Ef einhver efast um mikilvægi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fyrir kjarabaráttuna er ástæða til að rifja upp hvernig hún var orðin: Formenn stéttarfélaganna voru orðnir svo samvirkir atvinnurekendum að þeir voru orðnir meðvirkir og samstiga forstjórunum sem unnu að því að halda launum niðri og sínum uppi.
Konungar verkalýðsins
Árið 2017 fjallaði Stundin um hvernig formenn verkalýðsfélaganna hefðu náð mun meiri árangri í sinni persónulegu kjarabaráttu en kjarabaráttu almennra launþega sem þeir áttu að sinna. Hér eru dæmi:
Laun forseta Alþýðusambands Íslands hækkuðu um 329 prósent á sama tíma og meðallaun hækkuðu um 200 prósent. Fyrir hrun voru laun formanns stéttarfélagsins VR komin upp í tæpar þrjár milljónir króna á mánuði að núvirði. Eftir hrun komst það undir forystu ungs sjálfstæðismanns, guðfræðings og lykilmeðlims í Frímúrarareglunni, Stefáns Einars Stefánssonar, sem nú er viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins við hlið Davíðs Oddssonar. Arftaki Stefáns Einars, Ólafía B. Rafnsdóttir, taldi sig hafa staðið sig sérstaklega vel í starfi og var hækkuð í launum með eftirfarandi rökum: „Formaður hafði að mati launanefndar staðið sig vel í starfi sínu, gætt hagsmuna félags og félagsmanna í hvívetna og leitt félagið farsællega í gegnum erfiðar kjarasamningaviðræður.“
Árið 2015 hækkuðu launþegar í VR um 3,2% í launum, en formaðurinn, Ólafía Rafnsdóttir, hækkaði um tífalt meira, rúmlega 300 þúsund krónur, áður en Ragnar Þór Ingólfsson var kjörinn formaður 2017 og lækkaði launin niður í 1,1 milljón króna, því: „Ef þú ert verkalýðsleiðtogi, ekki skera þér stærri sneið en þú ert tilbúinn til að skera fyrir aðra.“
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, var með jafngildi 1,8 milljóna króna í mánaðarlaun á núverandi verðlagi skömmu áður en Drífa Snædal tók við. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, var þá með jafngildi 1,35 milljóna króna.
Þegar Sólveig Anna Jónsdóttir tók yfir sem formaður Eflingar í október 2018 lækkaði hún laun sín niður í tæpar 900 þúsund krónur á mánuði, fórnaði persónulegum hagsmunum fyrir frumregluna og æðri hagsmuni félagsmanna sinna.
Upprisa láglaunakvenna
Það var bara síðasta vor þegar Sólveig Anna fagnaði „upprisu láglaunakvenna“ í borginni, eftir að hafa náð kjarabótum upp á 112 þúsund krónur á mánuði fyrir þau lægst launuðu. Þetta náðist síðan í gegn í nágrannasveitarfélögunum, í Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Hveragerði og Ölfusi. Eins og alltaf dró Sólveig Anna upp skýra víglínu. „Allar stofnanir valdsins stóðu sameinaðar gegn okkur,“ sagði hún. „Áður þaggaðar og jaðarsettar konur, sem fáir höfðu fram að því haft áhuga á, stigu fram með sjálfsvirðinguna að vopni og skiluðu skömm láglaunastefnunnar þangað sem hún á heima. Láglaunakonur búa yfir ólýsanlegum kröftum sem þær ákváðu að nýta í eigin baráttu frekar en að fórna sér ævina langa í að taka til eftir aðra.“
Það sem Sólveig Anna sagði um fórnina er ekki bara lausleg skoðun hennar, heldur hefur verið sýnt fram á hana með rannsóknum. Konur hafa markvisst verið að fórna heilsunni með álagi og uppskorið lægri laun – lægra metið virði.
Sagan um öryrkja er sagan um konur
Félagsfræðingurinn Kolbeinn H. Stefánsson sýndi fram á það með rannsókn sem hann kynnti fyrir tveimur árum að ólíkt lífshlaup karla og kvenna leiði að þeirri niðurstöðu að konur yfir fimmtugu eru jafnan 60% af örorkulífeyrisþegum og fjölgunin hefur verið mest í þeim hópi undanfarin ár. Ástæðurnar: Þær eru líklegri til að vinna umönnunarstörf, verða fyrir kynbundnu ofbeldi, bera þungann af barnauppeldi og heimilishaldi og eru líklegri til að verða einstæð foreldri.
„Þessar ástæður hafa ekki fengið neitt sérstaklega stórt pláss í umræðunni,“ sagði hann í kynningu á rannsókninni. „Örorka er kynjapólitískt vandamál. Sagan um öryrkja er sagan um konur.“ Þannig er rannsókn og túlkun Kolbeins bein staðfesting á söguskoðun Sólveigar Önnu Jónsdóttur.
Samfélagið sem fórnaði sér
Þegar orsakasamhengið að baki yfirstandandi þjóðfélagsumræðu er rakið upp kemur í ljós að sami þráður liggur þar.
Tökum dæmi: Í júlí 2019 kvartaði eldri maður undan því að komast ekki í hjartaaðgerð. Ástæðan sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gaf upp var að gjörgæslurýmum hefði fækkað. Hún vísaði ábyrgðinni yfir á Landspítalann. Spítalinn svaraði því til að nauðsynlegt hefði verið að fækka sjúkrarúmum „til þess að geta gefið hjúkrunarfræðingum og öðru sérhæfðu starfsfólki frí“. Og ein helsta ástæðan sem hefur verið gefin upp fyrir fækkun sjúkrarýma, sem hefur leitt til þess að færri sjúkrarými eru á Íslandi miðað við íbúafjölda en í nágrannalöndunum, er starfsaðstæður í hefðbundinni kvennastétt: Það eru of fáir hjúkrunarfræðingar. „Skortur á hjúkrunarfræðingum er stóralvarlegt mál í heilbrigðisþjónustunni og það er í fyrsta lagi þar sem vandinn liggur,“ svaraði framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans.
Tvær meginástæður eru fyrir því, annars vegar sú markaðslega að laun hjúkrunarfræðinga eru ekki metin fullnægjandi fyrir fórnina og svo að starfsfólk spítalans verður fyrir sjálfstæðum heilbrigðisvanda við að starfa þar, það brennir sjálfu sér til að bjarga öðrum.
Hálfu ári eftir að maðurinn komst ekki í hjartaaðgerð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum vegna skertra starfsaðstæðna kvenna barst til landsins heimsfaraldur sem spítalinn réði ekki við.
Gjörgæslurýmum hefur verið fækkað um þriðjung frá árinu 2009 og samfélagið þarf að sæta takmörkunum vegna þess að spítalinn ræður ekki við að fólk verði fyrir vægari útgáfu af Covid-19. „En það svo sannarlega strandar ekki á fjárveitingu, það hefur legið lengi fyrir,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um helgina. Þegar hann var spurður í desember 2018 hvort betri laun hjúkrunarfræðinga myndu leysa mönnunarvandann sagði hann: „Vandinn er stærri og hann þarf að leysa með margþættum úrræðum.“ Fyrir þremur mánuðum líkti Bjarni samfélaginu við lest, þar sem einn vagnanna væri með bilaðan hjólabúnað. Hann kvartaði undan afköstum spítalans.
Þessu svaraði hjúkrunarfræðingurinn Elín Tryggvadóttir á Facebook: „Við hjúkrum og læknum ekkert hraðar þótt meiri peningur hafi verið lagður í nýtt þjóðarsjúkrahús, sem enn er bara stór hola við Hringbraut. Við hjúkrum og læknum ekkert hraðar þótt þið hafið bætt í mönnun þegar mannskapurinn sem var ráðinn til starfa er hvorki hjúkrunarfræðingar né læknar hvað þá sjúkraliðar, lífeindafræðingar eða geislafræðingar.“
Þótt orsakir vandamála spítalans, sem aftur orsaka harðari sóttvarnir, séu flóknar og geti stundum snúist um skipulag spítalans, er birtingarmyndin að fólk þarf að fórna sér.
Þótt lítið fari fyrir þeirri túlkun snúast hagfræði og viðskipti að miklu leyti um réttlæti og traust. Í íslensku samfélagi virðist óréttlæti - vanmat á virði ákveðins hóps fólks - nú orðið að krísuvaldi sem kostar þjóðarbúið meðal annars ígildi hálfrar loðnuvertíðar, að mati formanns Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, fyrir utan að sjúklingar eru í gluggalausum rýmum, njóta ekki persónuverndar og segja þar af leiðandi ekki alltaf alla söguna um ástand sitt, starfsfólk er ofhlaðið og vísa hefur þurft manni í hjartaáfalli úr réttum farvegi á bráðadeild vegna þess að hún var yfirfull.
Rökin gegn því að kafna
Réttlæti og ranglæti eru um leið spurningar um stöðu fólks, hvort það sé þolendur eða gerendur. Það snýst um leið um hvort fólk sé í valdastöðu eða ekki.
Í viðtölum eftir afsögn hjá Eflingu sagði Sólveig Anna að fáir hefðu þurft að þola eins grófar árásir í íslensku samfélagi eins og hún. Á sama tíma gerði hún fleiri árásir en aðrir, í stríði sínu fyrir viðurkenningu á virði hefðbundinna kvennastarfa. Hún hefur nýlega kallað konu pólitískan loddara, talaði um blaðamann sem holan mann og ástundaði herskáa orðræðu sem grefur skotgrafir, með því að úrskurða um eðli fólks í yfirlýstu óvinaliði láglaunakvenna.
Án vafa var orðræða Sólveigar Önnu ekki æskileg almenn breytni. En Sólveig Anna talaði út frá neyðarástandi, stríði, en ekki samstarfi, eins og hálaunuðu forverar hennar. Hún talaði að neðan, en ekki úr valdastöðu. Boðskapur Sólveig var tilfinningalegs eðlis en ekki bara rökrænn.
Mörgum þykja tilfinningar ekki eiga rétt á sér í rökræðunum. Það er hins vegar röklega auðvelt að rekja sig niður á réttmæti tilfinninga með því að setja sig í fótspor annars fólks, þótt alger skilningur á aðstæðum annarra sé ekki tilfinningalega mögulegur.
Fólk sem er með útborgaðar 282 þúsund krónur í lágmarkslaun þegar meðalleiguverðið á 100 fermetra íbúð með tvö svefnherbergi er 280 þúsund krónur í vesturhelmingi borgarinnar, upplifir ekki sama veruleika og fólk sem er að fá 280 þúsund krónur í launahækkanir einar og sér og býr í einbýli sem hækkaði um milljón á mánuði í virði síðasta árið. Staðreyndin er sú að fara þarf niður í 50 fermetra íbúð í Breiðholtinu til að eiga von á því að borga helming af útborguðum lágmarkslaunum í húsnæði.
Það að þrífast ekki sem lífvera í tilteknum aðstæðum er ekki röklegt. Það er tilfinning, í neyðarástandi sem ógnar tilvistarlegri velferð viðkomandi. Fólk í þeirri stöðu hugsar það ekki bara rökrænt út frá kaupmætti, samkeppnishæfni fyrirtækja og sínum eigin stórskaðlega verðbólguþrýstingi. Það kafnar. Það lamast, finnur flóttaviðbrögð, en kemst ekki neitt. Því peningar eru eftir allt saman líka lykill að frelsi. Það langar ekki að rökræða um hvernig það að þrengja að hálsi þess dregur úr aðdrætti súrefnis, sem knýr frumur líkamans, heldur langar það að öskra. Og Sólveig Anna öskraði fyrir þetta fólk, sjálf með langa reynslu af láglaunastörfum.
Fólk sem hefur aldrei þurft að efast um að geta veitt börnunum sínum sumarfrí, sem hefur ekki skynjað sig útskúfað í samfélaginu vegna afstæðrar fátæktar og aldrei séð fram á hættuna að börnin upplifi margvíslegar skaðlegar afleiðingar fátæktar, hefur ekki raunverulegan skilning á tilfinningum, raunveruleika og baráttu Sólveigar Önnu – og fordæmir hana eflaust út frá eigin, kolröngum sjónarhóli.
Af röngum sjónarhóli
Stundum getur fólk átt erfitt með að uppfæra hlutverk sitt; að átta sig á því að það er ekki lengur í stöðu þolanda eða þiggjanda, heldur komið í valdastöðu sem gerandi og veitandi. Bæði Sólveig Anna og framkvæmdastjórinn hafa lýst „ofbeldismenningu“ eða „gíslatökumenningu“ starfsfólksins á Eflingu. Þau telja sig hafa verið fórnarlömb undirmanna sinna.
Hvernig sem flóknu neti orsaka og afleiðinga á vinnustað er háttað er alveg ljóst að á vinnustaðnum Eflingu bera framkvæmdastjórinn og formaðurinn mesta ábyrgð gagnvart öllum öðrum.
Það sem gerðist hins vegar næst var eitthvað sem starfsfólk bjóst ekki endilega við. Þau ákváðu að fara og eftirláta öðrum valdastöðurnar. Saga Sólveigar Önnu er að því leyti eins og saga svo margra annarra kvenna, að hún tók höggið sjálf og fórnaði sér.
Á meðan blasir við að flestir þessir jakkafataklæddu karlar sem hrósa nú happi yfir óförum Sólveigar Önnu hefðu aldrei lækkað launin sín fyrir heildina, aldrei fórnað sjálfum sér og aldrei getað sett sig í fótspor fólksins sem hún berst fyrir.
Uppfært: Í gær var starfsmanni Eflingar, sem Sólveig Anna sakaði um hótun, sagt upp störfum af nýjum stjórnendum félagsins. Af því tilefni sagði hann: „Ég galt þess að vera Íslendingur og karlmaður.“ Þá bætti hann við: „Þetta er einhver pólsk útgáfa af stéttarfélagi.“
Athugasemdir