Íslandsbanki segir að setja þurfi lög til að hægt sé að breyta verklagsreglum bankans um hvernig hluthafarnir fá að kynna sér hluthafaskrá bankans. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Íslandsbanka. Eins og Stundin greindi frá í gær reyndi einn hluthafi í Íslandsbanka að kynna sér hluthafaskrá bankans til að fá svar við spurningunni hverjir það voru sem tóku þátt í nýlegu útboði íslenska ríkisins á 22,5 prósenta hlut í bankanum. Maðurinn sagði að verklagið sem bankinn viðhefur þegar slík skoðun fer fram hjálpi ekkert við aðstoða hluthafa til að fá svar við þeirri spurningu.
Útboð ríkisins á hlutabréfum í Íslandsbanka í lok mars hefur verið gagnrýnt þar sem 140 litlir íslenskir fjárfestar tóku þátt í því. Þetta virðist stríða gegn upphaflegu hugmyndinni um útboðið sem byggði á því að stærri aðilar, langtímafjárfestar, kæmu frekar að útboðinu. Raunin varð hins vegar sú að 140 litlu aðilar keyptu rúmlega 30 prósent bréfanna. Til samanburðar keyptu lífeyrissjóðir rúm 37 prósent.
Samtals var um að ræða tæplega 7 prósenta hlut í bankanum sem þessir 140 aðilar keyptu með afslætti fyrir rúmlega 16 milljarða króna. Ekki liggur fyrir hvaða aðilar þetta voru þar sem Íslandsbanki hefur sagt að ekki sé lagaheimild til að greina frá því hverjir tóku þátt í útboðinu. Á meðan listinn er óbirtur hvílir leynd yfir því hverjir fengu að kaupa þessi bréf.
Hluthafinn komst lítið áfram
Samkvæmt hlutafélagalögum mega eigendur hlutafélaga kynna sér hlutaskrá fyrirtækisins á skrifstofu þess. Ekki er hins vegar nákvæmlega kveðið á um það í lögunum hvernig skoðunin á hluthafalistanum á og má fara fram. Samkvæmt manninum sem vildi kynna sér hluthafalista Íslandsbanka þá var erfitt fyrir hann að gera sjálfstæða athugun á listanum þar sem hann mátti ekki fletta í honum sjálfur, hann mátti ekki afrita hann og starfsmaður bankans var með honum allan tímann og stýrði skoðuninni á hluthafalistanum.
„Til þess að heimila afritun eða gagnavinnslu þyrfti að koma til lagaheimild“
Um þetta sagði maðurinn: „Ég hefði viljað hafa gögnin á borðinu og ég hefði viljað taka minn tíma í þetta. Ég get ekki skoðað eldri hluthafalista, ég get ekki séð hverjir keyptu eða einhverja sögu og ég gat ekki verið klukkutíma að skoða þetta. Maður er þarna með manneskju og hún segir við mann, viltu að ég skrolli, viltu að ég fletti upp á þessu. Ég fékk aldrei að snerta músina. Ég get ekkert unnið með þessar upplýsingar. Þetta er flott show en þetta hafði ekkert upp á sig fyrir mig. Ég get farið aftur í dag en þá kemur spurningin: Hversu miklum tíma nenni ég að eyða í þetta? Þetta hjálpar ekkert við að svara þeirri spurningu hverjir voru að kaupa.“
Engin lagaheimild til afritunar
Samkvæmt svarinu frá Íslandsbanka er ekki heimild í lögum fyrir því að hluthafar megi afrita hlutaskránna þó heimildin um að kynna sér hana sé sannarlega til staðar. Orðrétt segir bankinn: „Samkvæmt lögum hafa hluthafar aðgang að hlutaskrá og mega kynna sér efni hennar. Í því felst hvorki heimild til afritunar, ljósmyndunar eða gagnavinnslu. Til þess að heimila afritun eða gagnavinnslu þyrfti að koma til lagaheimild. Til þess ber jafnframt að líta að persónuverndarlög kynnu að takmarka allar slíkar heimildir, þar sem að í hluthafalista er að finna persónugreindar upplýsingar.“
Ráðherrar vilja birta listann
Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa kallað eftir því að hluthafalistinn verði birtur.
Katrín hefur sagt að jafnvel þurfi að breyta lögum til að hægt sé að birta listann. Hún hefur sagt um málið: „Hins vegar er það algerlega ljóst af minni hálfu að þegar ríkiseign á borð við Íslandsbanka er seld þá á að liggja fyrir hverjir keyptu. Það eru upplýsingar sem íslenskur almenningur á heimtingu á. Ef einhver tæknileg atriði valda því að Bankasýsla ríkisins telur sig ekki geta birt þær upplýsingar tel ég réttast að Alþingi geri viðeigandi breytingar á lagaumhverfi þannig að unnt sé að birta þær því að annað gengur ekki.“
Bjarni hefur sagt að hann vonist til að hægt verði að birta hluthafalistann ef lög heimila það og kallaði hann eftir honum með bréfi til Bankasýslu ríkisins í lok mars. Samkvæmt síðustu fréttum hefur Bankasýsla ríkisins ekki svarað fjármálaráðherra um þetta erindi hans.
Stjórnarformaður bankasýslunnar, Lárus Blöndal, og forstjórinn, Jón Gunnar Jónsson, eru hins vegar í viðtali á vef Morgunblaðsins í dag og þar kemur fram að ólíklegt sé að stofnunin hafi heimild til að birta hluthafalistann. Svar Lárusar er hins vegar ekki endanlegt eða formlegt og mun stofnunin væntanlega svara fjármálaráðherra með þartilgerðum hætti. Þetta mat Bankasýslunnar byggir hins vegar á lögfræðiáliti og áliti frá Íslandsbanka sjálfum.
Athugasemdir (2)