Jón Baldvin Hannibalsson var í morgun sýknaður af ákæru um að hafa áreitt konu kynferðislega í heimili sínu í Salobreña á Spáni í júni árið 2018. Í dómsorði var sagt að ósannað teldist að Jón Baldvin hefði áreitt konuna. Litið var til þess að helstu vitni í málinu voru annars vegar eiginkona Jóns Baldvins og hins vegar móðir konunnar, Carmenar Jóhannsdóttur, sem Jóni Baldvini var gefið að sök að hafa áreitt. Þá var vitnisburður móðurinnar sagður óstöðugur og um sumt í ósamræmi við vitnisburð Carmenar.
Jóni Baldvini var gefið að sök að hafa laugardaginn 16. júní strokið rass Carmenar utanklæða þar sem hún var gestkomandi á heimili hans í Salobreña ásamt móður sinni og fleira fólki. Greindi Stundin í upphafi árs 2019 frá framburði hennar og fleiri kvenna um kynferðislega áreitni. Gefin var út ákæra í málinu í september á síðasta ári. Héraðsdómur vísaði málinu á hendur Jóni Baldvini hins vegar frá í upphafi árs en Landsréttur felldi úr gildi frávísunarúrskurðinn í mars síðastliðnum.
Carmen var gestkomandi á heimili Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, eiginkonu hans, í júní 2018 ásamt móður sinni, Laufeyju Ósk Arnórsdóttur. Carmen lýsti því í viðtalinu í Stundinni að þegar hún hafi staðið upp við matarborð í húsinu og skenkt í glös á borðinu, „þá bara gerði kallinn sér lítið fyrir og byrjaði að strjúka á mér rassinn. Og ekkert bara rétt aðeins, heldur upp og niður strjúka á mér rassinn.“
Laufey móðir hennar staðfestir að hafa séð káf Jóns Baldvins og bar hún það upp á hann við matarborðið. Jón Baldvin harðneitaði að hafa gert nokkuð af sér og kom til orðaskaks þeirra á milli. Þær mæðgur stóðu upp og yfirgáfu heimili þeirra hjóna með það. Bryndís sendi Laufeyju síðan tölvupóst um nóttina með yfirskriftinni Fyrirgefning. „Laufey. Kl. 03: Það er niðdimm nótt. Ég get ekki sofið – andvaka, niðurbrotin. Jón Baldvin liggur í rúminu við hliðina á mér, sofandi svefni hinna réttlátu – eins og barn. Hann skilur ekki enn, að hann hafi brotið af sér,“ segir í upphafi póstsins.
Í dómsorði segir að litið sé til tengsla vitnanna Bryndísar Schram og Laufeyjar Óskar Arnórsdóttur við annars vegar Jón Baldvin og hins vegar Carmen, en þau tengsl dragi úr vægi vitnisburðar þeirra sem óvilhallra. Þá segir að vitnisburður Laufeyjar hafi verið óstöðugur í málinu og á stundum í ósamræmi við vitnisburð Carmenar sjálfrar. Jón Baldvin var því sýknaður og allur málskostnaður greiddur af ríkinu.
Athugasemdir