Eftir að íslenska útgerðarfyrirtækið Síldarvinnslan keypti rúmlega þriðjungshlut í laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Ísafirði þann 10. júní munu tæplega 11,5 milljarðar króna renna til aflandsfélags á Kýpur. Þetta félag er í eigu pólsks fjárfestis sem heitir Jerzy Malek. Kýpverska félagið heitir Bremesco Holding Limited. Samtals keypti Síldarvinnslan 34,2 prósenta hlut í Arctic Fish fyrir 13,7 milljarða króna og kom 28,56 prósenta hlutur frá Bremesco Holding.
Jerzy Malek hefur áralanga reynslu af fjárfestingum í sjávarútvegi. Bremesco Holding kom inn í hluthafahóp Arctic Fish með 20 milljón evra fjárfestingu, tæplega 2,8 milljarða króna fjárfestingu, og átti um hríð allt félagið en hefur síðan selt sig út úr því í skömmtum og margfaldað fjárfestingu sína. Bremesco Holding var næst stærsti hluthafi Arctic Fish á eftir norska laxeldisfyrirtækinu Norway Royal Salmon sem á rúm 51 prósent.
Stofninn í verðmæti Arctic Fish eru framleiðsluleyfin á eldislaxi í sjókvíum á Vestfjörðum sem fyrirtækið á, eins og kemur skýrt fram í tilkynningunni til Kauphallar Íslands þar sem Síldarvinnslan greindi frá þessum viðskiptum með hlutabréf Arctic Fish: „Arctic Fish ehf. sem er eitt af leiðandi laxeldisfyrirtækjum á Íslandi og rekur eldisstöðvar á Vestfjörðum þar sem félagið er með rúmlega 27 þúsund tonna leyfi fyrir eldi í sjó.“
Samanburður á kvóta útgerða og í laxeldis í sjókvíum
Til að eignast þessi 27 þúsund tonna framleiðsluleyfi á eldislaxi í sjókvíum greiddi Arctic Fish ekki neitt, líkt og Stundin hefur fjallað um og sett í samhengi við verð á sambærilegum framleiðsluleyfum í Noregi. Laxeldisfyrirtækin fá þennan kvóta endurgjaldslaust frá íslenska ríkinu eftir að þau hafa sótt um hann og umsóknirnar hafa farið í gegnum ferli hjá íslenskum stofnunum.
Til samanburðar er Síldarvinnslan þriðji stærsti kvótahafi í veiðum á villtum fiski í sjó hér landi með 33 þúsund tonna kvóta og greiðir veiðigjald til íslenska ríkisins fyrir afnotin af þessum aflaheimildum. Síldarvinnslan hefur eignast þennan kvóta með alls konar hætti, meðal annars með því að kaupa hann af öðrum útgerðarfélögum fyrir hátt verð.
Samkvæmt tveimur einstaklingum sem vinna við miðlun og sölu á aflaheimildum á Íslandi þá er verð á þorskígildiskílói á markaði alltaf yfir 5.000 krónum hjá stórum útgerðin eins og Síldarvinnslunni nú um stundir. Miðað við þetta lægsta mögulega markaðsverð á kvóta Síldarvinnslunnar á hann að vera um 165 milljarða króna virði í dag hið minnsta. Þannig að ef Síldarvinnslan myndi kaupa sambærilegt magn kvóta á markaði og fyrirtækið ræður yfir í dag yrði kaupverðið um það bil þetta.
Þó deilt sé um veiðigjöldin sem sjávarútvegsfyrirtækin greiða af afnotaréttinum á kvótanum þá greiddi Síldarvinnslan þó 531 milljónir króna til ríkisins vegna þessara 33 þúsund tonna aflaheimilda í fyrra. Laxeldisfyrirtækin greiða ekki sambærilegt veiðigjald til íslenska ríkisins. Þau greiða því hvorki fyrir framleiðsluleyfin á eldislaxi í sjóakvíum né fyrir afnotarétt af þeim. Þó þarf að nefna greiðslur í Umhverfissjóð sjókvíaeldis sem ekki eru mjög háar en samtals útdeildi sjóðurinn 130 milljónum í fyrra til ýmissa verkefna tengdum eldinu. Samtals greiðslur úr þessum sjóði eru því tæplega 1/4 hlut af veiðigjöldum Síldarvinnslunnar.
Um leið og laxeldisfyrirtækin hafa fengið þessi framleiðsluleyfi með formlegum hætti geta eigendur þeirra hins vegar selt hluti sína í fyrirtækjunum og innleyst mikinn hagnað. Þetta er það sem Bremesco Holding gerir nú og hagnaðurinn, peningarnir frá Síldarvinnslunni, fer til Kýpur þar sem skattahagræði er talsvert, meðal annars lægsti fyrirtækjaskattur í Evrópu upp á 12,5 prósent.
Ef horft er á söluverðið á hlut Bremesco Holding í Arctic Fish þá má ætla að heildarvirði Arctic Fish sé rúmlega 40 milljarðar íslenskra króna út frá verðmæti framleiðslukvóta fyrirttækisins. Verðmæti félagsins er að stóru leyti byggt á framleiðslukvótanum, þessum 27 þúsund tonnum, sem fyrirtækið hefur yfir að ráða og sem það fékk fyrir ekki neitt frá íslenska ríkinu.
Þessi verðmæti upp á um 40 milljarða króna hafa ekki runnið til íslenska ríkisins með beinum hætti þrátt fyrir að þau byggi á notkun á íslenskri náttúru, fjörðum og hafsvæði á Vestfjörðum.
Samherji beint og óbeint í land- og sjókvíaeldi
Eftir kaup Síldarvinnslunnar á hlutabréfunum í Arctic Fish þá er fyrirtækið orðið einn stærsti innlendi hluthafinn og hagsmunaðilinn í sjókvíaeldi á eldislaxi hér við land. Stærsti einstaki hluthafi Síldarvinnslunnar er útgerðarrisinn Samherji sem er stærsti hagsmunaðilinn í landeldi á eldislaxi á Íslandi. Fyrirtækið hefur verið um árabil verið með landeldi í Öxarfirði á Norðausturlandi í gegnum dótturfélag sitt Samherja fiskeldi ehf. og stefnir félagið að frekari vexti með landeldi á Reykjanesi.
Með kaupum Síldarvinnslunnar er Samherji nú óbeint orðinn hluthafi í Arctic Fish og þar með í íslensku sjókvíaeldi á eldislaxi. Eins og Stundin hefur greint frá ætlar laxeldisfyrirtækið Arnarlax á Bíldudal sér að kaupa Arctic Fish og þá verður Síldarvinnslan væntanlega hluthafi í hinu sameinaða félagi sem verður með meira en 50 markaðshlutdeild af framleiddum eldislaxi á Íslandi.
Kaup Síldarvinnslunnar á hlutabréfunum í Arctic Fish eru merkileg fyrir þær sakir meðal annarra að Þorsteinn Már Baldvinsson tjáði sig um sjóakvíeldið í Fréttablaðinu í byrjun júní. Þar sagði Þorsteinn Már að sátt þyrfti að skapast um íslenskan sjávarútveg og að illdeilur skaði greinina. Þorsteinn Már sagði meðal annars að hann teldi skrítið hvað umræðan um sjávarútvegsfyrirtæki sé skrítin og bar hana saman við umræðuna um laxeldisfyrirtækin: „Mér finnst orðræðan um íslensk fyrirtæki sem stunda veiðar og vinnslu á köflum svolítið skrýtin. Það á að þrengja að fyrirtækjum sem eru í veiðum og vinnslu á villtum fiski og kallað er eftir því að þau verði brotin upp,“
Þorsteinn Már sagði að á sama tíma ætti sér ekki stað sambærileg umræða um laxeldisfyrirtækin: „Þessi laxeldisfyrirtæki eru í meirihlutaeigu Norðmanna, sem voru tilbúnir til að koma með þolinmótt fjármagn og þekkingu inn í greinina.“
Nú er Síldarvinnslan, og þar með Samherji, orðin stór þátttakandi í íslensku sjókvíeldi.
Athugasemdir (4)