Lögmenn bresku lögmannsstofunnar Peters & Peters krefjast þess í bréfi til ritstjóra Stundarinnar að Stundin fjarlægi allar greinar sem birst hafa um Aleksander Moshensky, kjörræðismann Íslands og þekktan hvít-rússneskan ólígarka.
Lögmennirnir sem starfa fyrir Moshensky fullyrða í bréfi sínu að umbjóðandi þeirra telji upplýsingar um sig sem fram kom í greinunum ýmist rangar eða villandi. Auk þess hafi ekki verið rætt við hann í tengslum við greinarskrifin.
Af þeim sökum krefjist Moshensky þess að greinarnar fjórar sem fjölluðu um hann í síðasta tölublaði og á vef Stundarinnar, verði fjarlægðar af vefnum.
Til stuðnings fullyrðingum um að umfjöllun um Moshensky hafi verið röng eða misvísandi, nefna lögmennirnir þá staðreynd að vísað hafi verið til þess að Moshensky hafi ítrekað verið kallaður „veski Lukashenko“, sem sé meiðandi og gefi til kynna að Moshensky tengist spillingu eða óeðlilegum viðskiptaháttum. Lögmennirnir fullyrða ennfremur að vísan til þessa viðurnefnis sé úr lausu lofti gripið og styðjist ekki við annað en nafnlausar heimildir.
Rétt er að taka fram að Moshensky hefur ítrekað á síðastliðnum áratug, verið nefndur ýmist beint eða ásamt hópi annarra, sem einn af „veskjum Lukashenko“ í umfjöllun fjölmiðla, bæði ítrekað í fréttum fjölmiðla í Hvíta-Rússlandi, Rússlandi og víðar. Rétt eins og á heimasíðu Svetlönu Tikhonovskayu.
Um mitt síðasta ár tiltók David Kramer, fyrrverandi aðstoðar innanríkisráðherra Bandaríkjanna, nafn Moshensky sérstaklega þegar hann vísaði til „veskja Lukashenko-stjórnarinnar“ sem þyrfti að beita viðskiptaþvingunum í umræðum fyrir mannréttindanefnd bandaríska þingsins.
Í bréfi lögmanna Moshensky er ennfremur fullyrt að í umfjöllun Stundarinnar hafi því verið haldið fram að Moshensky styddi óbeint innrás Rússa í Úkraínu. Það er ekki rétt. Hins vegar sagði Andrei Sannikov, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, að hann liti svo á að stuðningur íslenskra stjórnvalda við Aleksander Moshensky, hefði tryggt Lukashenko í sessi og þar með möguleika Rússa á að nýta landið undir innrásina. Natalia Kaliada, stjórnarandstæðingur og meðlimur þess hóps sem sótt hefur á ESB um viðskiptaþvinganir undanfarin áratug, sagði einnig:
„Ísland ætti að skera á öll þessi tengsl. Algjörlega og afgerandi. Það að hann sé enn kjörræðismaður Íslands er ekkert annað en stuðningur við innrásina í Úkraínu, það er bara þannig.“
Lögmennirnir ítreka svo fyrri skýringar Moshenky, sem gerð voru skil í umfjöllunar Stundarinnar, að hann hefði ekki sloppið undan viðskiptaþvingunum ESB af annarri ástæðu en þeirri að ESB hefði áttað sig á því að hann ætti ekkert erindi á slíka þvingunarlista, enda hefði hann ekkert sér til slíkra saka unnið. Hann hefði því ekki þurft aðstoð íslenskra stjórnvalda eða annarra til að losna þaðan, þvert á það sem viðmælendur Stundarinnar hafa sagt.
Stundin hefur svarað kröfu Moshensky og lögmanna hans og hafnað því að fjarlægja greinar sínar um kjörræðismanninnn. Jafnframt hefur viðtalsbeiðni Stundarinnar til Moshensky frá því fyrr í þessari viku, verið ítrekuð.
Þó við séum ekki alltaf sammála eða sátt við öll efnistök, er um að ræða hornstein lýðræðis og vörslu mannréttinda alls almennings með upplýsingum. Ef við eigum að njóta þess verður að tryggja að blaðamenn geti í eðlilegum og mikilvægum störfum sínum fundið að þeir njóti verndar okkar og samfélagsins.
Blaðamenn eiga rétt á sjálfri öryggistilfinningunni líka.
Það felst ógnun í svona erindum frá auðmönnum.