Joðtöflur hafa selst upp í apótekum hér á landi síðustu daga, sökum ótta fólks við hugsanlega beitingu Rússa á kjarnavopnum. Hið sama á við um fleiri Evrópulönd. Finnska ríkisútvarpið greindi frá því í síðustu viku að joðtöflur væru uppseldar í fjölda apóteka þar í landi og síðastliðinn mánudag þáðu hátt í 30 þúsund Belgar ókeypis joðtöflur í apótekum í Belgíu.
Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, sagði í dag að ef þriðja heimsstyrjöldin brytist út myndi kjarnorkuvopnum verða beitt og um gjöreyðingarstríð yrði að ræða. Bætti hann þar enn á þær hótanir sem Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur haft uppi, meðal annars með því að greina frá því að þær sveitir rússneska hersins sem fari með kjarnorkuvopn hafi verið settar í viðbragðsstöðu.
Joð ver skjaldkirtilinn
Joðtöflur eru notaðar þar sem geislun verður til að verja skjaldkirtil fólks gegn henni. „Tilfellið er að þegar geislavirkni verður, eins og til dæmis í Chernobyl slysinu, losnar út í andrúmsloftið geilsvirkt joð. Þá eru joðtöflur notaðar til að fylla skjaldkirtilinn af joði og þá tekur hann miklu minna inn af hinum geislavirka joði,“ segir Ari Jóhannesson innkirtlafræðingur.
Geislavirkt joð berst í einhverjum mæli með andrúmslofti og hægt er að anda því að sér en það fer ekki síður í matvæli og vatn. „Hættan er sú að það hafi slæmar heilsufarslegar afleiðingar og valdi til að mynda krabbameini í skjaldkirtli. Það sýndi sig enda eftir slysið í kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan, ekki löngu eftir slysið jókst þar krabbamein í skjaldkirtli. Ég hugsa að fólk sem býr í nágrenni kjarnorkuvera til að mynda eigi allt joðtöflur,“ segir Ari enn fremur. Hann telur hins vegar ólíklegt að mikil þörf sé á því fyrir Íslendinga að birgja sig upp af joðtöflum í þessu skyni, en sömu upplýsingar var að fá hjá Geislavörnum ríkisins þegar Stundin leitaði þangað.
Hræðsla fólks við það sem allir vona að verði ekki
Þórbergur Egilsson, sviðsstjóri smásölu og rekstarstjóri verslana Lyfju, segir að það litla sem til hafi verið hjá fyrirtækinu af joðtöflum hafi klárast í síðustu viku. „Það er ekki mikil sala á joðtöflum alla jafna. Við áttum einhverjar smá birgðir en ég held að það hafi horfið í síðustu viku. Ég held ég geti nánast staðfest að það sé búið.“
Þórbergur segir að bæði hafi það verið evrópskir túristar sem staddir voru hér á landi en einnig Íslendingar sem komu í apótek Lyfju og keyptu upp joðtöflur. Af samræðum við fólk megi tengja kaupin beint við hræðslu fólks vegna yfirlýsinga Pútíns Rússlandsforseta um mögulega beitingu kjarnavopna. „Þetta er hræðsla fólks við það sem allir vona að verði ekki og fólk grípur þá til allra mögulegra ráða. Kannski má líka rekja þetta til þess að Rússar tóku yfir Chernobyl og fólk óttast það, af hverju hann ætli að dusta rykið þar. Það var það sem við heyrðum frá einhverjum okkar viðskiptavina.“
„Við áttum einhverjar smá birgðir en ég held að það hafi horfið í síðustu viku“
Þórbergur segir að vissulega verði skoðað sérstaklega að kaupa inn meira af joðtöflum ef aukin eftirspurn sé eftir þeim. Hins vegar eigi þetta ekki bara við á Íslandi hefur alls staðar. „Það er alls staðar verið að kaupa upp joð og það getur verið að það sé hreinlega að verða uppselt á heimsvísu. Þá getur verð auðvitað farið að rísa einnig.“
Spurður hvort hann mæli með því að hinn almenni Íslendingur fylli lyfjaskápa sína af joðtöflum dregur Þórbergur nú nokkuð úr því. „Ég myndi biðja fólk um að kynna sér virkni joðs betur áður en það hleypur út í apótek. Þar sem við erum núna þá höfum við frekar miklar efasemdir um gagnsemi þess í þessum aðstæðum.“
Uppfært 2. mars.
Samkvæmt upplýsingum frá Lyfju er ekki skortur á joðtöflum í landinu þó þær séu uppseldar hjá fyrirtækinu. Umræddar töflur eru unnar úr þara úr Breiðafirði og nægt framboð ætti að vera af þeim hjá birgja. Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að fá meira magn af umræddum töflum til sölu í apótekunum.
Athugasemdir (1)