„Þetta passar okkur auðvitað voðalega illa hérna. Þessar kvíar eru bara í 900 metra fjarlægð frá Vigur, ég fór og mældi þetta. Við erum að taka á móti ferðamönnum hérna á sumrin og laxeldið hefur yfir sér mjög neikvæða ímynd. Þetta er ekki það sem ferðamenn vilja sjá. Það fyrsta sem þeir sjá þegar þeir koma á bryggjuna hjá okkur eru þessar kvíar,“ segir Gísli Jónsson, eigandi eyjunnar Vigur í mynni Skötufjarðar í Ísafjarðardjúpi, aðspurður um sjókvíar sem laxeldisfyrirtækið Háafell hefur sett niður rétt við eyjuna. Háafell er í eigu útgerðarfélagsins HG, Hraðfrystihússins Gunnvarar á Ísafirði.
„Þetta er ekki það sem ferðamenn vilja sjá“
Gísli segir að sjónmengunin af sjókvíunum sé mikil og að þetta muni hafa áhrif á þá um það bil tíu þúsund ferðamenn sem koma í Vigur á ári. „Fólk er að leita í þessa náttúru sem er hér og hversu villt þetta er. Ég held að þessar kvíar muni hafa áhrif á ferðaþjónustuna hjá okkur. Fólk kemur hingað til að upplifa náttúruna af því það vill fara á staði þar sem maðurinn er ekki búinn að yfirtaka náttúruna. Hér höfum við verið að víkja fyrir náttúrunni en í laxeldinu er maðurinn einmitt ekki að gera það. Þetta hefur akkúrat öfug áhrif á fólk.“
Ferðaþjónustan mikilvægasta tekjulind Vigurbóndans
Gísli keypti Vigur árið 2019 og býr þar allt árið ásamt fjölskyldu sinni. Hann segir að ekki hafi verið búið að fastsetja að kvíarnar yrðu settar niður við Vigur þegar hann keypti eyjuna. Hins vegar hafi laxeldisfyrirtæki verið búin að sækja um leyfi til að setja niður kvíar um allt Djúp.
Gísli stundar æðardúntekju og ferðaþjónustu; fer með fólk í skoðunarferðir um Vigur og er með veitingaþjónustu. Hann segir að ferðaþjónustan sé mikilvægari tekjulind fyrir Vigur en dúntekjan. Í Vigur er stærsta lunda- og teistubyggð í Ísafjarðardjúpi.
Á sumrin, þegar skemmtiferðaskip koma til Ísafjarðar, eru siglingafyrirtæki þar í bæ í akkorði í siglingum um Ísafjarðardjúp, meðal annars til Vigur. Einum ferðamannhóp er skutlað út í eyju og svo er næsti hópur sóttur. „Við höfum verið að skoða hvali, hnúfubaka, um það bil þar sem þessar kvíar eru. Ég hef áhyggjur af því hvað verður um þessa hvali nú þegar kvíarnar eru komnar þarna því hvalirnir eru þarna í æti, rækju og öðru, sem laxeldið getur haft áhrif á. Ferðamennirnir koma hingað til að skoða hvali og vilja ekki sjá þessar kvíar,“ segir Gísli.
Ekki mótfallinn laxeldi sem slíku
Gísli segir aðspurður að hann sé ekki mótfallinn laxeldi sem slíku og að það sé jákvætt að laxeldið á Vestfjörðum skapi þar atvinnu. Hins vegar þá passi laxeldi illa við atvinnugreinina ferðamennsku á Vestfjörðum. „Það er frábært að laxeldið skapi atvinnu hérna, eins og til dæmis í Súðavík, því ekki veitir nú af. Hins vegar stangast þetta á, þessar tvær atvinnugreinar, og þær fara ekki vel saman,“ segir Gísli en með þess á hann við að ferðamennskan á Vestfjörðum snúist um að sýna fólki hreina og óspillta náttúru en að laxeldið í Ísafjarðardjúpi spilli náttúrunni þar og upplifun fólks af henni.
Hann segir auk þess að annað sem hann hafi áhyggjur af sé að laxeldið skilji eftir litla tekjur og fjármuni í sveitarfélaginu. Gísli segir að það sem hafi gerst í laxeldi á suðvestanverðum Vestfjörðum er að laxeldið er upphaflega sé það kannski í eigu fyrirtækja á svæðinu en svo sé þetta selt til erlendra fyrirtækja. „Þetta er svo bara selt til erlendra fyrirtækja og eftir verður ekki neitt. Það kemur ekkert til sveitarfélagsins, það eru engar tekjur af þessu, til dæmis í Arnarfirðinum. Það er engin leiga af því að fá að hafa þetta í sjónum. Það er bara kostnaður við eitthvað leyfi sem er afar lítill og verðmætin sem skapast í þessu laxeldi eru fyrst og fremst að hafa þessar staðsetningar og að eiga leyfin. Þarna verða til margir milljarðar og þetta skilar sér ekkert til samfélagsins. Mér finnst þetta bara ekki rétt,“ segir Gísli.
Gísli segir að hann hafi ekki íhugað að leita réttar síns vegna þess að laxeldiskvíarnar hafi verið settar niður svo nálægt Vigur. Hann ætli að lifa með þeim, þrátt fyrir að það sé kveðið á um það í lögum að það megi ekki setja slíka starfsemi niður svo nálægt æðarvarpi á Íslandi. „Við viljum bara lifa í sátt og samlyndi við umhverfi okkar hér. En okkur finnst þetta miður og þetta hefur neikvæð áhrif á okkur hér.“
Tekjulind margra fyrirtækja á Ísafirði
Eins og segir á heimasíðu Ísafjarðarbæjar þá eru viðskipti við farþega skemmtiferðaskipa mjög mikilvægur þáttur í rekstri margra fyrirtækja á norðanverðum Vestfjörðum. Þar er sérstaklega rætt um viðskipti þessara farþega við ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu.
Orðrétt segir á heimasíðu bæjarins um eyðslu hvers farþega í landi: „Ríflega 2/3 hlutar eyðslunnar (um 11.700 kr.) voru í ferðir innan svæðisins, en viðskipti við farþega skemmtiferðaskipa eru hryggjarstykkið í rekstri fjölmargra ferðaþjónustufyrirtækja og stofnana á norðanverðum Vestfjörðum, ekki eingöngu í Ísfjarðarbæ. Má þar nefna safnið Ósvör í Bolungarvík, en án skemmtiferðaskipa væri rekstur þess ekki sjálfbær.“
Samkvæmt töflu á heimasíðu Ísafjarðar er áætlað að 200 þúsund farþegar komi til Ísafjarðar með þessum skemmtiferðaskipum í sumar. Gróflega 2/3 hluti eyðslu þessa fólks fer í að borga fyrir aðgang að náttúru Vestfjarða.
Ferðaþjónustufyrirtæki á Ísafirði, meðal annars gamalgróna siglingafyrirtækið Sjóferðir sem í gegnum tíðina hefur verið kennt við eigendurna Hafstein og Kiddýju en sem skipt hefur um eigendur, hefur tekjur af því að sigla með ferðamenn í Vigur á sumrin. Svo eru fleiri ferða- siglingafyrirtæki á Ísafirði sem fara með fólk í hvalaskoðun í nágreinni Vigur og stoppa svo í eyjunni, hjá Gísla og fjölskyldu, og koma þar í skoðunarferðir og kaffi. Fyrirtækið Vesturferðir selur ferðamönnum farmiða í þessar siglingar.
Laxeldið við Vigur mun því mögulega hafa áhrif á ýmsa aðila á Ísafirði ef Gísli hefur rétt fyrir sér.
og vart hægt að finna fallegri stað en Vigur, á Íslandi.