Norska fjármálaeftirlitið sektar norska ríkisbankann DNB um 400 milljónir norskra króna, rúmlega 6 milljarða íslenskra króna, fyrir að brjóta gegn framfylgd á regluverki um eftirlit og varnir gegn peningaþvætti í viðskiptum bankans við útgerðarfélagið Samherja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá norska fjármálaeftirlitinu.
Greint var frá því í desember í fyrra að fjármálaeftirlitið norska ætlaði að sekta DNB um þessa upphæð en nú liggur þetta sem sagt fyrir. DNB-bankinn ætlar að una niðurstöðunni um sektina. Norska ríkisútvarpið orðar það sem svo að fjármálaeftirlitið „húðfletti“ DNB vegna málsins.
Málið varð opinbert í kjölfar þess að Kveikur, Stundin Al Jazeera og Wikileaks greindu frá í nóvember 2019 að Samherji hefði notað bankareikninga sína hjá DNB í viðskiptum sínum í Namibíu sem nú eru til rannsóknar og meðal annars flutt fé í skattaskjól í gegnum þá. Umfjöllunin um DNB-bankann er því hluti af hinu svokallaða Samherjamáli í Namibíu en íslenska útgerðarfélagið notaði meðal annars bankareikninga sína í DNB til að greiða mútugreiðslur til skúffufélags namibískra ráðamanna í Dubaí auk þess sem félagið flutti milljarða í skúffufélag í skattaskjólinu Marshall-eyjum sem svo greiddi laun starfsmanna Samherja erlendis.
Samherji hefur alltaf gert lítið úr þessum þætti Samherjamálsins í Namibíu. Norska fjármálaeftirlitið virðist hins vegar telja að DNB bankinn hafi gerst sekur um gagnrýniverðan skort á að fylgja eftir regluverki um varnir gegn peningaþvætti.
Samtímis birtir norska fjármálaeftirlitið sérstaka skýrslu um viðskipti Samherja við DNB og hvað það var sem fór úrskeiðis í þeim. Í skýrslunni er krotað yfir nöfn á einstaka félögum sem Samherji notaði í viðskiptum sínum við bankann en rætt er um Samherja og stóra samhengi málsins fremst í skýrslunni.
Eitt af því sem segir í skýrslunni er að Samherji hafi upphaflega gerst viðskiptavinur DNB árið 2008 en að fyrsta tékkið á Samherja, og félögum þess, sem viðskiptaavini hafi ekki átt sér stað fyrr en árið 2013. Árið 2010 byrjuðu laun sjómanna Samherja að vera greidd af skattaskjólsfélaginu Cape Cod, sem átti bankareikning í DNB, og vissi bankinn aldrei hver átti þetta félag. Þessu félagi var slitið skömmu eftir að Stundin og Kveikur fjölluðu um það í nóvember 2019.
Viðskiptum við Samherjafélög og Samherja sagt upp
Eins og greint var frá í nóvember 2019 sagði DNB upp viðskiptum við félagið Cape Cod á Marshall-eyjum árið 2018 vegna skorts á upplýsingum um eignarhald félagsins en félagið hafði þá verið notað í mörg ár til að greiða laun sjómanna Samherja í Afríku, meðal annars í Namibíu. Niðurstaða DNB var að bankinn vissi ekki hvert ætti félagið en það var fjármagnað af Samherja og notað í rekstri útgerðarinnar. Skömmu eftir að greint var málinu í fjölmiðlum flutti Samherji viðskipti sín frá DNB.
Ein af niðurstöðum fjármálaeftirlitsins norska er að DNB hafi ekki tekið þátt í peningaþvætti með beinum hætti heldur að bankinn hafi ekki fylgt lögum og reglum til að berjast gegn því nægilega vel. Eitt af því sem bankanum láðist að gera var að fá staðfestar upplýsingar um eignarhald þeirrra félaga sem áttu í viðskiptum við bankann, meðal annars félagið Cape Cod.
Eftir að upp komst um viðskipti Samherja í gegnum DNB sagði bankinn einnig upp viðskiptum við Samherja í árslok 2019.
„Okkur ber að þekkja deili á viðskiptavinum okkar.“
Forstjórinn viðurkennir mistök
Í fréttatilkynningu segir forstjóri DNB-bankans, Kjerstin Braathen að fyrirtækið viðurkenni mistök sín og gangist við sektinni. „Okkur ber að þekkja deili á viðskiptavinum okkar og við höfum nú innleitt regluverk sem hjálpar okkur við að tilkynna grunsamleg viðskipti til norsku efnhagsbrotadeildarinnar. Við viðukennum að vinna að fylgja eftir regluverki gegn peningaþvætti var ekki nægilega langt komið á þeim tímapunkti sem rannsón fjármálaeftirrlitsins nær til og þess vegna samþykkjum við sektina frá stofnuninni,“ segir hún í tilkyningunni.
Athugasemdir