Tæplega 800 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesi frá miðnætti, samkvæmt tölum sem Veðurstofan birti í morgun. 2500 skjálftar mældust í gær og í heildina hafa ríflega 18 þúsund jarðskjálftar mælst frá því hrinan hófst fyrir viku síðan.
Mesta virknin er bundin við Fagradalsfjalli og hefur færst aðeins í suðvestur miðað við virkni gærdagsins. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt, en jókst aftur um fimmleytið. 15 til 20 skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst frá miðnætti.
Eldgos hafa ekki orðið á Reykjanesskaganum í um 780 ár. Þau hafa hins vegar sögulega séð gengið yfir í lotum á 800 til 1.000 ára fresti. Röð eldgosa varð í Reykjaneskerfinu á árunum 1211 til 1240. Síðasta gos varð í Svartsengi, norðan Grindavíkur, árið 1226. Í Krýsuvík, kringum Kleifarvatn og austan við Keili, urðu stórgos árin 1.151 til 1.188. Þá rann hraun bæði í sjó norðan við og sunnan. Loks gaus í Brennisteinsfjöllum, enn austar og nær höfuðborgarsvæðinu, á 10. og 11. öld.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, hefur varað fólk við að reyna að komast á svæði skjálftanna og mögulegs gossvæðis þar sem hætta er á að fólk festist.
Athugasemdir