðunni um kosti og galla eldisins.
*Greinin birtist upphaflega í Stundinni í september árið 2022
Athugasemdir (3)