Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar er skattakóngur Kópavogs árið 2020. Kári var jafnframt tekjuhæstur allra Kópavogsbúa og 13. tekjuhæsti Íslendingurinn á síðasta ári. Að hans mati er glórulaust að auðkýfingar eins og hann sjálfur séu ekki skattlagðir hærra en raun ber vitni. „Ef það reynist rétt að ég hafi haft 300 milljónir króna í fjármagnstekjur á síðasta ári, hvernig í ósköpunum stendur á að ég er að borga einhvern 22 prósent skatt af því frekar en að borga af því eins og eðlilegt væri sem hvern annan tekjuskatt?“
Samkvæmt álagningarskrá hafði Kári 309 milljónir króna í fjármagnstekjur á síðasta ári og 410 milljónir króna í heildartekjur yfir árið. Af því greiddi hann 112 milljónir króna í skatta og þar af voru 68 milljónir fjármagnstekjuskattur. Hefðu fjármagnstekjur Kára verið skattlagðar eins og launatekjur hefði hann hins vegar greitt nálægt 142 milljónum króna í skatt af þeim, ríflega tvöfalt hærri upphæð.
Í samtali við Stundina segir Kári að hans launatekjur hafi berið óbreyttar síðustu níu ár, hann hafi verið í sömu vinnu með sömu laun þann tíma. „Fjármagnstekjurnar hins vegar eru ekki raunverulegar fjármagnstekjur heldur gengishagnaður. Það gerðist þannig að um mitt síðasta ár, þegar gengi íslensku krónunnar var sem lægst, þá komu einhver erlend skuldabréf sem ég átti á gjalddaga og ég er skattlagður fyrir þann gengishagnað. Fyrir lok ársins var hins vegar gengi íslensku krónunnar komið á svipaðan stað og áður þannig að þessi gengishagnaður minn stóð ekki mjög lengi. Ég borga sem sagt fjármagnstekjuskatt af gengisfalli íslensku krónunnar, sem mér finnst alveg sjálfsagt.“
„Ég er ekki endilega viss um að það séu mjög margir í mínum hópi sem myndu hoppa upp á sápukassa á götuhorni og hrópa þetta“
Kári er þrátt fyrir þetta alls ekki á því að Íslendingar ættu að taka upp annan gjaldmiðil. „Ég vil endilega að við séum áfram með íslenska krónu, sem mér þykir vænt um. Ég held að hún sé ein af ástæðunum fyrir að við komum betur út í hruninu árið 2007 en ella.“
„Ber meira úr býtum en eðlileg mætti teljast“
Aftur á móti er Kári eindregið þeirrar skoðunar að skattleggja ætti hann sjálfan og aðra auðkýfinga í meira mæli en gert er. „Það er alveg ljóst af þessum skattatekjum að ég ber meira úr býtum heldur en eðlilegt mætti teljast og það er líka alveg ljóst að það væri hægt að hafa töluvert út úr því fyrir ríkið að leggja á mig hærri skatt.“
Spurður hvort hann myndi borga hærri skatt möglunarlaust svarar Kári: „Ég mögla yfir öllu, meira að segja því sem mér þykir sanngjarnt. En já, mér þætti það sanngjarnt. Við þurfum að auka samneyslu í íslensku samfélagi og til þess að fjármagna hana er eðlilegt að skattleggja þá sem eiga mikið í staðinn fyrir að auka samneysluna með því að skattleggja hina fátæku. Mér þykir það alveg gjörsamlega sjálfsagt og ég held að það hljóti að vera öllum ljóst. Ef þú skoðar þann gífurlega mun sem er á þeim sem eiga og þeim sem ekkert eiga í íslensku samfélagi þá sérðu að ef þú ætlar að ná einhverju til að fjármagna betra heilbrigðiskerfi, betra skólakerfi, betra húsnæðiskerfi og svo framvegis, þá hlýtur að þurfa að skattleggja auðkýfinga eins og mig meira. Ef það reynist rétt að ég hafi haft 300 milljónir króna í fjármagnstekjur á síðasta ári, hvernig í ósköpunum stendur á að ég er að borga einhvern 22 prósent skatt af því frekar en að borga af því eins og eðlilegt væri sem hvern annan tekjuskatt? Ég fæ ekki annað séð en að sá munur sé bókstaflega settur þar til að menn eins og ég fitni meira á prikinu.“
Þegar Kári er spurður hvort hann telji að hann eigi sér marga skoðanabræður í þessum efnum, í hópi þeirra sem hæstar tekjurnar hafa, svarar hann því til að hann telji að þeir séu fleiri en færri í þeim hópi sem ættu erfitt með að andmæla þessu. „Ég er ekki endilega viss um að það séu mjög margir í mínum hópi sem myndu hoppa upp á sápukassa á götuhorni og hrópa þetta en ég er alveg viss um að það er fullt af fólki í þessum hópi sem gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að auka tekjur ríkisins. Þú sækir ekki fé annars staðar en það er til staðar og þarna er það helst að hafa.“
Guðmundur hefði greitt tvöfalt hærri skatt hefði Kári fengið að ráða
Næstur Kára í röðinni yfir tekjuhæstu Kópavogsbúana er Guðmundur Breiðdal, tölvunarfræðingur og einn stofnenda DK Hugbúnaðar. DK Hugbúnaður var selt á síðasta ári til hollenska fyrirtækisins TSS og er fyrrverandi eigendur þess að finna ansi víða og hátt á tekjulista síðasta árs. Guðmundur hafði 400 milljónir króna í tekjur á síðasta ári. Þar af voru 386 milljóni fjármagnstekjur. Guðmundur greiddi 89 milljónir króna í skatt, þar af 84 milljónir í fjármagnstekjuskatt. Hefði Guðmundur hins vegar verið skattlagður á sama hátt og Kári leggur til, það er að fjármagnstekjur hefðu verið skattlagðar sem launatekjur væru, hefði Guðmundur greitt um 180 milljónir í skatta, ríflega tvöfalda þá upphæð sem hann greiddi.
Næstur á lista yfir tekjuhæstu Kópavogsbúana er Gunnar Birgisson, stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins G. Ingason og stjórnarformaður SLS eigna. Gunnar hafði 395 milljónir króna í tekjur á síðasta ári, þar af 380 milljónir í fjármagnstekjur. Hann greiddi 89 milljónir króna í skatt og af því voru 83,5 milljónir tekjuskattur.
Í sætum fjögur og fimm eru enn karlmenn, þeir Gylfi Ómar Héðinsson og Gunnar Þorláksson, eigendur og stjórnendur Byggingarfélags Gylfa og Gunnars. Gylfi hafði 290 milljónir króna í tekjur, þar af 260 milljónir í fjármagnstekjur og greiddi 69 milljónir í skatt. Tekjur Gunnars námu 281 milljón og þar af voru 254 milljónir fjármagnstekjur. Af þessu greiddi Gunnar skatt sam nam 66 milljónum króna.
Athugasemdir