Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, lýsir því þegar maður sem misnotaði yfirburðastöðu sína gagnvart henni tók síðan á móti henni þegar hún var send á Staðarfell í eftirmeðferð. Hún segir að nú sé nóg komið og kallar eftir aðgerðum því „hvert ömurlega málið hafi rekið annað árum saman innan SÁÁ“.
„Þegar ég mætti með rútunni í eftirmeðferð á Staðarfell í Dölum tók á móti mér maður sem var kanóna innan SÁÁ, sá sami hafði misnotað yfirburðaðstöðu sína gagnvart mér þrem árum fyrr. Ég hafði þá verið 17 ára, hann 30 ára. Hann, edrú, gaf mér áfengi, káfaði á mér og tróð tungunni upp í mig. Ég forðaði mér en hann mætti heim til mín um nóttina og vildi komast inn.“
Hún segir að þegar fundum þeirra hafi borið saman á sólríkum sumardegi í Dölunum þremur árum síðar hafi maðurinn kallað hana afsíðis og spurt hvort þau „væru ekki bara ok?“ Það kæmi sér illa fyrir þau bæði að vera eitthvað að ræða þetta. „Þetta er mín saga. Ég hef heyrt óteljandi aðrar, orðið vitni af enn öðru.“
„Mér blöskraði svo óendanlega margt í starfsemi og hugmyndafræði innan SÁÁ.“
Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem Jódís birti í gærkvöldi. Þar segist hún þekkja vel til, sem skjólstæðingur, aðstandandi og starfsmaður til skamms tíma, en hún er jafnframt stofnfélagi í Rótinni - félagi um velferð og lífsgæði kvenna. „Ástæðan fyrir því að ég mætti á stofnfund var fyrst og fremst að mér blöskraði svo óendanlega margt í starfsemi og hugmyndafræði innan SÁÁ. Fyrst og fremst það sem snýr að konum og börnum og þau rótgrónu kvenfjandsamlegu og karllægu gildi sem ríktu innan samtakanna.“
Þá segir hún að margir eigi SÁÁ margt að þakka, þar á meðal hún sjálf. Um sé að ræða öflugt meðferðarúrræði en þegar fólk eigi líf sitt að launa úrræði sem það hefur leitað til í góðri trú sé erfitt og sárt að taka undir gagnrýni á starfsemina. Starfsfólk mæti til starfa af heilindum og sinni sjúklingum af alúð á hverjum degi. En yfirmannahrókeringar dugi hins vegar ekki til á meðan menningin breytist ekki. „Eins og aðra heilbrigðisþjónustu eigum við á Íslandi að reka öflugt opinbert kerfi hvar byggt er á klínískri menntun og nýjustu rannsóknum og vísindum. Opinbert eftirlit, opinber fjármál, opinber rannsókn ásakana um ofbeldi,“ segir Jódís. „Það er bara tímabært að við sem samfélag horfumst í augu við að heilbrigðisþjónustu ætti ekki að reka af frjálsum félagasamtökum án þess að nokkurra spurninga sé spurt.“
Væntanlega kemur meira fram á næstunni svo þú skalt ekki örvænta.