Eldgos er mögulega að hefjast á Reykjanesi í fyrsta sinn í tæp 800 ár. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að svokallaður óróapúls hafi hafist klukkan 14:20 suður af Keili á Reykjanesi, við Litla Hrút. Slík merki mælist í aðdraganda eldgosa en ekki hefur verið staðfest að gos sé hafið.
„Það er kvika að brjóta sér leið. Það er breyting í þróuninni. Þetta er mjög krítísk staða. Órói sem þýðir að kvika er að brjóta skorpuna,“ segir Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur á fundi almannavarna. Að hans sögn getur tekið klukkustundir eða daga fyrir kviku að ná yfirborðinu.
Margt fólk reynir að beygja afleggjarann inn að Keili, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sem veldur hættu á því að fólk festist í blautu undirlaginu. Víðir segir að ef gosið verði að veruleika verði reynt að stýra umferð og útbúa útsýnissvæði.
Hvar yrði gosið?
Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að líklegasti uppkomustaður eldgoss sé þar sem gosórói hefur verið að greinast.
„Kvikan velur sér þá leið sem er auðveldast að fara. Þessi kvikugangur hefur verið að þróast. Hann lengdist fyrst í áttina að Keili. Núna er þetta aðeins á öðrum stað, vði suðurendann á þessum gangi. Þetta er aðeins óútreiknanlegt. Getur fært sig til neðanjarðar, en þetta er búið að vera mjög þröngt svæði. Langlíklegasta svæðið, ef það er að koma eldgos, er þar sem þessi órói er og hefur verið unnið með og viðbragðsáætlanir taka mið af.“
Klukkan 15:30 stóð til að þyrla Landhelgisgæslunnar færi í loftið og í yfirflug yfir Keili og Reykjanesið. Samkvæmt því sem Ásgeir H. Erlendson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við Stundina verða tveir starfsmenn almannavarna með í för og skýrst gæti á næstu fimmtán mínútum hvort merki séu um eldsumbrot á yfirborði.
Eldgos koma í hrinum
Eldgos hafa ekki orðið á Reykjanesskaganum í um 780 ár. Þau hafa hins vegar sögulega séð gengið yfir í lotum á 800 til 1.000 ára fresti. Röð eldgosa varð í Reykjaneskerfinu á árunum 1211 til 1240. Síðasta gos varð í Svartsengi, norðan Grindavíkur, árið 1226. Í Krýsuvík, kringum Kleifarvatn og austan við Keili, urðu stórgos árin 1.151 til 1.188. Þá rann hraun bæði í sjó norðan við og sunnan. Loks gaus í Brennisteinsfjöllum, enn austar og nær höfuðborgarsvæðinu, á 10. og 11. öld.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna hjá Ríkislögreglustjóra, sagði að íslenska þjóðin væri aðlögunarhæf. „Ef þetta verður nýja normið, þá er það bara þannig.“
Á vef Víkurfrétta er bein útsending úr vefmyndavél sem staðsett er á skrifstofu fjölmiðilins og beinist í átt að Keili og Fagradalsfjalli. Sjá má útsendingun hér að neðan.
Segir ekki víst að framhald verði á
Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur segir ekki víst að áframhald verði á óróanum eða að kvika nái upp á yfirborðið. „Þetta er útlausn á spennuorku sem hefur verið að hlaðast upp í einhvern tíma vestast á Reykjanesskaganum. Þessi útlausn kemur fram þarna núna síðast í sprungu sem liggur frá suðvestri til norðausturs, þarna fyrir sunnan Keili. Það eru gossprungur í þessa stefnu, goshryggir, sem eru með þessa stefnu, suðvestur-norðaustur stefnu og þetta er í þá stefnu og það er greinilegt að þarna hefur orðið gliðnun um svona sprungu og kvika hefur farið aðeins upp í þessa gliðnun. Það er svo sem ekkert víst að það haldi neitt áfram. Þetta hefur farið að því er mér virðist vera frekar stutt upp í sprunguna. Samt sem áður virðist þessi færsla sem þarna er vera nálægt meters gliðnun, hún náttúrulega hefur áhrif í kringum sig.
Núna er spurningin hvort hvernig þessi áhrif virka, breyta því ástandi sem hefur verið. Það getur orðið aukning í virkni þarna vestast á nesinu eða vestur af Reykjanesinu getur maður ímyndað sér og það á eftir að koma í ljós hvað áhrifin á þessu verða mikil á þessum atburði en það léttir auðvitað á spennu akkúrat þarna í kring þar sem opnunin er en þetta leggst sem lag ofan á plötuskilin þarna. Menn hafa verið með áhyggjur af jarðskjálfta sem gæti orðið þarna á sem við köllum harða kjarnann á svæði milli Kleifarvatns og Bláfjalla. Þar verða nokkuð stórir skjálftar, þeir geta náð stærðinni 6 til 6,5 þar á milli og það hefur verið á síðustu árum mikið álag á þessum kjarna.“
Fréttin verður uppfærð.
Athugasemdir