Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, mun setja sig í samband við Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) og hvetja til þess að rannsóknin á meðferðaheimilinu að Laugalandi verði unnin eins hratt og mögulegt er. Hann mun jafnframt tryggja að fjárskortur standi því ekki fyrir þrifum að stofnunin geti sinnt verkefninu.
Ásmundur Einar fól stofnuninni að rannsaka starfsemi meðferðarheimilisins með bréfi 23. febrúar síðastliðinn. Verkefni stofnunarinnar er að kanna hvort stúlkur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Lauglandi, áður Varpholti, á árunum 1997 til 2007, undir forstöðu Ingjalds Arnþórssonar, hefðu sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Átta stúlkur hafa stigið fram í Stundinni og lýst því að Ingjaldur hafi beitt þær ofbeldi, slegið þær, hrint þeim niður stiga og sparkað í þær meðal annars. Enn fleiri stúlkur bera hið sama.
Í frétt sem Stundin birti í morgun kemur fram að rannsókn málsins er ekki í forgangi hjá Gæða- og eftirlitsstofnuninni og verður hún unnin meðfram öðrum verkefnum stofnunarinnar. Þá er rannsóknin ekki enn hafin, rúmum mánuði eftir að stofnuninni var falið að sinna henni og undirbúningur hennar aðeins nýhafinn.
Konurnar mjög vonsviknar
Stundin hefur rætt við konur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu og áttu meðal annars fundi með Ásmundi í febrúar, sem urðu til þess að ríkisstjórn Íslands samþykkti tillögu hans um að rannsókn skyldi fara fram. Konurnar lýsa miklum vonbrigðum með seinagang við rannsókn málsins og aðgerðaleysi sem jaðri við áhugaleysi. Engin kvennana hafi heyrt frá stofnuninni á þeim mánuði sem liðinn er síðan henni var falin rannsóknin og það sé reiðarslag fyrir þær að heyra að ekki hafi verið sett á fót sérstakt teymi sem muni sinna rannsókninni sérstaklega heldur verði hún unnin meðfram öðrum störfum nefndarinnar og niðurstaðna sé ekki að vænta um langa hríð.
„Ég mun setja mig í samband við stofnunina og hvetja hana til að vinna þetta eins hratt og mögulegt er“
Spurður hvort að þessi vinnubrögð séu það sem að var stefnt þegar verkefnið var sett í hendur Gæða- og eftirlitsstofnuninni segir Ásmundur Einar að markmiðið hafi verið að rannsóknin lyti ekki pólitískri stjórn heldur yrði í höndum óháðrar, sjálfstæðrar stofnunar. „Það er því í höndum stofnunarinnar að sinna verkefninu, líkt og öðrum málum sem hún er með í gangi. Ég vænti þess að þetta verði unnið hratt og vel. Það er ekki mitt nákvæmlega að meta tímaásinn í því en ég mun setja mig í samband við stofnunina og hvetja hana til að vinna þetta eins hratt og mögulegt er og tryggja að það sé ekki fjármagnsskortur sem aftri því að það verði hægt. Það er það sem ég mun gera. Að öðru leyti er þetta í höndum stofnunarinnar en ekki ráðuneytisins og hún verður að öðru leyti faglega að svara fyrir málið, hvernig það er unnið, skipulagt og sett upp.“
Spurður hvort hann skilji óánægju kvennanna með það sem þeim þykir vera seinagangur í málinu segir Ásmundur Einar að ljóst sé að verkefnið sé umfangsmikið. „Svona mál geta tekið talsverðan tíma og ég upplýsti stúlkurnar um það þegar ég fundaði með þeim að þetta myndi taka talsverðan tíma vegna þess að það þarf að standa rétt og faglega að því. Ég treysti stofnuninni til þess og hef ekkert annað í höndunum en að það sé verið að vinna á þeim nótum sem lagt var upp með.“
Athugasemdir