„Ég vil segja ykkur það líka að það verða töluverðar breytingar á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins. Það er ekki alltaf svo þegar ný ríkisstjórn er stofnuð,“ sagði Katrín Jakobsdóttir við kynningu á nýrri ríkisstjórn rétt í þessu.
Miklar tilfærslur verða gerðar á málaflokkum milli ráðuneyta. Nánar er fjallað um nýja stjórnarsáttmálann hér.
Bæði heilbrigðisráðuneytið og umhverfisráðuneytið færast frá Vinstri grænum í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem telur fimm konur og sjö karlmenn.
Vinstri græn hafa verið með umhverfisráðuneytið síðustu fjögur ár og var fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, skipaður ráðherra utan þings. Hans í stað kemur nú Guðlaugur Þór Þórðarson, einn reynslumesti ráðherra landsins, en hann hefur verið utanríkisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er gerður að félags- og vinnumálaráðherra, í stað Ásmundar Einars Daðasonar framsóknarmanns, sem tekur við nýju ráðuneyti skóla- og barnamála.
Þannig verða málefni barna klofin frá menntamálum og félagsmálum og flutt yfir í nýtt ráðuneyti Ásmundar. Menntamálin munu að öðru leyti flytjast yfir í nýtt nýsköpunar- og menntamálaráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Nýsköpunarmálin voru áður í ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, sem var þá ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Vinstri græn munu á móti fá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, sem mun innifela málaflokkin matvælamál. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem VG hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin, því Steingrímur J. Sigfússon stýrði á tímabili málalfokknum í vinstri stjórn með Samfylkingunni áður en Jón Bjarnason tók við af honum.
Viðskipti og menning í sama ráðuneyti
Rétt eins og ráðuneyti um málefni barna virðist sniðið að áherslum Ásmundar Einars Daðasonar fær Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, nýtt, blandað ráðuneyti menningarmála, ferðaþjónustu og viðskipta. Lilja var áður mennta- og menningarmálaráðherra, en sem fyrr segir fóru menntamálin í tvö önnur ráðuneyti: Annars vegar nýsköpunarmál og hins vegar skóla- og barnamála.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, verður ráðherra innviðamála, sem er annað nafn yfir samgönguráðuneytið.
Áfram verður Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Nýir ráðherrar: Willum og Jón
Í stað Áslaugar Örnu, sem verður nýsköpunar- og menntamálaráðherra, verður Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í 18 mánuði, en ráðuneytið mun aftur verða kallað innanríkisráðuneyti. Jón var samgönguráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar árið 2016.
Fráfarandi ríkisstjórn mun funda klukkan 3 í dag. Við svo búið yfirgefa þeir ráðherrar sem hætta fund og ný ríkisstjórn kemur saman, þar sem Willum Þór Þórsson, Jón Gunnarsson bætast í hópinn.
Athugasemdir (2)