„Vegna þess að stundum er best að vita ekki,“ segir Annfinn Olsen, framkvæmdastjóri Samherjafélagsins Framherja í Færeyjum aðspurður um það af hverju Framherji hefur millifært peninga til félaga Samherja á Kýpur í gegnum tíðina. Þetta kemur fram í heimildarmynd færeyska ríkissjónvarpsins um þann hluta Samherjamálsins í Namibíu sem snýst um starfsemi Samherja í Færeyjum.
Seinni hluti heimildarmyndar færeyska ríkissjónvarpsins var sýndur í gær og er meðal annars vísað í umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um Kýpurstarfsemi Samherja. Fyrri hlutinn var sýndur fyrir skömmu en þar kom meðal annars fram að skattayfirvöld í Færeyjum hefðu Samherja til rannsóknar.
Samtal Annfinns og blaðamanns færeyska ríkissjónvarpsins er nokkuð áhugavert þar sem alveg ljóst er að Annfinn vissi ekki um umrædd viðskipti við Kýpurfélögin þegar blaðamaðurinn greinir honum frá þeim.
Blaðamaður: Þetta eru fyrirtækin. Þetta eru fyrirtæki á Kýpur.
Annfinn: Erum við þarna?
Blaðamaður: Já, þið eruð þarna.
Annfinn: Í fyrirtækjum á Kýpur?
Blaðamaður: Já, þetta eru viðskipti milli tengdra félaga. Ég skal senda þér tölvupóst.
Annfinn: Þetta er búið hjá okkur núna. Ég vil ekki halda þessu áfram.
Blaðamaður: Bara svo þú vitir það þá er ég ekki að ljúga að þér.
Annfinn. Ok.
Samstarfsmenn Samherja koma af fjöllum
Annfinn Olsen hefur unnið fyrir Samherja í Færeyjum í mörg ár og spurði færeyska ríkissjónvarpið hann út í millifærslur og viðskipti til og frá félögum Samherja í Færeyjum til og frá félögum Samherja á Kýpur sem ætla hefði mátt að Annfinn kannaðist við sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Miðað við svör Annfinns í þættinum þá kannast hann ekki við þessi viðskipti á milli Færeyjafélags Samherja og félaganna á Kýpur. „Ég veit ekkert um þetta,“ segir hann í heimildarmyndinni. Á öðrum stað í viðtalinu segir Annfinn að hann búi ekki yfir upplýsingum um þessi viðskipti og að færeyska ríkissjónvarpið þurfi að spyrja Samherja um þau.
Eins og segir í frétt færeyska ríkissjónvarpsins þá vissi Anfinn ekki um þessi viðskipti á milli færeysku félaganna og félaganna á Kýpur fyrr en eftir að færeyska ríkissjónvarpið sýndi honum ársreikninga félaga Samherja á Kýpur, Esju Shipping og Esju Seafood.
Í færeyska ríkissjónvarpinu er einnig viðtal við annan færeyskan samstarfsmann Samherja, Björn á Heygum, sem setið hefur í stjórnum félaga Samherja í Færeyjum um árabil, þar sem hann segist ekkert hafa vitað um þessi viðskipti til og við Kýpurfélög Samherja heldur.
Samherji á bara fjórðung í Framherja
Það sem er áhugavert við þetta er meðal annars það að Samherji á ekki allt útgerðarfélagið í Færeyjum þar sem slíkt er ekki leyfilegt samkvæmt færeyskum lögum, þar sem erlendir aðilar mega ekki eiga meirihluta í þarlendum útgerðarfélögum. Samherji á einungis 25 prósent í félaginu. Samherji virðist hins vegar stýra færeyska félaginu, meðal annars án þess að sjálfur framkvæmdastjóri félagsins komi þar að í vissum tilfellum, og býr hann ekki sjálfur yfir upplýsingum um ölll viðskipti Samherja í gegnum félagið.
Í heimildarmyndinni er haft eftir Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Namibíumálinu, að hann hafi alltaf talið að Samherji ætti Framherja og að félagið væri eitt af dótturfélögum íslensku útgerðarinnar. Svo er hins vegar ekki og sýna viðskipti Samherja til og frá Færeyum til Kýpur framhjá framkvæmdastjóranum Annfinn Olsen að sú tilgáta að Samherji hafi í reynd gengið um Framherja eins og dótturfélag sitt virðist ekki vera úr lausi lofti gripin.
Staðan virðist því vera sú að þrátt fyrir umrædd lög í Færeyjum þá stýri Samherji Framherja líkt og öðrum dótturfélögum sínum sem félagið á til fulls eða meirihluta í.
„Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við gerum upp“
Sett í samhengi við tölvupóst Baldvins
Færeyska ríkissjónvarpið setur málið í samhengi við tölvupóst frá Baldvin Þorsteinssyni, syni Þorsteins Más Baldvinssonar, sem Stundin greindi frá árið 2019 þar sem fram kom af hverju Samherji ætti að notast við Kýpur í starfsemi sinni þar sem útgerðin gæti með þeim hætti stýrt því hvar hagnaðurinn innan Samherjasamstæðunnar myndi verða til. Þetta væri gott í skattalegum tilgangi. „Með því að búa til hagnað innan sölufyrirtækisins Kötlu Seafood getum við lækkað skiptahlut sjómanna og stjórnað betur á hvaða verðum við gerum upp,“ sagði Baldvin meðal annars í tölvupóstinum.
Ríkissjónvarpið færeyska setur viðskiptin frá og til Færeya í gegnum Kýpur því í samband við mögulega milliverðlagningu, transfer pricing, innan Samherjasamstæðunnar auk þess sem Namibíumálið er í forgrunni í umfjölluninni.
Athugasemdir