Engin svör fást frá Samherja um þær dylgjur sem fram koma í afsökunarbeiðni sem fyrirtækið birti óundirritaða á vef sínum um helgina.
Þar var umfjöllun af málefnum fyrirtækisins sögð „einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum“. Var það gert í sama mund og fyrirtækið baðst afsökunar á viðbrögðum sínum.
Það fæst þó heldur ekki skýrt nákvæmlega hvaða viðbrögðum beðist er afsökunar á.
Engar útskýringar fást
„Við höfum því ekki í hyggju að veita viðtöl eða fjalla frekar um hana að svo stöddu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í svari við fyrirspurn Stundarinnar um afsökunarbeiðnina. Hann segir yfirlýsinguna skýra og afdráttarlausa og að hún hafi „fallið í góðan jarðveg“.
„Við höfum því ekki í hyggju að veita viðtöl eða fjalla frekar um hana að svo stöddu“
Í svarinu segir hann þó að félagið hafi beðist afsökunar á „þætti félagsins í harkalegri fjölmiðlaumfjöllun að undanförnu“. Er það í samræmi við lýsingar málsvara fyrirtækisins, til að mynda „skæruliðadeildarinnar“ sem Stundin og Kjarninn afhjúpuðu nýverið, og var tilefni afsökunarbeiðninnar, að blaða- og fréttamenn væru í einhverskonar átökum við Samherja. Að fréttaflutningur af Namibíumálinu svokallaða væru átök tveggja stríðandi fylkinga.
Kröfðu ráðherra um nákvæm svör
Kjarninn greindi svo frá því í gær að lögmaður Samherja hafi aðeins fyrir nokkrum vikum krafið Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, nákvæmra svara um orð hennar í þinginu. Þar hafði hún sagt Samherja hafa gengið of langt í viðbrögðum sínum.
Hún hafði við sama tilefni talað um orrahríð blaða- og fréttamanna og fyrirtækisins.
Í bréfinu, sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Samherja, sendi fyrir hönd fyrirtækisins var Lilja krafin útskýringa af „töluverðri nákvæmni“. „Var það t.d. of langt gengið að skjóta málinu til siðanefndar Ríkisútvarpsins eða að fjalla um niðurstöðuna? Var það myndbandagerðin um niðurstöðuna sem gekk of langt?“ spurði lögmaðurinn.
Lilju Dögg var gefin vika til að svara erindinu. Því hefur enn ekki verið svarað, nú fimm vikum síðar.
„Var það t.d. of langt gengið að skjóta málinu til siðanefndar Ríkisútvarpsins eða að fjalla um niðurstöðuna? Var það myndbandagerðin um niðurstöðuna sem gekk of langt?“
Stundin óskaði í gær eftir viðtali við Þorstein Má, eða eftir atvikum aðra forsvarsmenn fyrirtækisins, vegna Namibíumálsins. Þeirri beiðni var ekki svarað.
Athugasemdir