Úrvinnslusjóður hefur ekki enn svarað því af hverju sjóðurinn brást ekki fyrr við því mikla magni af íslensku plasti sem lá óhreyft í um fimm ár, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um það. Málið var rætt á stjórnarfundum sjóðsins fyrir og eftir umfjöllun Stundarinnar í október 2020, en þá var fyrst greint frá því að íslenskt plast mætti finna í vöruhúsi í Påryd í Suður-Svíþjóð.
Úrvinnslusjóður veltir um tveim milljörðum króna á ári og fengu íslensk endurvinnslufyrirtæki allt að 100 milljónir króna fyrir að senda plast til sænska endurvinnslufyrirtækisins Swerec. Um 1.500 tonn af íslensku plasti voru send til Swerec árið 2016.
Þann 14. desember síðastliðinn beindi Stundin skriflegum spurningum til Magnúsar Jóhannessonar, stjórnarformanns Úrvinnslusjóðs, hvers vegna sjóðurinn hafi ekki aðhafst neitt vegna málsins þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um íslenska plastið í meira en ár. Ekkert svar hefur borist.
Athugasemdir