Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Rukka inn á drullusvað

Bíla­stæði sem land­eig­end­ur við eld­gos­ið rukka inn á er drullu­svað og ófært að stór­um hluta.

Landeigendur að jörðinni Hrauni, sem nær yfir gossvæðið í Geldingadölum, tóku upp gjaldtöku fyrir mánuði síðan á bílastæði við eldgosið. Að sögn talsmanns landeiganda var gjaldskylda „óumflýjanleg“ til þess að leggja ný bílastæði á svæðinu. 

Göngufólk sem kemur hefur á svæðið undanfarna daga hefur veitt því eftirtekt að bílastæðið sem rukkað er inn á er að miklu leyti ófært fólksbílum og jafnvel stærri bílum. Þannig er bílastæði sem stendur næst Nátthaga að meiri hluta drullusvað. Engu að síður stendur yfir gjaldtaka á svæðinu. Þannig er ferðalöngum mætt með með skilti þar sem ítrekað er að greiða eigi fyrir bílastæðið: „Gjaldtaka er nauðsynleg til að auka öryggi, bæta aðgengi og þjónustu og til þess að vernda náttúruna. Takk fyrir að sýna því skilning,“ segja landeigendur á tilkynningarskiltum á svæðinu.

Eftir göngu að eldgosinu um helgina heyrðust erlendir ferðamenn kvarta undan því að skór þeirra hefðu fyrst orðið skítugir við lok göngunnar þegar þeir fóru yfir bílastæðið.

Engar upplýsingar eru gefnar um hvernig má ná sambandi við söluaðilann og ekki er að sjá að veitt sé þjónusta önnur en notkun bílastæðis. Á sama tíma hafa ferðamenn gert sér að leik að ganga ofan á nýstorknuðu hrauninu með tilheyrandi hættu á að brenna af völdum hraunstrauma sem legið geta undir hellunni.

BílastæðiðTún hafa verið nýtt undir bílastæði gegn gjaldi, en ástand þeirra var svona um helgina.
Ferðamenn kanna gjaldskylduVið upphafið að gönguleiðinni í Nátthaga er annað skilti með áminningu um að greiða bílastæðagjald.
LagtVestari hluti bílastæðisins er betur farinn en sá eystri.

Fram hefur komið að rafrænt eftirlit sé fyrirhugað og að þannig muni greiðslan ekki vera valkvæð. 

Grindavíkurbær hefur þegar fengið 10 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi að gossvæðinu og „útbúa púða fyrir aðstöðusköpun ásamt salernisaðstöðu, bílastæði, skilti og merkingar“.

Landeigendur og jafnvel opinberir aðilar hafa sýnt vaxandi tilhneigingu til að innheimta gjald af fólki fyrir að sjá náttúruna. Þannig ákvaðu eigendur félagsins Power Minerals Iceland að hefja gjaldtöku inn á Mýrdalssand og rukka þannig aðgang fyrirtækja að svæðinu sem telur meðal annars Hjörleifshöfða, Hafursey og Kötlujökul, undir þeim formerkjum að takmarka umferð á svæðinu og stöðva utanvegaakstur. Þá hefur bæjarstjórn Hafnarfjarðar í hyggju að rukka meðal annars fyrir aðgang að hverasvæðinu Seltúni í Krýsuvík og síðar hellinum Leiðarenda við Bláfjallaveg. Í Hveragerði hyggst bæjarstjórnin semja við Öryggismiðstöðina um að framfylgja innheimtu á gjaldi við Reykjadal.

Stundin hefur ekki náð sambandi við talsmann landeigenda að Hrauni í þessari viku til að spyrja út í gjaldtökuna.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Eldgos við Fagradalsfjall

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár