Umframframleiðsla er þegar framleiðslufyrirtæki framleiðir of mikið af þeirri neysluvöru sem það vill framleiða. Þannig að þegar eitthvað gengur af selst það oft á góðu verði af því að það er umfram eftirspurn. „Þessi bók er umfram og hún er á mjög góðu verði í til dæmis Eymundsson eða Bóksölu stúdenta og svo er líka hægt að leigja hana á bókasöfnum. Ég hef fengið ágætis viðbrögð við henni. Hún er best til aflestrar seint á kvöldin, kemur manni til svefns og einnig mjög góð til þess að svæfa börn,“ segir rithöfundurinn Tómas Ævar Ólafsson.
„Bókin fjallar um það sem gengur af. Hún eltir svolítið rannsóknir vísindamannsins Duncan MacDougall sem gerði fræga rannsókn árið 1907 þar sem hann vigtaði sex manneskjur á stund dauðans og komst að því, eða því orsakasamhengi, að manneskja léttist um 21 gramm, eða 3/4 hluta úr únsu, þegar hún deyr. Hann ákvað með sjálfum sér og skrifaði grein um það að sál mannsins væri því efnisleg og þetta þung og hyrfi úr líkamanum á stund dauðans.
Við myndum líklega ekki samþykkja þessa rannsókn í dag vegna þess að þetta voru aðeins sex manneskjur og aðeins þrjár af þeim tóku þyngdarbreytingum á stund dauðans. Ég held að aðeins tvær þeirra hafi lést um akkúrat 21 gramm en hin um eitthvað þar í kring. Hann sannprófaði niðurstöður sínar á hundum og hundar léttast hvorki né þyngjast á stund dauðans. En þessi sál, sem við teljum manneskjur hafa, virðist búa í okkur og hverfa þegar við deyjum.“
Ljóð sem enda í angist
Ef hann man rétt fæddist verkið haustið 2018. „Þá var ég að skrifa ljóð sérstaklega fyrir ljóðasamkeppnina Ljóðstafur Jóns úr Vör sem Kópavogsbær heldur utan um. Þar rambaði ég niður á ljóð sem bókin hverfist um, sem heitir 21 gramm, þótt titillinn sé horfinn. Þar er ég að reyna að orða það sem gengur af eða það sem hverfur úr okkur þegar við deyjum, á mjög beinan hátt sem er samt eiginlega ómögulegt. Úr því fæðist síðan systurljóð sem er alveg eins uppbyggt og reynir þetta aftur og endar á allt öðrum stað. En bæði þessi ljóð enda í einhvers konar angist. Annað endar í heimþrá og hitt í áhyggjum af óreglu.
Á undan þessum ljóðum kemur þessi kviða eða bálkur, það fæðist aðalpersóna sem er í vandamálum með sjálfa sig eða sjálft sig, og það er þetta sjálf eða þessi sál sem er að þvælast fyrir manneskjunni sem er að valda henni vandamálum. Hún ber þau vandamál á borð þriggja kvenna. Bókin endar á að skoða þá hlustun þessara þriggja kvenna á aðalpersónu bókar sem er ekki kynjuð en reynir samt að orða þessa umframframleiðslu innra með sér, sem er þá sjálfið og jafnvel þessa sál sem við höfum verið að tala um í árþúsund. Bókin endar á því að vera skoðun á hlustun og viðbrögðum annarra manneskja við því þegar við reynum að orða okkur sjálf.“
Kallar möppuna kistuna
Þegar hann skrifar ljóð hefur hann enga aðferð og segir að það sé örugglega ekki hollt. „Yfirleitt er það þannig að hugmyndin bankar upp á, ég þarf að hripa hana niður og hripa niður hugmyndir. Öðru hverju safna ég þeim í folder í tölvunni minni sem ég kalla Kistan. Þegar kemur að því að búa þau raunverulega til, þetta eru yfirleitt bara tvær-þrjár setningar, eitt mjög slæmt erindi kannski sem safnast fyrir í folderið, og mörg skjöl. Síðan þarf ég að finna tíma til að setjast niður og horfa á þetta. Helst þurfa að vera liðnar svona tvær vikur frá frumskrifunum sjálfum þannig að hugurinn geti byrjað að melta hráefnið og setja það saman. Þá hefst ferlið að vinna úr hráefnunum eins og maður sé að elda eitthvað, setja saman einhverja uppskrift. Það tekur yfirleitt tvo til trjá tíma fyrir hvert ljóð að stilla því upp. Þannig er komið hráefni. Svo hendir maður því í einhvers konar form, stillir því upp og ef maður heldur áfram með líkinguna um að þetta sé uppskrift og maður sé að elda, þá kemur að því að maður þarf að stinga því inn í ofn eða setja það á helluna og bíða eftir hitanum. Þannig að þegar því hefur verið uppstillt og það er komin einhver hugsun sem rennur í gegnum það, þá þarf það oft að bíða aftur í svona tvær vikur, kannski mánuð. Ég má helst ekki sjá eða hugsa of mikið um það, það þarf bara að vera hérna aftast í kollinum og hrærast aðeins. Þegar ég kem síðan aftur að því þá sé ég allt sem mér finnst ekki gott og ég reyni að stroka það út. Bæta kannski inn einhverju sem kemur þá jafnvægi á það sem fer út. Þá endar maður, eða ég, með nokkurn veginn fullunna vöru.
Það er söguþráður í gegnum alla þessa bók, þannig að þegar ég setti hana saman þurfti einhvern veginn að móta ljóðin fyrir söguþráðinn þótt þau hafi verið fullunnin áður en ég fór að gera bókina. Það varð í rauninni aukaferli ofan á þetta allt saman og tók mjög langan tíma og flækti allt saman. Ég fór að taka þau öll í sundur og setja þau upp upp á nýtt og þannig.
Þegar ég skrifa prósa, smásögur, og svo er ég að að vinna að skáldsögu núna, þá er það meira kannski átta tíma vinnudagur. Yfirleitt svona fjórir til fimm. Þá er maður alveg búinn á því eftir að hafa horft á skjalið og reynt að búa eitthvað til. Þá þarf maður bara að sitja og framleiða og nota svo þessa aðferð að bíða þegar maður finnst maður vera með eitthvað fullunnið, eða allavega einhvers konar hugmynd sem gæti staðið. Þá legg ég það til hliðar í minnst tvær vikur í ofninum og síðan kem ég aftur að því og endurskrifa það.“
Enn að reyna að sleppa henni
Hann segir að það hafi verið skrítið að fá Umframframleiðslu í hendurnar. „Einar Kári, útgefandinn minn hjá Unu útgáfuhúsi, bankaði upp á með prufueintak af bókinni og rétti mér. Sú bók leit reyndar ekki svona út, hún var miklu ljósari, hálfhvít, þar af leiðandi ákváðum við að dekkja hana. Þannig að þetta trámatíska ferli að þurfa að gangast við þessari bók fékk svona vinnufundarlegri blæ sem hjálpaði mér mikið. Af því að ég gat horft á kápuna og sagt: Ja, hún þarf að kannski að vera aðeins dekkri. Og þurfti ekki að taka inn þessa stóru hugmynd að hérna væru komnar einhverjar tilraunir mínar til að lýsa einhverjum innri kjörnum manneskjunnar. Þykjast vera einhver heimspekingur um lífið sem er erfitt og leiðinlegt og maður vill ekki gangast við. Þó manni finnist á þeim stundum sem ljóðin banki upp á að maður skilji allt í einu eitthvað og svo hverfur það bara.
Að fá svo safnið af þeim hugsunum í hendurnar og setjast niður með bókinni þá hugsaði ég: Jæja, nú þarf ég að læra að sleppa. Ég er enn þá að reyna að sleppa henni. Það gengur bærilega. Örlítil þjáning, ekki meira en það.“
Athugasemdir