Það var óraunverulegt fyrir Freyju Huld þegar tálbeita hafði samband við hana eina nóttina og lét vita að maðurinn hennar hefði átt í kynferðislegum samskiptum við það sem hann taldi vera 13 ára stúlku á stefnumótavefnum Einkamál, en var í raun tálbeitan. Freyja hafði sjálf verið þolandi í tíu ár sem barn. Hún var ein heima með tveggja ára barn þeirra og fjögurra ára barn úr fyrra sambandi á meðan maðurinn hennar vann úti á landi. Fyrst um sinn neitaði hún að trúa þessu. Daginn eftir sá hún sannleikann. „Þetta var mjög brútal,“ segir Freyja Huld.
Það var ekki þarna sem meint ásókn barnsföður hennar í börn endaði og það var ekki heldur þarna sem samskipti hennar við manninn og umgengni hans við barnið þeirra gat lokið. Freyja segir sögu sína og lýsir stöðu sinni í samtali við Eddu Falak í þættinum Eigin konur, sem er aðgengilegur áskrifendum Stundarinnar.
Trúði ekki tálbeitunni
Allt hófst þetta með símtali um nótt fyrir fimm árum.
„Aðilinn sem er tálbeita sem hafði samband við mig um nóttina. Ég vildi ekki trúa þessu. Fór aftur að sofa, þetta er skakkt númer. Þetta er einhver sem er einhverra hluta vegna að gera svona, ég veit það ekki, og fer til vinkonu minnar daginn eftir og er hjá henni þegar hann hringir aftur. Hann spyr hvort ég sé með tölvu. Hann ætli að senda mér samræðurnar og vídeóið. Ég bara, já, allt í lagi. Bara skera úr um það sem er í gangi,“ segir Freyja. Hún sá því kynferðisleg skilaboð og efni sem gekk á milli sambýlismanns hennar og tálbeitu sam sagðist vera þrettán ára. Hann ekki heima.
„Þarna er minn fyrrverandi að vinna úti á landi, tíu daga í burtu og fimm daga heima. Ég hringi í hann og spyr hann: „Hvað í ósköpunum ertu að gera?“ Hann bara: „Ekki neitt“ og „ég er að fara að vinna“.
Hún svaraði ákveðið: „Nei, nei. Þú ert ekki að fara að vinna neitt. Þú ert bara að fara að pakka dótinu þínu og fara í bæinn. Þú ert að fara að tala við lögregluna.“
Næst lýsti hann yfir minnisleysi, að sögn Freyju. „Hann bara segist ekki muna neitt og ég segi bara: „Það er bara eitt í boði. Þú ert að koma inn á Selfoss og þú ert að fara að tala við lögregluna, að gefa þig sjálfur fram.“ Sem hann gerir.“
Þögn og þriggja ára bið
Freyja knúði sambýlismann sinn til að játa. „Ég var vel hörð á því að hann myndi gefa sig sjálfur fram af því að ég teldi það sterkara fyrir hann. Þarna var ég að pæla út í hagsmuni hans og hagsmuni okkar, búandi í litlu bæjarfélagi, þá taldi ég þetta vera rétt í stöðunni. Þarna slítum við okkar sambandi en hann heldur áfram að vera inni á heimilinu. Og það var ótrúlega erfið þöggun yfir þessu máli. Það mátti ekki ræða þetta whatsoever, út á við. Það mátti enginn vita þetta. Fjölskyldan hans öll, það voru foreldrar hans sem vissu þetta, punktur. Það var ekki verið að láta vita. Svo var þetta einhvern veginn komið til hliðar, enda tók þetta þrjú ár í kerfinu.“
Sambýlismaðurinn flakkaði á milli játningar, afneitunar og minnisleysis, en hafnaði því alfarið að ræða málið. „Hann talaði bara í hringi. Þetta gerðist ekki, hann var saklaus, og allt þetta.“
Freyja mætti fyrir dóm og knúði barnsföður sinn til að segja satt.
Í maí 2020 fékk maðurinn dóm, tæplega þremur árum síðar. Niðurstaðan var skilorðsbundinn dómur, tveggja mánaða fangelsi sem hann slyppi við ef hann bryti ekki af sér næstu tvö árin. Hann fékk engin úrræði, enga sálfræðihjálp til þess að hætta athæfinu.
„Mér fannst hann hafa svikið mig, að vera inni á Einkamál og líka að hann var þarna að tala við einhvern sem hann hélt að væri 13 ára stúlka. Þetta triggeraði mig sem þolanda. Ég var þolandi í tíu ár,“ segir Freyja.
Hún segir að sér hafi í raun ekki komið á óvart að maðurinn hennar sótti annað. Ástæðan var að hún hafði sjálf breyst eftir slys sem hún varð fyrir, þar sem hún kramdi höndina á sér undir afturhlera bíls og varð fyrir taugaskaða. Líkamstjónið varð til þess að hún missir meðvitund reglulega og finnur sársauka daglega. Hún var því í raun ekki hissa á að hann leitaði annað vegna þess að eftir slysið hafi hún verið „ekki nógu góð“. Henni brá hins vegar við að vita aldurinn.
Barnavernd kemur úr annarri átt
Viðbrögð Freyju eftir atvikið voru að gæta hagsmuna barnanna. Hún leitaði fljótlega til félagsþjónustunnar og barnaverndar vegna þess að hún átti erfitt með aðstæðurnar, bæði stöðu barnsföðurins og svo takmarkanir sinnar eigin heilsu.
„Í kjölfarið á dómnum 2020 var ég í hálft ár að hugsa, af hverju er ég ekki búin að heyra frá barnavernd? Ég einmitt spurði lögfræðinginn og hann svaraði: Jú, þú munt heyra frá barnavernd. Þannig að ég er alltaf að bíða. Þar til ég hringi sjálf. Af því að yngri drengurinn minn átti mjög erfitt, á mjög erfitt með að tjá sig, og við erum búin að æfa okkur að nota röddina í staðinn fyrir að skella hurðum. Ég hef samband við félagsþjónustuna, sem ég hélt að væri barnaverndarfulltrúi en var svo ekki barnaverndarfulltrúi, og þá kom það, að nei, það hafði engin tilkynning borist, „en með hvað vantar þig aðstoð?““
Freyja lýsti því við fulltrúann að drengurinn hennar ætti erfitt og að hana vantaði aðstoð. Viðbrögðin segir hún hafa verið að hún væri sjálf vandamálið.
„Ég átti bara að vera vesenið, ég átti bara að vera ástæðan fyrir því að barnið var snælduvitlaust.“ Hluti vandans segir Freyja að hafi verið hegðunarbreyting eftir breyttar aðstæður á heimilinu og í sambandi hennar við föðurinn.
Síðar kom í ljós að dómurinn yfir barnsföðurnum hafði ekki verið tilkynntur til barnaverndar vegna þess að hann hafði ekki sama lögheimili og börnin. Lögreglan fékk því tilkynningu vegna heimilisaðstæðna, en ekki tilhneigingar barnsföðurins gagnvart börnum.
Sendi drengina í Barnahús
Freyja segist ekki hafa haft verulegar áhyggjur af því að athæfi mannsins myndi snúa að eigin börnum. Hún segir hann hafa verið góðan við son sinn. „Þeir eiga voða vel saman, þeir feðgarnir.“
Til öryggis fór Freyja fram á að drengirnir tveir færu í Barnahús. „Ekki af því að ég treysti honum ekki, heldur meira af því að ég er þolandi sjálf sem barn, ég vildi ekki að börnin mín myndu þurfa að ganga í gegnum þann viðbjóð, að hífa sig upp eftir svoleiðis. Ég var tvítug komin í starfsendurhæfingu, mér fannst það ekkert sniðugt. Mér fannst ekki heldur sniðugt að eiga dreng sem á erfitt með að tjá sig, lenda í einhverju.“
Eftir korters spjall við hvorn dreng, sem Freyju þótti alltof stuttur tími, kom ekkert athugavert í ljós. Annað átti hins vegar eftir að koma fram um athæfi mannsins gagnvart unglingsstúlkum.
Barnsfaðirinn í gæsluvarðhald
Kvöld eitt í desember í fyrra biðu foreldrar þess að fjórtán ára dóttir þeirra kæmi heim. Hún hafði þá ekki skilað sér á réttum tíma úr vinahúsi. Hún hafði verið svo lengi í burtu að foreldrarnir ákváðu að hringja í lögregluna og fara fram á að hennar yrði leitað. Á þessum tíma var stúlkan, samkvæmt síðari fréttaflutningi og mati lögreglu, föst í bíl með manni á fertugsaldri, sem hafði samkvæmt sömu heimildum gengið fast á eftir henni á samfélagsmiðlum, vitandi og vitnandi til aldurs hennar. Fjallað var um málið í flestum fjölmiðlum, að maðurinn væri ásakaður og grunaður um að hafa haldið stúlkunni nauðugri í þrjár klukkustundir og beitt hana þar líkamlegu ofbeldi og nauðgað henni. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í viku.
„Mér er kennt um eitthvað sem ég gerði ekki“
„Mér er kennt um eitthvað sem ég gerði ekki,“ sagði hann síðan í fjölmiðlum.
Beina afleiðingin fyrir Freyju var einnig að lögreglan tilkynnti Freyju til barnaverndar, þar sem heimilið þótti ekki nægilega hreint þegar lögreglan rannsakaði heimilið vegna gæsluvarðhaldsins, samkvæmt hennar lýsingu. Að því komst hún þegar hún hafði samband við barnavernd til að ítreka beiðni um aðstoð. Þannig fór að það var Freyja sem var tilkynnt til barnaverndar en ekki barnsfaðirinn sem var í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að frelsissvipta stúlku á barnsaldri og beita hana ofbeldi. Viku eftir gæsluvarðhaldsúrskurðinn var barnsfaðir hennar frjáls ferða sinna og mætti á frístundaheimili barnsins til að sækja.
Skyldan að vernda börn
Barnsfaðirinn hafði sannfært Freyju um að skrifa undir sameiginlegt forræði stuttu fyrir meinta frelssisviptinu í fyrra, með því að bjóða henni að losa hana út úr sameiginlegu fyrirtæki þeirra. Í samningnum var ákvæði um jafna umgengni.
Það að hann hafi verið handtekinn og færður í gæsluvarðhald vegna gruns um skelfilegt brot gegn stúlku á barnsaldri skipti engu fyrir umgengnina. „Þetta hafði engin áhrif. Hann hafði leyfi til þess að sækja barnið í skólann. Og hann er bara með sína jöfnu umgengni.“
Hún lýsir því hvernig lögin gefi í raun misvísandi skilaboð þegar kemur að foreldrahlutverkinu í slíkum aðstæðum. Þannig hafi hún leyfi „sem foreldri“ til þess að stöðva umgengni, „en það er bara ekki löglegt“. „Í laganna umhverfi er mitt hlutverk sem foreldri að passa upp á barnið mitt og setja það ekki í neinar aðstæður sem gætu orðið því skaðlegar, en ég hef ekki lagalegan rétt til að halda honum frá pabba hans vegna þess að hann er ekki búinn að fá dóm. Ég gæti einfaldlega fengið dóm sjálf.“
Þrátt fyrir að hafa þessa skyldu til að vernda börnin fær Freyja ekki formlega aðgang að upplýsingum um framgang málsins gegn barnsföðurnum.
„Ég er bara barnsmóðir. Ég verð bara að bíða. Ég er ekki aðili að málinu og þetta kemur mér ekki við. Ég er að reyna að koma þessu máli þannig fyrir að það muni skella sem minnst á börnunum manns.“
Hvað geta börnin vitað?
Önnur vernd sem Freyja vill veita börnunum varðar vitneskjuna um athæfi föður þeirra og uppeldisföður.
Eldri drengurinn, sem Freyja átti úr fyrra sambandi en var yngri en eins árs þegar sambandið hófst, hætti skyndilega að kalla manninn „pabba“ og óx frá honum en hélt góðu sambandi við fjölskyldu hans. Yngri strákurinn er enn í umgengni við föður sinn, eftir að Freyja samþykkti jafnt forræði. Strákarnir eru nú sjö og níu ára.
„Þeir vita hvorugir hvað gerðist,“ segir Freyja.
„Ég er í raun og veru núna að berjast fyrir því að fá fagaðila með mér í það að setjast niður með drengjunum og segja þeim allavega eitthvað. Þannig að þetta færi ekki að koma á þá með látum í skólanum.“ Hún hefur líka áhyggjur af því að þegar þeir komist í tölvu muni þeir gúggla foreldra sína, eins og geti gerst í tölvutíma í skólanum. Nafn mannsins hefur komið fram í fjölmiðlum.
„Ég ætla að sitja í mínu sæti með börnin mín við hliðina á mér og halda utan um þau á meðan þetta er útskýrt í eins litlum upplýsingum og við komumst upp með, af því að hann er ekki búinn að fá dóm.“
Lífið í samskiptum við brotlegan mann
Freyja metur það sem svo að ekki sé inni í myndinni núna að loka á samskipti við manninn, þar sem þau ala saman upp barn. Henni þykir vænt um hann þrátt fyrir allt.
„Allt sem hann hefur gert hef ég lagt til hliðar“
„Auðvitað þykir mér vænt um þennan mann, hann gaf mér barnið mitt. Ég hef ekkert val, ég þarf að vera í samskiptum við þennan mann, alveg sama hvað gerðist og gerist í framtíðinni. Ég þarf að kyngja öllu sem ég hef í pokahorninu og halda áfram. Að sjálfsögðu er ég ekki bara að hugsa um að hann sé eitthvert skrímsli. Allt sem hann hefur gert hef ég lagt til hliðar. Ég þarf að gera það. Ég á barn með honum, ég þarf að vera í samskiptum við hann næstu árin. Ég þarf að hitta hann og ég þarf að tala við hann. Og til þess að geta átt samskipti við manninn þarf ég að leggja allt til hliðar.“
En Freyja myndi gjarnan vilja að kerfið væri meðvitað um aðstæður og tæki mið af þeim, þannig að foreldrar sem deila forræði með fólki sem er rannsakað fyrir að brjóta gegn börnum eigi þess sem bestan kost að vernda börnin strax fyrir öllum þeim afleiðingum sem yfir þau geta komið vegna brotanna.
Athugasemdir