Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, lögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, var eini fulltrúinn í borgarráði sem gagnrýndi það að ráðið ætlaði að heimila öðru félagi að taka við eignarhaldi og skuldum sem hvíldu á lyfjaverksmiðju Alvotech. Þetta gerðist árið 2014.
Verksmiðjan var þá í byggingu og hafði Reykjavíkurborg samið við félagið Alvogen Biotech vegna byggingar verksmiðjunnar árið áður. Reykjavíkurborg veitti félaginu greiðslufrest, og þar með lán, fyrir gatnagerðargjöldunum vegna framkvæmda við götur að byggingunni. Þetta lán fór á veðbókarvottorð fasteignarinnar, á fyrsta veðrétti.
Í júní 2104 kom svo beiðni frá AlvogenBiotech um að að skuldirnar við Reykjavíkurborg skyldu færðar yfir á nýtt félag, Fasteignafélagið Sæmund, sem er í eigu Róberts Wessman í gegnum flókinn eignastrúktúr í nokkrum löndum.
Málið var tekið fyrir í borgarráði og mótmælti Sveinbjörg Birna því að Reykjavíkurborg heimilaði skuldaraskiptin, og þar með eigendaskiptin, á láninu. Sveinbjörg Birna lagði fram sérstaka bókun þess efnis: ,,Framsókn og flugvallarvinir mótmæla samþykkt um skuldaraskipti á þeim forsendum að almennt eigi að setja framsalstakmarkanir á þau skuldabréf sem útgefin eru vegna gatnagerðargjalda og eftir atvikum annarra gjalda er tengjast lóðum. Í því máli sem hér er til umfjöllunar teljum við að skilyrða eigi framsalið með þeim hætti að tryggt sé að eignarhald á báðum félögunum sé það sama, að öðrum kosti verði upphaflegi skuldarinn skuldbundinn til greiðslu skuldabréfsins.“
Tekið skal að skuldin við Reykjavíkurborg var svo gerð upp.
Fannst skrítið að Róbert eignaðist fasteignina
Sveinbjörg Birna segir við Stundina að það sem henni hafi þótt skrítið í þessu máli var að einhver einn maður hafi þarna verið að eignast fasteignina, jafnvel þó að Reykjavíkurborg hafi samið við annað fyrirtæki. ,,Þetta var fáránlegt. Á endanum var þetta bara í eigu einhvers eins mann, það var bara einhver einstaklingur sem var að fá þennan tékka. Það var ekkert tryggt að þetta yrði ekki selt eða myndi skipta um hendur.“
,,Þarna er bara einhver einn maður að fá þennan tékka“
Beiðni AlvogenBiotech um skuldaraskiptin var samþykkt á fundi borgarráðs með sex atkvæðum og Sveinbjörg Birna eini borgarfulltrúinn sem greiddi atkvæði gegn beiðninni.
Aðspurð segir Sveinbjörg Birna um móttökurnar við gagnrýni hennar í þessu máli. ,,Stemningin í kringum þetta tiltekna mál var þannig, eins og reyndar í kringum fleiri mál, að ég væri svo vitlaus að það væri ekki þess virði að skoða það. Ég var sögð vera óstjórntæk. [..] Það spurði enginn neinna spurninga.“
Tekið skal fram að þó svo Sveinbjörg Birna hafi verið eini fulltrúinn í borgarráði sem gagnrýndi viðskipti Reykjavíkurborgar við Róbert Wessman og Alvogen þá var annar borgarfulltrúi sem hafði gagnrýnt tilhögunina árið áður. Þetta var Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, sem þá var í minnihluta í borginni. Hún bloggaði meðal annars um málið þá.
Leigufélagið með 1,1 milljarð í tekjur
Eins og Stundin hefur fjallað um nýlega þá hagnaðist Fasteignafélagið Sæmundur um tæplega 327 milljónir króna í fyrra en leigutekjur félagsins í fyrra námu 1,1 milljarði króna samkvæmt ársreikningi þess. Á sama tíma og Alvotech, sem leigir verksmiðjuna tapaði 11 milljörðum króna í fyrra skilaði fasteignafélagið sem Róbert Wessman á og leigir fasteignina til Alvotech þessum myljandi hagnaði.
Lyfjaverksmiðjan er bókfærð á 6,2 milljarða króna í ársreikningi Sæmundar fyrir árið í fyrra. Verðmæti hennar gæti verið að minnsta kosti þrefalt hærra í reynd eða um og yfir 18 milljarðar króna miðað við verðmæti sambærilegra verksmiðja erlendis, líkt og Stundin fjallaði um.
Hagnaður af fasteigninni rennur því til eignastrúkturs Róberts Wessman en ekki til Alvotech sjálfs sem rekur verksmiðjuna og greiðir leigu til félags Róberts.
Eins og Stundin hefur greint frá áður var mjög á reiki hvernig eignarhaldi verksmiðjunnar ættu að vera háttað og hafa talsmenn Róberts orðið tvísaga um þetta í gegnum tíðina. Eitt sem er ljóst, meðal annars út frá orðum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um málið, er að ekki hafi legið fyrir þegar samið var við félagið AlvogenBiotech að Róbert Wessman ætti að eiga fasteignina persónulega.
Ákvörðun borgarráðs að heimila aðilaskipti á skuldabréfinu sem hvildi á eigninni var svo eitt skref í því að gera þessi eigendaskipti á verksmiðjunni möguleg.
Athugasemdir