„Hvers vegna eru samskipti við ESB um mögulegar þvingunaraðgerðir ESB gagnvart kjörræðismanni Íslands óformleg? Væri ekki eðlilegt að slík samskipti væru formleg og skráð til hins ýtrasta ef ESB væri að ósekju að ganga þannig að kjörræðismanni Íslands? Hverjar eru reglur um hvort erindi skuli vera formleg eða óformleg? Hver tekur slíka ákvörðun? Hvaða reglur gilda um skráningu óformlegra erinda,“ spyr Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í skriflegri fyrirspurn til utanríkisráðherra, sem lögð var fram í byrjun vikunnar.
Utanríkisráðuneytið staðfesti á dögunum í svari til Stundarinnar að hafa í desember 2020, hátt í þrjátíu skipti hringt, sent fyrirspurnir og átt fundi með fulltrúum aðildarríkja ESB, í kjölfar þess að kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi viðraði áhyggjur sínar af því að lenda mögulega á lista einstaklinga sem sættu viðskiptabanni, vegna tengsla við einræðisherrann Aleksander Lukashenko.
Ráðuneytið neitar hins vegar að afhenda nokkur gögn um þessi samskipti, á þeirri forsendu að þau hafi öll verið trúnaðarsamtöl. Stundin hefur óskað eftir frekari sundurliðun á þessum samskiptum en beiðninni hefur enn ekki verið svarað.
Utanríkisráðherra hefur ítrekað vísað í upplýsingar úr þessum gögnum, þegar hún hefur hafnað því að ísenska ríkið hafi með þessum samskiptum reynt að beita sér gegn því að kjörræðismaðurinn eða fyrirtæki hans yrðu fyrir viðskiptaþvingunum ESB. Einungis hafi verið um að ræða fyrirspurnir, þvert á það sem fjöldi viðmælenda Stundarinnar hafa lýst.
Í því samhengi er fullyrt að milljarða árlegir viðskiptahagsmunir íslenskra útgerða, hafi ráðið för. Kjörræðismaðurinn Aleksander Moshensky hefur enda verið umsvifamikill fiskkaupandi ekki síst eftir að Rússar lögðu viðskiptabann á íslenskan fisk. Með Moshensky sem millilið hefur íslenskum útgerðum tekist að koma íslenskum fiski á markað í Rússlandi. Og notið til þess pólitískra tengsla Moshensky við einræðisherrann Aleksander Lukashenko, samkvæmt fréttum í Hvíta-Rússlandi.
Fyrirspurnin til utanríkisráðherra inniheldur spurningu um þessi viðskiptatengsl og hvort íslenskum stjórnvöldum hafi verið kunnugt um að íslenskum fiski hafi verið endurpakkað í Hvíta-Rússlandi og uppruni vörunnar sagður þar, áður en hann var fluttur til Rússlands.
Í fyrirspurn Björns Leví er jafnframt spurt um hvenær og hversu oft ráðuneytið hafi átt í samskiptum við kjörræðismanninn frá því hann var skipaður í embættið árið 2007, og hversu oft þau samskipti hafi snúist um boðuð áform ESB um að beita Moshensky viðskiptaþvingunum.
Yfirlýsing utanríkisráðherra í svari til Stundarinnar í byrjun mars, á þá leið að ráðherra teldi orðum aukið að kalla Moshensky náinn bandamann Lukashenko, vakti nokkra athygli. Ekki síst meðal talsmanna landflótta Hvít-Rússa og stjórnarandstæðinga í landinu, sem bentu á margháttuð augljós tengsl þeirra. Síðar kom í ljós að eina heimild ráðuneytisins fyrir þessari fullyrðingu var Moshensky sjálfur, í bréfi til ESB þar sem hann varðist fyrirhuguðum viðskiptaþvingunum. Ráðherra hefur í opinberri umræðu vísað til þessa bréfs og sagt það opinbert gagn, en engu að síður hefur Stundin ekki fengið aðgang að því, hvorki í ráðuneytinu né frá Moshensky sjálfum.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er efni bréfsins þó ekki skýrt um samband Lukashensko og Moshensky. Þar er hvergi vikið orði að fjölmörgum atriðum sem benda ótvírætt til þess að Moshensky hafi notið velvildar forsetans, í skiptum fyrir stuðning við hann. Nokkuð sem ítrekað hefur verið fjallað um í fjölmiðlum innan og utan Hvíta-Rússlands.
Björn Leví spyr í því ljósi sérstaklega um hvort íslenskum stjórnvöldum hafi aldrei borist ábendingar eða athugasemdir við stöðu Moshensky sem kjörræðismanns:
„Hafa íslenskum stjórnvöldum einhvern tíma borist ábendingar eða athugasemdir um meinta spillingu eða pólitísk tengsl Mosjenskís við Aleksander Lúkasjenkó eða hvítrússnesk stjórnvöld? Ef svo er, hvenær og hversu oft,“ segir í fyrirspurnininni sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mun svara skriflega á næstu vikum.
https://www.ukrinform.net/rubric-ato/3468225-ukrainian-icelandic-diplomats-discuss-joint-action-to-stop-russian-aggression.html