Ég elska sóttkví. Maður fær loksins tíma til að kynnast heimilinu og börnunum - í hæfilegri fjarlægð.
Áþján nútímamannsins - að hafa of mikið val og taka of margar ákvarðanir - er aflétt af manni með einu sms-i. Maður fær tækifæri til að hugsa sitt ráð, eins og fangar - og mér hugnast vel að hugsa mitt ráð - nema að maður situr saklaus heima með öllum nútímaþægindum. Um leið er þetta eins og að hverfa aftur til æskunnar í faðm hins stranga en verndandi uppeldis: „Nei, þú ferð ekki út!“
En sumt skil ég ekki, hversu mikið sem ég hugsa mitt ráð. Ég sit inni, grunaður um að vera með vægari útgáfuna af smitpest sem ég er tvíbólusettur gegn, til þess að verja aðra fyrir smiti af mér. En ég má ekki fara í bíltúr. Ég má ekki sitja einn inni í bílnum mínum, einkennalaus, saklaus og allslaus, til að sjá heiminn, því yfirvöld telja að einhvern veginn gæti orðið til atburðarás þar sem ég yrði til vandræða og myndi smita einhvern af pestinni sem er ýmist vægari en áður eða nánast allir fullorðnir eru bólusettir gegn.
Í röð með covid-smituðum
Svo er það hitt, að til að ávinna mér frelsið aftur, þarf ég að fara í gegnum ferli á vegum kerfisins, þar sem ég hangi með covid-smituðum í 15 til 40 mínútur. Ég má ekki fara með grímuna mína, tvíbólusettur og einkennalaus, og jafnvel örvaður, í Krónuna til að kaupa í matinn, en ég skal lufsast eftir þröngum gangi með hóstandi fólki til þess að fá úr því skorið hvort ég er smitlaus eða smitaður, sekur, smekur.
Í gærmorgun um klukkan 9 var röðin tæpar 40 mínútur og náði þónokkuð inn eftir Ármúla, lengra en hjá kosningaskrifstofu Viðreisnar, hvers þingflokkur er allur smitaður, því ótengt. Í morgun um 10 var röðin styttri og tók aðeins korter, þar af tíu mínútur í aðstæðum sem sóttvarnayfirvöld meta sem of hættulegar. Þar erum við, þau saklausu, leidd saman með þeim sem hafa virk einkenni og eru mörg hver væntanlega bráðsmitandi.
Við anddyrið er ungur maður að biðja okkur að hafa strikamerkið tilbúið. Ég held á gleraugunum til að forðast blindandi grímumóðu, tek af mér hanskann, sýni honum símann og hann sprautar umorðalaust spritti í lófann undir símann.
„Átti ég ekki að sýna strikamerkið?“ spyr ég. „Jú, ég er búinn að sjá það,“ svarar hann. Ég reyni að raða ferlinu rétt, sprittið lekur að gleraugunum, ég set þau á mig, skipti símanum yfir í hina höndina, þar sem ég held enn á hinum hanskanum, og spritta þannig aðra höndina gegn hanska. Það gekk samt betur hjá mér en útlenskri konu á eftir mér: „This is for the rapid antigen test,“ segir ungi öryggisvörðurinn. Hún hafði beðið í smitröðinni að óþörfu, í stað þess að fara í skemmtanaröðina, kannski af því að það stóð COVID TEST á upplýstu skilti yfir dyrunum við enda langrar raðar.
Í röðinni sem látin er hlykkjast á tveimur akreinum á ganginum, eins og reykvísk borgargata fyrir Dag, heyrast börnin hósta. „Mér er heitt undir grímunni,“ segir eitt barnið mæðulega, kannski fjögurra ára. „Ég veit,“ segir aðstandandinn. „Næsti!“ hrópar piltur í loðfóðruðum gallajakka sem situr við borðið og hefur það hlutverk að skanna strikamerki og afhenda sýnatökuglasið. Hann hrópar það aftur, aðeins meira pirraður: „Næsti!!“ Tónninn er eins og á skyndibitastað þar sem enginn vill vinna og enginn vill raunverulega versla. „Nafn!“ segir hann, og endurtekur síðan hærra: „Nafn!!“ Hinn grunaði á undan mér svarar lágum rómi og er síðan beðinn að hækka birtustigið á símanum. Þetta er víst algengt vandamál, að skjárinn er í orkusparnaði og sýnir strikamerkið of illa, sem hægir á inntakinu og veltuhraðanum og dregur úr skilvirkni kerfisins.
Getur verið áhættusamt
Áður en ég lagði af stað í gær með tvö börn spurði ég hvort það væri hægt að fara annars staðar í sýnatöku en í röðina frá Ármúla að Suðurlandsbraut 34.
„Góðan dag, er hægt að fara í PCR-próf annars staðar en á Suðurlandsbraut?“ spurði ég.
„Ekki ef fólk er staðsett í Reykjavík, þá er Suðurlandsbraut eini valkostur.“ Broskall.
„Er fólk með einkenni Covid-19 sett í sömu röð og einkennalausir sem vilja komast úr sóttkví?“
„Er fólk með einkenni Covid-19 sett í sömu röð og einkennalausir sem vilja komast úr sóttkví?“ spurði ég emojilaust.
„Já.“ Nú án broskalls.
„Ókei, takk,“ svaraði ég, kominn með úrlausn. „Er ekki metið áhættusamt að vera í 40 mínútur í röð með smituðum?“
„Það getur verið það,“ svaraði Heilsuvera.
Við fimm þúsundin
Samt fór ég aftur í dag. Þá með sjálfan mig. Í tilraun til að endurheimta frelsið með því að sanna smitleysi mitt. Eftir tíu mínútur á smitganginum var komið að sýnatökurýminu. Þar blasti við bjartur led-skjár með mynd af iðagrænum dal, sem kippir manni beint inn í metaversið. Eins og maður sé í órafjarlægð og á indælisstað, sólríkum Alpadal með fjallavatni, þegar annar pinninn fer í kokið og hinn inn í nösina.
Í dag eru 2.023 smitaðir, staðfestir. Þar af tveir á gjörgæslu, 0,1 prósent og þar af 0,05 prósent í öndunarvél. En tölurnar skekkja og blekkja. Í fyrsta lagi tekur tíma fyrir fólk að verða nógu veikt til að fara á spítala. Í öðru lagi eru margir fleiri smitaðir, ógreindir. Þrjú þúsund manns eru eins og ég, grunuð, í sóttkví.
Bólusetningarnar hjálpa ekki gegn smitum
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í pistli í dag að „tvær bólusetningar veita að líkindum litla sem enga vernd gegn smiti eða alvarlegum veikindum“. Hins vegar séu 43% landsmanna komnir með örvunarsprautu sem veiti „talsverða vernd gegn alvarlegum veikindum en litla vernd gegn smiti“.
Við erum því nánast á byrjunarreit, miðað við hans orð, þótt sjúkdómurinn virðist vægari. Smit munu því halda áfram að breiðast út nema gripið verði til harðra úrræða sem varla koma til greina. Um leið og við getum bent á að erlendis sé verið að grípa til harðari takmarkana, eru Íslendingar leiðandi í bólusetningum, gagnslausum sem mildandi. Þórólfur hnykkir út með því að „samfélagslegum aðgerðum þarf jafnframt að beita á hóflegan og skynsamlegan máta til að vernda heilbrigði almennings“.
Að vernda heilbrigði
Þar kemur kjarni málsins, að við erum að vernda heilbrigði. Þó að aðgerðir séu óumflýjanlegar er hægt að uppfæra þær í takt við takmarkið. Það er ekki lengur markmið að útrýma veirunni, heldur lifa með henni með lágmarksskaða þar til tíminn deyfir hana og dreifir henni enn meira.
Það að banna fólki að fara í bíltúr vegna hugsanleika smits, banna þeim að stunda hreyfingu og meina þeim sem eru smitaðir að fara í gönguferðir fjarri öllum öðrum, er mögulega hvorki hóflegt né skynsamlegt þegar kemur að heilbrigði fólks. Eða hvernig er hægt að réttlæta í því ljósi að krefja ósmitaða um að vera í lokuðu rými með hópi þar sem vitað er að smitaðir eru, á meðan það þarf einungis tölfræðilegan grun um smit til þess að banna fólki að fara úr húsi, hvað þá að fara inn í verslun með grímu og tveggja metra bil?
Án vafa eiga mun fleiri en 11 eftir að vera á spítala á næstunni með covid-19. En kannski er núna kominn tími til að milda skaða þeirra smituðu, vitandi að það getur ólíklega valdið verulegri aukningu smita, en býr til tölfræðilegar líkur á einhverjum smitum ef fólk sýnir ekki dómgreind. Við erum með samkomutakmarkanir, sjálfspróf, grímur og lærdóm. Ef ekki hefur fólk aukinn hvata til að leyna smitum, enda geti grunur um smit leitt það og aðstandendur í óöruggar aðstæður og óhóflega frelsiskerðingu. Sóttvarnaryfirvöld spá núna allt að 800 smitum á dag og því þurfum við að spyrja okkur hversu mörg þúsund manns megi vera frelsissvipt hverju sinni án þess að við reynum að gera þeim það bærilegra tiltölulega áhættulítið. Það er ekki til nein góð leið, en markmiðið er væntanlega að finna minnst slæmu leiðina.
Uppfært: Höfundur var í dag sýknaður af grun um covid-smit og honum sleppt út í samfélagið að nýju, í bili.
Athugasemdir