Margt er á döfinni í menningarlífinu næstu vikur. Athugið að tímasetningar gætu breyst með stuttum fyrirvara vegna almannavarna og að áhorfendur þurfa að virða fjöldatakmarkanir.
UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR - um rætur myndlistar á Ísafirði
Hvar? Úthverfa bókabúð, Ísafjörður
Hvenær? 17. júlí til 25. ágúst 2021
Aðgangseyrir? Ókeypis!
UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR er sex vikna verkefni í sýningarrými og listaverkabókabúð Úthverfu í miðbæ Ísafjarðar þar sem fjallað verður um uppruna myndlistar á Ísafirði og sagan rakin með myndum, texta, spjalli, viðtölum, málþingum og kynningum. Fjallað verður sérstaklega um feril Kristjáns H. Magnússonar (1903–1937) listmálara sem lærði „hagnýta grafíklist“ í Ameríku og fyrsta teiknikennarann hans, Guðmund Jónsson frá Mosdal (1886–1956). Sýningarstjóri er Guðmundur Oddur Magnússon.
Gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina 2021
Hvar? Súðavík
Hvenær? 30. júlí til 2. ágúst
Aðgangseyrir? 8.000 kr.
Um verslunarmannahelgina, 30. júlí–2. ágúst, verður skemmtileg gönguhátíð í Súðavík. Fjölbreyttar göngur fyrir fólk á öllum aldri og fjörugar uppákomur á kvöldin. Athugið sérstaklega leiðbeiningar varðandi Covid neðan við dagskrána.
Gönguhátíðin er haldin í samvinnu Göngufélags Súðavíkur, Súðavíkurhrepps og gönguklúbbsins Vesens og vergangs.
Halastjarna
Hvar? Hlaðan, Litli Garður, Akureyri
Hvenær? 30. júlí til 7. ágúst
Aðgangseyrir? 3.900 kr.
Verkið Halastjarna er leiksýning með tveimur leikurum, lifandi hljóðmynd og öflugu sjónarspili með aðstoð myndbanda og lýsingar. Efnistök þess eru bergmálshellar internetsins, félagsleg einangrun í nútíma tæknisamfélagi, stöðug þörf manneskjunnar til að öðlast viðurkenningu og hugmyndir sem æða stjórnlausar áfram. Verkið er styrkt af Launasjóði listamanna og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Shameless: A Proud Comedy Show with Kimi Tayler and Jono Duffy
Hvar? Tjarnarbíó
Hvenær? 6. ágúst
Aðgangseyrir? 2.000 kr.
Uppistandararnir Kimi Tayler og Jono Duffy eru þekkt fyrir blygðunarlausa brandara og fyrir að skammast sín ekki fyrir að koma sér á framfæri eða vera partur af LGBTQIA samfélaginu. Þau bjóða gesti velkomna á stolt Pride uppistand.
Músík fyrir mannréttindi
Hvar? Klambratúni
Hvenær? 14. ágúst
Aðgangseyrir? Ókeypis!
Tónleikarnir Músík fyrir Mannréttindi fara fram á Klambratúni 14. ágúst næstkomandi milli kl. 16–19 í tilefni 60 ára afmælis Amnesty International. Hatari, GDRN, Team dreams, FM Belfast og Emmsjé Gauti munu sjá um að skemmta fjöldanum. Steiney Skúladóttir og Vilhelm Neto verða kynnar og halda uppi fjörinu á milli atriða ásamt því að þrír kröftugir einstaklingar sem hafa barist í þágu mannréttinda koma til með að segja stuttlega frá reynslu sinni á milli tónlistaratriða.
Bjarni Már Ingólfsson tríó á Múlanum
Hvar? Harpa
Hvenær? 4. ágúst
Aðgangseyrir? 3.500 kr.
Gítaristinn og tónskáldið Bjarni Már kemur fram ásamt tríói sínu til að flytja nýjar frumsamdar tónsmíðar. Tónlist Bjarna væri hægt að flokka undir djass-regnhlífinni, en Bjarni sækir innblástur í fjölbreyttar stefnur og strauma tónlistar, til að skapa persónulega nálgun á lagasmíðum og flutningi. Þríeykið hefur komið saman mjög reglulega frá árslokum 2019 til að vinna í nýju frumsömdu efni. Ásamt Bjarna koma fram bassaleikarinn Birgir Steinn Theódórsson og Magnús Trygvason Eliassen sem leikur á trommur.
Garden Party í Laugardalnum
Hvar? Laugardalur
Hvenær? 14. ágúst
Aðgangseyrir? 3.900 kr. fyrir fullorðna, 2.000 kr. fyrir yngri en 12 ára og frítt fyrir yngri en 6 ára
Tónlistar- og matarhátíðin Garden Party verður haldin í fyrsta skipti á grasbala Þróttara í Laugardal. Hátíðin, sem stendur yfir frá hádegi til 21.30, er hugsuð sem lítil bæjarhátíð fyrir Reykjavík þar sem öll fjölskyldan getur komið saman og skemmt sér í öruggu og hlýlegu umhverfi.
Framtíð safna á Íslandi: Eru söfn á stefnuskrá flokka?
Hvar? Sjóminjasafnið í Reykjavík
Hvenær? 19. ágúst
Aðgangseyrir? Ókeypis!
Félag íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS) hvetur til umræðu meðal frambjóðenda til alþingiskosninga 2021 um stöðu safna landsins. Í flestum kjördæmum landsins er að finna að minnsta kosti eina stofnun sem fellur undir safnalög. Ábyrgð þingmanna er því rík, bæði er varðar rekstur safna og framtíðarsýn í málaflokknum. Félagið býður fulltrúum flokkanna á höfuðborgarsvæðinu til umræðufundar.
Flugeldasýning 2021
Hvar? Jökulsárlón
Hvenær? 14. ágúst
Aðgangseyrir? 1.500 kr. Frítt fyrir 12 ára og yngri
Laugardagskvöldið 14. ágúst 2021 verður árleg flugeldasýning Björgunarfélags Hornafjarðar haldin á Jökulsárlóni. Sýningin byrjar kl. 22.30 og aðgangseyrir er 1.500 kr. á mann, frítt fyrir 12 ára og yngri. Allur ágóði sýningarinnar fer í rekstur og tækjakaup fyrir Björgunarfélag Hornafjarðar.
PRIDE - Fyrirlestur og pallborð: Drag sem listform
Hvar? Bókasafn Hafnarfjarðar
Hvenær? 5. ágúst
Aðgangseyrir? Ókeypis!
Halldór Ívar Stefánsson og Kristrún Hrafns, einnig þekkt sem Twinkle Starr og Jenny Purr, reynsluboltar í dragsenu Íslands, munu halda léttan fyrirlestur og fara fyrir pallborðsumræðum um drag sem listform.
Hvernig varð drag til? Hvernig hefur dragið þróast gegnum árin, og hvað nákvæmlega er drag?
Drag/Vogue-danstími við Hafnartorg
Hvar? Hafnartorg
Hvenær? 4. ágúst
Aðgangseyrir? ókeypis!
Þættirnir RuPaul's Drag Race hafa heldur betur slegið í gegn hjá nær öllum aldurshópum. Í hverri seríu fara fram alls kyns áskoranir sem snúast um dans og mun Margrét Erla Maack kenna diskó- og vogue-bræðing við ýmiss konar hinsegin tónlist. Viðburðurinn er ókeypis og er í boði Kramhússins og Sumarborgarinnar.
Athugasemdir