Mín fyrsta tilfinning þegar ég rekst á skoðanir sem eru ólíkar mínum eigin er eitthvað í líkingu við sársauka. Ég bara fæ ekki skilið hvernig nokkur manneskja getur komist að annarri niðurstöðu en ég. Oftar en ekki finnst mér hugsanlega viðkomandi skoðun vera hættuleg, jafnvel skaðleg samfélaginu eða borgurum þess á einhvern hátt.
Mögulega mun mér líka finnast hún til marks um smekkleysi, heimsku, illsku, skort á menntun, heimóttarhátt eða eitthvað þaðan af verra. Jafnvel einhvern eitraðan kokteil af þessu öllu. Á internetinu er enginn skortur á fólki sem er tilbúið að lúðra út öllu og engu frammi fyrir alþjóð og þegar ég rekst á einstaklinga með skoðanir sem eru að mínu mati sérstaklega óþægilegar, þá er eins og það veki upp einhvern lostafullan masókista innra með mér. Ég hugsa með sjálfum mér: „Hvernig ætli manneskja líti út sem er með svona innilega vonlausa lífssýn?"
Áður en skynsemin fær svo tækifæri til að færa rök fyrir máli sínu er ég kominn inn á Facebook-síðu viðkomandi skoðanasmiðs og búinn að opna af honum mynd. Stari á hana kinkandi kolli og segi við sjálfan mig: „Já, þú lítur út nákvæmlega eins og ég ímyndaði mér að labbakútur með svona bjánalegar hugsanir gæti litið.“ Svo, ef mér finnst skoðunin alveg sérstaklega vond fletti ég jafnvel yfir á aðra mynd og stari líka á hana. Smjatta á eigin yfirlæti og muldra „sjá þig þarna, mörðurinn þinn! Hvernig er að vera svona mikill skoðanasóði?“ Ef ég vil svo fara alveg sérlega illa með sjálfan mig þennan tiltekna dag loka ég kannski myndum og fletti niður vegg dónans og fussa og sveia yfir hverri einustu færslu sem samræmist ekki mínum eigin lífsgildum.
Eflaust hef ég, frá því hinn rotni endaþarmur „kommentakerfi fjölmiðla“ var græddur á neðri helming helstu fjölmiðla landsins, eytt ófáum klukkustundum í nákvæmlega þessa iðju; að leita uppi þá samborgara mína sem ég er mest ósammála til þess að velta mér upp úr hatri á þeim í gremjugreddu sem ekkert fær fullnægt.
Ávinningurinn af þessari eitruðu iðn er mér hulinn. Í það minnsta upplifi ég ekki að þar hafi tíma mínum verið vel varið. Að þessi áralanga þjálfun mín í mannhatri og eigin upphafningu hafi kennt mér nokkurn skapaðan hlut. Ég stend uppi með ekkert annað í höndunum en tærandi aðgreininguna. Það sem þessi hegðun gerir er einungis að einblína á hvað það er sem aðgreinir okkur. Þar sem þessi bláókunnuga manneskja hefur skoðanir sem eru ólíkar mínum eigin verð ég algjörlega blindur á hvað við eigum sameiginlegt.
Þessi hegðun mín hefur komið í veg fyrir að ég nái að upplifa fólk sem einstaklinga með þrár og langanir sem á ástvini og líf sem er mér algjörlega hulið. Með æsku á stöðum sem voru svona þá en núna eru breyttir, með sögur og myndir sem fá fjölskyldu þeirra til að brosa og hlæja. Sem vilja kaffið sitt með svona mikilli mjólk, alls ekki meira eða kannski engri. Með ör á líkama og inni í sálinni og sorgir sem ég veit ekkert um. Ég veit ekkert. Ekki rass í bala!
Hver er ég, froðufellandi við skjáinn, að ákveða að þú sért óþokki bara vegna þess að við höfum ólíkar skoðanir? En bíddu bara! Nú verður þessi pistill enn þá sjálfmiðaðri. Þannig er að ég á pabba sem er menntaður rafvirki en hefur starfað sem sjómaður í um fjörutíu ár. Lengst af heyrði ég hann aldrei opinbera skoðanir sínar á stjórnmálum, í það minnsta ekki svo ég muni. Það gerðist svo upp úr hruni að hann kom út úr skápnum sem Framsóknarmaður.
Ég hafði stundað að gefa honum anarkistabókmenntir í jólagjöf en var þarna sem sleginn með blautri, grænni tusku. Honum bauðst svo að taka sæti á lista Framsóknar í NV-kjördæmi, sem hafði þær afleiðingar að hann varð varaþingmaður og þurfti að sitja talsvert á þingi fyrir flokkinn.
Svo fékk þjóðin Panama-skjöl í framrúðuna. Blásið var til kosninga og áður en ég gat ruggað mér í lendunum og snúið mér í hring var gamli kominn á þing fyrir Miðflokkinn með prjónandi hestinum og öllum þeim djass.
Ég hef staðið á Austurvelli og gargað dónalegar ræður um menn og málefni. Ég, hafandi skrifað pistla sem urðu þess valdandi að ég var kallaður endaþarmur og hlandkoppur, og get ekki keyrt framhjá Kjalarnesi án þess að líta mér um öxl, var skiljanlega kominn í frekar sérstaka stöðu. Ef handritshöfundar ættu að skrifa tvær gríðarlega ólíkar persónur fyrir buddy-film þá mætti eflaust reyna að byggja þær á mér og pabba. Róttæki rithöfundurinn og íhaldsmaðurinn faðir hans? Ég sé Þór og Danna alveg rúlla þessu upp.
Á þessum tímapunkti ert þú líklega kominn með einhverja mynd í höfuðið af pabba mínum. Það hafa allir skoðun á Miðflokknum og hvers konar persónur hann hefur að geyma, ekki satt? Enda erum við pabbi ekki sammála um margt þegar kemur að landsstjórninni. Ég er reyndar að mestu ósammála flestum sem starfa í basaltskubbnum við Austurvöll, en þetta er hvorki staður né stund fyrir þá umræðu.
Það sem þú hins vegar veist líklega ekki um pabba er hvað hann er góð manneskja. Hvernig hann hefur alltaf verið mér innan handar, bæði á mínum bestu stundum en alveg sérstaklega áberandi á mínum verstu. Þú veist ekki hvað hann er dýrkaður og virtur innan fjölskyldu sinnar vegna þess hvað hann er kærleiksríkur, góður, með hlýja nærveru og stórar hendur og djúpa rödd og hvað hann elskar að syngja og elskar að gefa stórar gjafir og segir skemmtilegar sögur og semur góðar tækifærisvísur. Og þú veist líklega ekki hvernig var fyrir hann að alast upp í Borgarnesi sem er varla með höfn, með óslökkvandi löngun til að komast á sjóinn og hvernig langafi minn, sem var vitavörður í Elliðaey, smitaði hann af sjómennsku og hvernig pabbi og bróðir hans gerðu upp gamla súðbyrðinginn hans langafa, sem pabbi svo hóf sína eigin útgerð á.
Þú veist ekki hvað hann hrýtur hræðilega hátt eða hvað hann elskar kjöt í karríi og Halldór Laxness og lakkrís og John Lennon og Ladda og barnabörnin sín og hvað hann er með ofboðslega stórt hjarta, en þú þarft kannski að standa nálægt honum í svolítinn tíma áður en þú ferð að heyra í öllum kærleikanum sem ómar þegar að það slær.
„Jú, hann er í Miðflokknum, en það er ekki það eina sem skilgreinir hann.“
Jú, hann er í Miðflokknum, en það er ekki það eina sem skilgreinir hann. Við erum ekki skoðanir okkar frekar en fötin sem við klæðumst. Ég myndi seint kjósa flokkinn hans í þingkosningum en þó ég fengi ótal tækifæri myndi ég aldrei kjósa mér annan föður.
Það sem ég er að reyna að koma frá mér er hversu hollt hefur verið fyrir mig að eiga svona dásamlegan pabba sem einmitt er í Miðflokknum. Ég hef fengið að upplifa frá fyrstu hendi allar þær víddir sem manneskja sem ég sannlega elska hefur að geyma. Að þegar við hólfum fólk niður í kassa í hausnum á okkur heftir það engan nema okkur sjálf.
Gremja er tærandi og næringarlaus tilfinning sem elur á sundrung og depurð. Sífellt oftar kemst ég að þeirri niðurstöðu að besta viðbragðið í flestum aðstæðum sé kærleikur. Eins og vemmilegu fjöldapóstarnir á samfélagsmiðlum segja: When in doubt, love.
Það er samt ekki þar með sagt að ég svífi um með punkt á enni og geislabaug í krullunum. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að fá vöðvabólgu yfir meintum greindarskorti samborgara minna, starandi á myndir af þeim í réttlátri reiði ryðjandi út úr mér fúkyrðum. Nú svo ekki sé minnst á hvernig ég er sífellt að reyna að kenna samferðafólki mínu á götum borgarinnar lexíur í bættri umferðarmenningu með því að flauta hátt og steyta hnefann. En aldrei fæ ég neitt út úr þeirri hegðun nema auka gremju. Tapaðar stundir á bálkesti fýlunnar.
En stundum, öðru hvoru, tekst mér að grípa í sjálfan mig áður en górillan í mér tekur völdin, og ég spyr mig: „Hvað er það kærleiksríka í stöðunni? Hvað er fallegt að gera hér?“ en ekki „hvað vill reiðin að ég geri hér?“
Nú er ég gríðarlega meðvitaður um að sumar skoðanir bókstaflega ganga gegn mannréttindum fólks, hvetja til aukinnar misskiptingar, jafnvel ofbeldis. Að sjálfsögðu mun þannig afstaða vekja sterkar tilfinningar hjá fólki með ríka réttlætiskennd. Fyrsta viðbragð er yfirleitt ekki að reyna nálgun löðrandi í yfirvegaðri virðingu.
Fyrir síðustu forsetakosningar tók ég viðtal við einn frambjóðandann, sagnfræðing að nafni Guðna Th. Jóhannesson. Í spurningu sem endaði ekki í viðtalinu spurði ég hann, ef hann yrði forseti, og sæti í 16 ár, hvar hann vildi sjá Ísland að þeim tíma liðnum. Þá árið 2032. Hann var fljótur að svara „ég vona að við verðum enn þá að rífast“. Átti Guðni þar við að átök okkar Íslendinga um helstu málefni sem okkur varðar eru af hinu góða. Þá koma öll sjónarmið upp á borðið, og þó fólk sé gríðarlega ósammála, dónalegt og stóryrt, þá hlýtur niðurstaðan að taka mið af öllu því sem sagt er. Hún er ekki alltaf sú sem allir geta sætt sig á, málamiðlanir eru oft afskræmingar, en það er þó einhver niðurstaða sem við komumst að saman. Ósátt og fúl. En á nýjum og vonandi betri stað.
Reiðri manneskju hefur aldrei tekist að fá mig til þess að breyta um skoðun. Það eina sem gerist er að ég forðast þess í stað að bera skoðanir mínar á torg fyrir viðkomandi. Ég fel þær. Herðist í afstöðu minni. Að sama skapi hefur mér aðeins tekist að snúa fólki af þröngsýnni braut þegar mér hefur tekist að mæta þeim með umburðarlyndi og skilningi. Það er einhver ástæða fyrir því að fólk er haldið þessum hugmyndum. Hvernig get ég nálgast manneskjuna af virðingu en bent á sama tíma á rangfærslur og alvarlegar afleiðingar þess konar hugsunar?
Til eru fjölmargar aðferðir, en allar leiða þær okkur að sömu verkfærum: yfirvegun, rökfestu og kærleik. Enda segja sálfræðingar að jákvæð styrking sé margfalt gagnlegri en neikvæð. Þannig að ef þú vilt breyta skoðun einhvers þá er það líklegra til þess að takast með alúð en öskrum.
Pabbi hefur frá því hann var táningur verið mikill bítlaaðdáandi, svo ég ólst upp við að hlusta talsvert á þá fjóra. Nú datt mér lag, sem þeir sömdu í hálfgerðu sjálfsháði, í hug. „All you need is love“. Held að það sé satt. Meiri kærleika á internetinu. Meiri kærleika í umferðinni. Meiri ást í fjölskyldur og matvöruverslanir og Húsdýragarðinn og jólin og fangelsin og dópgreni og Alþingi og heimilin.
Ég held að það kærleiksríkasta sem við getum gert sé að aðgreina manneskjuna frá skoðuninni og reyna að elska manneskjuna, óháð því hvaða tilfinningar skoðunin vekur. Ég veit hversu fáránlega þetta hljómar, en ég held að það sé fyrir bestu. Besta mögulega aðferðin. Svo er hægt að vinna í hinu.
Bara ást. Meiri ást. Ást, ást, ást. Og kannski smá lakkrís.
Athugasemdir