„Þessi bók hérna, hún heitir Meydómur, er hugsuð sem einhvers konar bréf sem aðalpersóna bókarinnar er að skrifa til föður síns,“ segir rithöfundurinn Hlín Agnarsdóttir. „Þetta er lítil stúlka sem er að lýsa því fyrir föður sínum hvernig það var að vera stelpa. Þetta er lítil stelpa sem þekkti aldrei pabba sinn þegar hún var lítil og hann þekkti ekki hana. Svo þegar hann er dáinn finnst henni svo leiðinlegt að hann hafi aldrei kynnst henni þegar hún var lítil.
Eins finnst henni mjög leiðinlegt að hafa aldrei kynnst pabba sínum þegar hún var lítil, þegar hún er orðin fullorðin. Þegar hún er orðin fullorðin skrifar hún látnum föður sínum þetta bréf. Meydómur er lýsing á ferð hennar eða leið frá sakleysi barnæskunnar yfir í það sem við getum kallað uppreisn unglingsáranna. Því hún gerir síðan uppreisn gegn föður sínum vegna þess að þessi faðir var frekar strangur, ekki bara strangur, hann var á köflum ofbeldisfullur. Hún er í raun og veru að ávarpa hann í gegnum þetta bréf. Í leiðinni er hún að reyna að átta sig á því hvers konar persóna hann var.“
Bók sem var fjórtán ár í smíðum
„Ég er búin að vera fjórtán ár að skrifa bókina. Ég byrjaði að skrifa hana sem ljóðabálk, eiginlega ljóð sem fjölluðu um allt þetta sama, um föðurinn og um systkinin því þessi bók er á endanum tileinkuð systkinum mínum, þessum systkinahóp sem er nefndur hérna. Og þessi ljóðabálkur varð til fyrir fjórtán árum síðan. Síðan kom ég honum aldrei frá mér þannig að ég fór að skrifa nokkrum árum seinna prósa, texta sem síðan varð smátt og smátt að þessari sögu um þennan meydóm sem öll bókin snýst um. Þetta er nokkurs konar afmeyjunarferli. Það er að segja, að afmeyjun er ekki bara kynferðislegt orð, það er ekki bara kynferðisleg afmeyjun, heldur afmeyjun í margs konar merkingu. Það er að segja, maður er smátt og smátt sem barn og lítil stúlka afmeyjuð, maður er hertur í því að vera til. Þetta er svona viss herðing sem maður þarf að harka af sér og vera duglegur. Það var allavega í minni æsku þannig að það var mikil áhersla lögð á að börn væru dugleg og hörkuðu af sér og þess vegna voru þau beitt miklu harðræði og jafnvel ofbeldi.
Bókin varð sem sagt til svona, hún er búin að vera í fæðingu í fjórtán ár. Ég er búin að gera ýmislegt annað í millitíðinni og hef skrifað aðrar bækur, skáldsögur og ljóð og fleira. En loksins er hún komin.“
Alltaf viss spenna í kringum viðbrögðin
„Um leið og maður er búinn að skila bókinni af sér til útgáfunnar sem síðan tekur við, þá er ekkert aftur snúið. Ég þurfti að bíða í tvo mánuði eftir bókinni þar til hún kom í hendurnar á mér af því að það urðu smá tafir og það var dálítið erfitt að bíða eftir henni fannst mér. Hún fór fram yfir tímann. Núna er hún komin og hún er komin í búðirnar og ég er ekki búin að fá nein viðbrögð enn þá, og það er alltaf viss spenna í kringum viðbrögðin, hvernig verður henni tekið, hvernig verður skrifað eða fjallað um hana og svo framvegis.“
Vinnuferlið er fastmótað. „Ég er orðin það rútíneruð og vön að ég er tilbúin að taka við hverju sem er, þannig séð. En auðvitað vonast ég alltaf til þess að það sem maður er að senda frá sér hitti í mark. Eða fólk hafi áhuga á að kynna sér það sem maður hefur verið að hugsa um í öll þessi ár. Og sérstaklega í þessu tilviki, þetta er svokölluð sannsaga, sem er íslenskt orð sem er notað yfir skáldskap eða skrif þar sem maður beitir skáldlegum aðferðum til að koma sannri sögu á framfæri. Mikið af þessu byggir í raun og veru á minni eigin æsku og þetta fjallar um systkini mín og foreldra en ég set þetta í skáldlegan búning af því að ég er til dæmis með ljóðaflokkinn sem ég skrifaði upphaflega sem er eiginlega felldur inn í allan textann. Hann er dálítið falinn og birtist allt í einu inni í miðjum textanum.
Þegar ég er að skrifa finnst mér best að vera eins og ég er núna, hérna. Ég vil hafa allt frekar skýrt og hreint í kringum mig, ég vil hafa næði. Ég vil vera úthvíld þegar ég byrja að skrifa á morgnana. Ég vil lifa og ég reyni að lifa heilbrigðu lífi og passa mig mjög mikið á því að hafa alla mína orku alveg óskerta. Ég get ekki gert neitt annað meðan ég er að skrifa en að skrifa. Ég get aldrei verið lengur við tölvuna en þrjá til fjóra tíma á dag. Ofboðslega stór hluti af því að skrifa er að lesa yfir það sem maður hefur gert. Og í raun og veru að ritstýra sjálfum sér, að strika út og bæta við og lesa aftur yfir og leyfa hlutum að gerjast. Þannig að þetta er ekkert flókið umhverfi, ég þarf bara tölvu og skrifborð og kannski eitt herbergi sem er lokað.“
Athugasemdir