Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, hefur ákveðið að loka urðunarstaðnum á Bolöldu. Um margra ára skeið hefur ýmis konar úrgangur verið urðaður á svæðinu, sem frá árinu 2019 hefur verið í umsjón forsætisráðuneytisins og skilgreint er sem þjóðlenda.
Stundin fjallaði ítarlega um málið fyrir stuttu. Endurvinnslan hf. urðar allt að 5 þúsund tonn af gleri, sem neytendur skila til fyrirtækisins í formi drykkjaríláta, árlega á svæðinu. Þá hefur ýmis konar úrgangur, sem ekki er leyfilegt að losa á svæðinu, verið losaður þar.
Elliði staðfestir fyrirhugaða lokun urðunarstaðsins í samtali við Stundina. Lokunin mun taka gildi 1. apríl næstkomandi, eða eftir rúma viku. „Já, við erum að stefna að því að loka Bolöldu frá og með 1. apríl. Þetta gerum við vegna þess að það er í raun og veru enginn samningur í gildi um Bolöldu og það er ekkert efni að fara úr sveitarfélaginu Ölfuss í Bolöldu. Einnig á rekstraraðilinn erfitt með að sinna uppbyggingu á svæðinu. Ef engin breyting verður á þessu þá stefnum við að loka svæðinu þann 1. apríl fyrir efnismóttöku.“
Mikið magn losað í þjóðlendunni
Á hverjum degi koma 300 vörubílar og losa úrgang við Bolöldu. Oftast er eingöngu einn starfsmaður á svæðinu. Hann sinnir þar eftirliti ásamt því að vinna á jarðýtu sem færir til og sléttar það efni sem losað er. Samkvæmt heimildum Stundarinnar gerist það oft að starfsmaðurinn vísi burt vörubílum með úrgang sem ekki má losa á svæðinu. Engu að síður er ólögmætur úrgangur oft falinn í farmi bíla sem þangað koma og því ómögulegt fyrir einn starfsmann að fylgjast með öllu því sem losað er. „Margir taka sénsinn,“ eins og einn heimildarmaður Stundarinnar orðaði það við blaðamann. „Það eru engar afleiðingar, ef maður er gripinn er manni bara sagt að snúa við svo það er ekkert mál að taka bara sénsinn því það er engin sekt.“ Séu menn gripnir fara þeir einfaldlega upp í Sorpu og borga fyrir úrganginn, sem þeir geta freistað þess að losa frítt í Bolöldu. Elliði segir að eftir lokun urðunarstaðarins muni öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þurfa að leita annað með sinn úrgang sem hefur nú hingað til verið farið með í Bolöldu. Þá verður efni sem ekki má vera á svæðinu fjarlægt.
„Við erum nú þegar búnir að funda með aðilanum sem er með reksturinn þarna og hann hefur bara í hyggju að skilja vel við svæðið og fjarlægja það efni sem ekki á að vera þarna og verður sent í viðeigandi úrvinnslu. Svo verða bara sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að finna sér annan urðunarstað ef ekki verða breytingar á.“
Segir höfuðborgarsvæðið verði að axla ábyrgð
Þá segir Elliði einnig að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verði að axla ábyrgð á þeim úrgangi sem hefur verið losaður í Bolöldu.
„Ég get ekki fullyrt um það, en mig grunar það“
„Við viljum náttúrulega að þau sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem eru að nýta þennan móttökustað, að þau axli ábyrgð á því, efnið er að koma af höfuðborgarsvæðinu. Það er okkur að meinalausu ef þau finna annan stað til þess að urða allt þetta efni, en ef þau ætla sér að senda 250 til 300 bíla á dag þá verða þau að sinna þessu.“
Aðspurður hvort hann telji að eftirlit á svæðinu hafi brugðist segir Elliði að hann gruni það og vill að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fylgist með svæðinu.
„Ég get ekki fullyrt um það, en mig grunar það og það þurfi að standa betur að eftirlitinu og jafnvel að það sé einhver frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að fylgjast með og sjá um eftirlitið. Til að mynda er vatnsverndarsvæði Kópavogs þarna hliðin á, þess vegna þarf að gera þetta sérstaklega vel.“
Gjaldfrjáls losun fyrirtækja – sveitarfélögin borga
Það getur verið mjög fjárhagslega hagkvæmt að losa úrgang í þjóðlendunni Bolöldu. Eftir að Sorpa hækkaði verðskrá sína umtalsvert hefur umferðin aukist á staðnum. Þá er engin sýnataka á efni, svo auðvelt er að losa til dæmis olíumengaðan jarðveg eða annað úrgang sem þyrfti að greiða fyrir hjá Sorpu að losa sig við.
Notist fyrirtæki við urðunarstað Sorpu á Álfsnesi þurfa þeir að greiða fyrir losunina. Getur því umtalsverður sparnaður myndast með því að aka úrgangi upp í Bolöldu. Kostnaður við rekstur Bolöldu er greiddur af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þau greiða fyrirtækinu Fossvélum tugi milljóna króna árlega fyrir að reka urðunarstaðinn.
Sveitarfélögin greiða fastan kostnað upp á rúmar 10 milljónir króna á ári til Fossvéla ásamt því að borga 50 krónur á hvern rúmmetra sem er losaður á svæðinu. Samningur þess efnis var gerður í febrúar árið 2012 og gilti til eins árs. Þrátt fyrir það er enn greitt eftir honum.
Frá árinu 2015 til 2020 greiddi Reykjavíkurborg 167 milljónir króna, á núvirði, vegna losunar á jarðvegi í Bolöldu. Þá er ótaldar milljónirnar sem hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig greitt vegna losunar á svæðinu.
Snýst um sparnað
Eitt skýrasta dæmið um hvernig fyrirtæki spara sér kostnað með því að urða úrgang við Bolöldu, er af fyrirtækinu Endurvinnslunni hf., sem flestir neytendur kannast við enda fer fyrirtækið með einkarétt á móttöku á flöskum og dósum; svokölluðum skilagjaldsumbúðum.
Það sem fæstir vita er að allar þær glerflöskur sem safnast saman af heimilum fólks og fara þaðan í endurvinnslu, enda í jarðveginum við Bolöldu. Hver ein og einasta glerflaska, eða um 5 þúsund tonn árlega, enda í þjóðlendunni við Bolöldu, samkvæmt samningi Endurvinnslunnar við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.
„Okkur finnst þetta metnaðarleysi hjá Endurvinnslunni“
Endurvinnslan sparar sér 34 milljónir króna á því að fara ekki með glerið í Sorpu, samkvæmt gildandi gjaldskrá. Um 100 þúsund krónur á hverjum degi ársins, samkvæmt því sem Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar hf., sagði í bréfi til Reykjavíkurborgar.
Borgin hefur mótmælt því að glerið sé urðað við Bolöldu en þar sem ákvörðunarvaldið er í Ölfusi hefur borgin lítið um það að segja. Jafnvel þó hún beri kostnaðinn að stórum hluta.
„Bolalda er ekki í landi Reykjavíkur og við höfum ekki með leyfismál þessa móttökustaðar að gera. Við höfum hins vegar sagt Magnúsi hjá Fossvélum að okkur hugnast ekki að flokkuðu gleri frá Endurvinnslunni hf. sé ekið í Bolöldu til urðunar,“ segir í bréfi Guðmundar B. Friðrikssonar, skrifstofustjóra umhverfisgæða Reykjavíkurborgar, til Helga Lárussonar, framkvæmdastjóra Endurvinnslunnar hf., þar sem hann bendir á að um sé að ræða 100 prósent endurvinnanlegt gler, sem eigi að urða með jarðvegsafgöngum.
„Okkur finnst þetta metnaðarleysi hjá Endurvinnslunni, að ætla að keyra glerið í Bolöldu til urðunar þegar stefna stjórnvalda er að koma þessu efni til endurvinnslu. Þetta flokkaða endurvinnsluefni er annars eðlis en uppgröftur af framkvæmdasvæðum og mjög líklegt að urðun efnisins fái neikvæða umfjöllun sem muni beinast að sveitarfélögunum. Veit að nágrannar okkar í Kópavoginum eru sömu skoðunar.“
Athugasemdir (2)