Tveir núverandi og fyrrverandi stjórnendur í laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Ísafirði hafa selt hlutabréf í félaginu til Síldarvinnslunnar fyrir rúmlega 172 milljónir norskra króna eða 2,3 milljarða íslenskra króna. Um er að ræða eignarhaldsfélag stofnanda og fyrrverandi framkvæmdastjóra Arctic Fish, Sigurð Pétursson, og núverandi fjármálastjóra félagsins, Neil Shiran Þórisson. Félag Sigurðar, og viðskiptafélaga hans, selur bréf til Síldarvinnslunnar fyrir rúmlega 1.869 milljónir króna og Neil Shiran selur fyrir rúmlega 440 milljónir króna. Viðskipti þessara aðila koma fram í tilkynningu til norsku kauphallarinnar.
Viðskiptin hafa vakið nokkra athygli þar sem Síldarvinnslan tekur með kaupunum stórt skref inn í sjókvíaeldi á eldislaxi á Íslandi. Síldarvinnslan mun eftir kaupin eiga rúmlega 34 prósenta hlut í félaginu á móti rúmlega 51 prósenta hlut norska laxeldisrisans Norway Royal Salmon. Síldarvinnslan, sem útgerðarfélagið Samherji á ríflega þriðjungshlut í, er ekki þekkt fyrir að vera þögull minnihlutaeigandi í fyrirtækjum og hvað þá Samherji en stofnendur félagsins eru stærstu hluthafar Eimskipafélags Íslands meðal annars.
Óvissa um framtíðareignarhald spilar inn í
Neil Shiran segir í sms-skilaboðum til Stundarinnar að sala hans á hlutabréfum í Arctic Fish feli ekki í sér að hann sé að hætta hjá félaginu. Hann segist hafa keypt bréfin á genginu 62,1 en að hann selji þau nú á genginu 100 þannig að söluhagnaður myndist í viðskiptunum. Þó bætir hann við að hlutabréfin hafi einnig verið skuldsett en að lánveitingar hafi ekki verið frá hluthöfum Arctic Fish.
Neil Shiran segir aðspurður að óvissa um eignarhald á Arctic Fish til framtíðar spili inn í ákvörðun hans að selja hlutabréfin. „Það er erfitt að útskýra í stuttu máli. En það má líka segja að óvissa um endanlegt eignarhald undanfarið hafi haft sitt að segja. Það er að segja hvernig NRS/NTS/Salmar-málin hafa verið.“
„En það má líka segja að óvissa um endanlegt eignarhald undanfarið hafi haft sitt að segja“
Eins og Stundin hefur greint frá stendur til að norskur eigandi Arnarlax á Bíldudal kaupi norskan eiganda Arctic Fish og hefur verið rætt um mögulegan samruna félaganna í ljósi þessa. Eigandi Arnarlax, Salmar, getur hins vegar ekki úttalað sig um samrunann eða tekið ákvörðun um hann fyrr en eftir að Salmar hefur eignast Norway Royal Salmon.
Í viðtali við norskt blað í byrjun júní sagði nýráðinn forstjóri Salmar, Linda Litlekalsøy Aase, að afstaða til samruna lægi ekki fyrir. „Við höfum ekki tekið afstöðu til slíkra hugmynda ennþá. Þar til annað kemur í ljós virðum við samkeppnisreglurnar og við erum samkeppnisaðilar á markaði dag hvern. Bæði félögin eru starfandi á Vestfjörðunum á Íslandi og eiga nú þegar í góðri samvinnu á ýmsum stigum virðiskeðjunnar.“
Eitt af því sem gæti gerst ef Arnarlax og Arctic Fish sameinast er að starfsmönnum og stjórnendum verður fækkað í ljósi þeirra samlegðaráhrifa sem slíkur samruni hefði í för með sér. Á þessari stundu er óljóst hvort kaup Síldarvinnslunnar á rúmlega þriðjungshlut í Arctic Fish hafi einhver áhrif á mögulegan samruna þessara tveggja laxeldisfyrirtækja á Vestfjörðum.
Hætti og stofnandi fræðslumiðstöð um laxeldi
Félag Sigurðar Péturssonar og viðskiptafélaga hans, Novo, keypti bréfin í Arctic Fish á tæpar 90 milljónir króna samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2020. Þar eru hlutabréfin bókfærð á kostnaðarverði. Félagið var ekki mikið skuldsett og var með langtímaskuldir upp á 86 milljónir króna það ár. Miðað við söluverð hlutabréfanna í Arctic Fish og skuldastöðu hagnast félagið mjög vel á viðskiptunum með hlutabréfin í Arctic Fish. Tæplega 1.800 milljóna króna mismunur er á verðinu sem félagið greiddi fyrir hlutabréfin í Arctic Fish og söluverðinu.
„Arctic Fish var skráð á markað og farið að ganga vel, og þá fannst mér mínu hlutverki vera lokið“
Stundin gerði ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Sigurði Péturssyni til að spyrja hann um viðskiptin en án árangurs. Blaðið náði hins vegar tali af einum meðhluthafa Sigurðar í Novo ehf., Ingibjörgu Valgeirsdóttur, en hún vildi ekki tjá sig um viðskiptin. „Ég hef bara engin komment á þetta. No komment, ekkert frá mér,“ segir Ingibjörg. Tveir aðrir hluthafar eiga Novo með þeim, Guðmundur Stefánsson og Þóra Vala Haraldsdóttir.
Sigurður hætti sem framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish í fyrrasumar og stofnaði fræðslumiðstöð um fiskeldi í Reykjavík sem heitir Lax-inn. Í viðtölum hefur hann líst því að hann hafi talið sínu hlutverki hjá Arctic Fish vera lokið. „Ég er frumkvöðull í mér [...] Arctic Fish var skráð á markað og farið að ganga vel, og þá fannst mér mínu hlutverki vera lokið. Ég er hættur þar sem starfsmaður þótt ég eigi ennþá hlut í fyrirtækinu,“ sagði hann í einu slíku í vor.
Nú hefur Sigurður hins vegar selt sig út úr fyrirtækinu sem hann stofnaði og rak í áratug.
Athugasemdir