„Réttindabréf í byggingu skýjaborga, ja, um hvað er hún? Hún er svona ferðalag fram og til baka, eins og í flestum mínum bókum þá er stokkið úr einu í annað,“ segir rithöfundurinn Eyþór Árnason. „Ég er kannski að lenda í Skagafirði í upphafi bókarinnar, svo þvælist ég um landið aðeins, fer á Vestfirði, stoppa í Reykjavík í kringum pestina ogsvo enda ég í Skagafirði aftur. Ég held að það megi segja það. En um hvað hún nákvæmlega er. Það er eins og margar ljóðabækur, allavega mínar ljóðabækur, það er farið fram og til baka og erfitt að henda reiður á því hvert ég er að fara.“
Þegar hann gaf út fyrstu bókina var alltaf markmiðið að það kæmi bók frá honum annað hvert ár. „Ég var svo bjartsýnn, hélt að þetta bara kæmi alveg af sjálfu sér. Það hefur ekki alveg gengið eftir, en á þessum tólf árum hafa komið sex bækur út, þannig að ég er mjög nálægt þessu. Ekki alveg en þetta er í áttina. Mig vantar þarna aðeins upp á. Ég veit ekki af hverju, þetta er bara eitthvað sem ég beit í mig. En svo er þetta þannig að þú ert búinn með bók eins og þessa og þá svo sem er ekkert, þá er bara autt blað, einhver kannski tvö-þrjú ljóð sem liggja og bíða. Svo heldur maður áfram að safna og svo kannski líða tvö ár, kannski fimm ár, maður veit ekki hvort næsta bók er tilbúin. Þetta er bara orðin árátta, maður heldur bara áfram.“
Stundum líða mánuðirnir án þess að nokkuð gerist
Þegar hann er að skrifa vill hann helst vera einn, en þótt ferlið sé gefandi þá kemur þetta í köstum. „Maður holar sér einhvers staðar niður einn og situr og skrifar og reynir að koma sér í stemningu. Reynir að koma sér í stuð. Þetta er svolítið óreglulegt hjá mér af því ég er náttúrlega í annarri vinnu, ég vinn ekki við það að skrifa, svo að ég verð að nota frítíma, dauðan tíma í þetta. Þetta kemur svolítið í bylgjum, maður fær svona köst og þá kemst maður í stuð og þá skrifar maður á hverjum degi alveg á fullu. Bara um leið og maður kemur úr vinnunni þá hendir maður öllu frá sér og lokar sig af, og það er mjög skemmtilegt. En svo kannski líður hálft ár og ekkert gerist.“
Nú þegar bókin er komin út líður honum mjög vel. „Maður er alltaf glaður að fylgja þessu barni úr hlaði, þetta eru börnin manns. Allt í einu eru þau bara komin í bókabúðina og þar bara eru þau. Það er kannski helst að maður fari í bókabúðir og færi hana framar í rekkanum svo fólk sjái hana, það er svolítið gott. Manni þykir vænt um börnin sín og maður vill þeim allt hið besta. Ekki er verra ef einhver kaupir þetta og hælir manni fyrir. Jú jú, sumir kannski kvarta og segja að þetta sé nú ekki alveg nógu gott hjá þér en það er bara þannig. Þú ert allavega búinn að sleppa þessu og búinn að missa tökin á þessu, það er bara þannig. Það er voðalega góð tilfinning.“
Athugasemdir