Ég vil vekja athygli á grein í Morgunblaðinu 15. febrúar eftir Kára Jónasson. Hann fjallar þar meðal annars um sjónvarpsþátt sem sýndur var í sjónvarpinu undir heitinu „velferð eldri borgara“, fræðsluþáttur. Ég er sammála Kára um að þátturinn var langur og lítið var minnst á kjör aldraða eða skerðingar TR á ellilífeyri en Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir var með frábæra kynningu á því hvernig hlutirnir í öldrunarlækningum ættu að vera og mættu stjórnvöld að taka það upp sem fyrst og þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heiðraði fundinn með nærveru sinni getur þessi kynning varla hafa farið fram hjá henni.
Að mínum dómi var þessi fræðsluþáttur eiginlega fræðsla fyrir þá sem ekkert vita um málefni eldri borgara. Því ekkert kom þar fram sem eldri borgarar vita ekki nú þegar, það er að segja þeir sem fylgjast með málefnum aldraðra, sem ég er nokkuð viss um að flestir eldri borgarar geri sem ennþá eru virkir í daglegu lífi samfélagsins. Það var af hinu góða að kynna málefni aldraðra fyrir yngri kynslóðinni en ég er hrædd um að þeir hafi ekki verið að horfa á þennan þátt enda var hamrað á því í fjölmiðlum að hann væri fyrir aldraða.
Eldri borgarar sem fráflæðisvandi
Þegar málefni eldri borgara eru rædd í fjölmiðlum, er alltaf fjallað um eldra fólk á öldrunarheimilum, eða þá sem búa einir, eru einmana eða þurfa á heimahjúkrun að halda. Jafnvel það eldra fólk sem liggur inn á sjúkrahúsum og er fyrir, svokallaðan „fráflæðisvanda“ (ljótt orð), því ekki er pláss á dvalarheimilum. Það er vissulega þarft verk að vekja athygli á þessum hópi þó lítið hafi sú umfjöllun haft áhrif til úrbóta hjá hinu opinbera. En þessi hópur er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og er allt annar hópur en sá sem er að berjast fyrir því að fá kjör sín leiðrétt og þann rétt að fá að taka þátt í atvinnu og þjóðlífi almennt eins og allir aðrir borgarar þessa lands burt séð frá aldri.
„Það breytist ekkert hjá fólki við að verða 67 ára, annað en að þá er það einum degi eldra“
Það breytist ekkert hjá fólki við að verða 67 ára, annað en að þá er það einum degi eldra. Það er ennþá fært um að fara til vinnu og það er líka jafnfært um að fara til vinnu þó að 10 ár bætist þar við, ef um fullfrískt fólk er að ræða. Ef yngra fólk en 67 ára missir hæfni vegna sjúkdóma til að halda áfram vinnu, þá eru það oftast nefnt „öryrkjar“. Þessi hópur hefur ekkert sameiginlegt með fullfrísku fólki sem er orðið 67 ára og eldra, en samt eru þessir tveir hópar iðulega nefndir í einni og sömu andrá. Sá hópur sem er 67 ára eða 77 ára, er jafnvel heilbrigðari en margt yngra fólk. Þessi hópur yngri eldri borgara heldur áfram að lifa lífinu eins og það gerði áður en það náði þeim aldri að vera kallaðir eldri borgarar.
Rænd tækifærum
Þetta er sama fólkið með sama lífstíl og áður, iðkar heilsurækt, útivist og sund, fólk sem er með heilann í lagi og hefur sömu hæfni til vinnu og áður. Samt er það rænt tækifærum til vinnu og tækifærum til að halda áfram að lifa eins og áður aðeins við það eitt að fáein ár hafa bæst við.
Það eru því miður miklir fordómar í þjóðfélaginu gegn öldruðum enda eru alltaf sýndar myndir á skjánum í fjölmiðlum af öldruðu fólki á elliheimilum sem varla getur gengið með göngugrind, þegar fjallað er um málefni aldraða. Ég er ekki að gera grín að fólki á elliheimilum, móðir mín náði háum aldri, vantaði eitt ár í 100 og var það að þakka góðri hjúkrun á dvalarheimili. Það var 30 ára aldursmunur á okkur og fékk ég stimpilinn eldriborgari eins og hún þó ég væri þá og er enn í dag í fullu fjöri 7 árum seinna. Á þessum árum hef ég búið erlendis, kennt íslensku og ensku unnið sem fasteignasali á Íslandi og erlendis, tekið þátt í stjórnun félaga og verið þar í forsæti og allt þetta eftir að ég var stimpluð eldri borgari. En þetta gerðist flest erlendis þar sem fólki eru engar hömlur settar við að taka þátt í lífi og starfi fyrir aldursakir eins og á Íslandi.
Vinnubannið
Ég vann á hóteli á Íslandi fyrir mörgum árum og þá var okkur öllum konum sem voru 50 ára og eldri sagt upp. Stéttarfélagið okkar gat ekkert gert okkur til hjálpar eða að minnsta kosti gerði það ekkert. Í dag er þetta eins, konur eiga erfitt með að fá vinnu þegar aldurinn færist yfir. Ríkisstjórnin hefur sett í lög að eftir 70 ára afmælisdaginn verður fólk að hætta að vinna. Ef þú hefur ekki tækifæri til að framfleyta þér með vinnu þá verður þú að neyðast til að þiggja lífeyri frá ríkinu. Ef ríkið vill hafa hlutina þannig að fólk megi ekki vinna eftir 70 ára aldurinn þá er sjálfsagt að þannig sé búið um hlutina að lífsgæði fólks séu ekki skert? Ef ríkistjórnin bannar 70 ára fólki að vinna er þá ekki augljóst mál að upphæð ellilífeyrislauna sem koma í stað alvinnulauna megi ekki vera lægri enn lágmarkslaun í landinu?
Ríkið ákveður hve há ellilífeyrisgreiðsla er á hverjum mánuði til einstaklinga og fólki sem býr með öðrum. Mismunur er þar á því heimilisuppbót er aðeins til þeirra sem búa einir. En sumir búa hjá ættingjum og hafa ekki sameiginleg fjárráð svo þessi regla er ósanngjörn. En það virðist sem þeir ákveði einnig hvað þú mátt hafa þér til lífsviðurværis á mánuði, því ef tekjur koma til ellilífeyrisþegans, einhvers staðar annars staðar frá þá er skorðið af þeirri upphæð sem þér var ætlað í fyrstu í ellilífeyri þó engin rök séu fyrir þeim stuldi. Jafnvel ef þú varst svo vitlaus að setja ekki peningana í banka frekar en að greiða í lífeyrissjóð, þá ertu búin að tapa þeim aurum, því það er ekki hægt að fá bæði lífeyrissjóðsgreiðslu frá lífeyrissjóði og ellilífeyrisgreiðslu frá ríkinu samkvæmt lögum ríkisins í dag. Að vísu fer skerðingin eftir upphæð lífeyrisjóðsgreiðslunnar þannig að ef upphæðin er ekki stór frá lífeyrisjóði þá situr meira eftir af ellilaununum.
Lífeyrir átti að vera viðbót
Ég man ekki betur en það hafi verið skylda að greiða í lífeyrissjóð, sem væri í lagi ef farið væri eftir þeim lögum sem sett voru þegar lífeyrissjóðskerfið var tekið í notkun þá átti það að vera viðbót við ellilaunin og kemur það skýrt fram í einum kafla í samningnum - málsgrein sem nefnd er „ellilífeyrir“, en þar segir: „Slíkar eftirlaunagreiðslur úr lífeyrissjóðum skerða þó ekki á nokkurn hátt rétt manna til ellilífeyris frá almannatryggingum“.
Við, þessi hópur sem ég vil kalla „yngri eldri borgara“, erum aðeins að fara fram á að fá okkar ellilaun óskert. Mörg höfum við mikla þekkingu og reynslu og gætum auðveldlega miðlað af henni ef við fengum tækifæri til þess. Við erum kennarar, ráðgjafar, fólk í fullu fjöri með hestaheilsu með alls konar menntun sem við fáum ekki að deila, þó er sú menntun sem einu sinni var lærð og hefur þróast með aldri og reynslu, miklu dýrmætari en margt sem kennt er í dag. Ef við viljum halda námskeið og deila með þeim sem vilja læra af okkur þá er lífsviðurværi okkar, „ellilaunin“, skert. Við verðum að fara í feluleik, stofna fyrirtæki og fara á launaskrá hjá okkur sjálfum til að fá þennan 100.000 krónu frítekju frádrátt því þannig er það að hann er aðeins virkur af atvinnutekjum.
Sem sagt ef þú vinnur hjá sjálfum þér við að deila þinni visku til annarra (og nóg er þörfin) þá er ekkert frítekjumark um að ræða og engin vill lenda í bakreikningum hjá Tryggingastofnun ríkisins, því það gæti leitt af sér að ellilaunin væru tekin upp í skuldina næstu árin. Það er undarlegt að ríkisstjórn skuli standa fyrir slíku broti á mannréttindum og vona ég að þeir verði að svara fyrir það í réttarsal með Gráa Hernum sem stendur í málaferlum við ríkið.
Ríkisstjórnin segir að þeir verði AF 38 milljörðum ef þeir hætti að skerða laun eldri borgara, fullfrískra einstaklinga sem hafa verið heftir fátækragildru, blokkeraðir frá lífsgæðum einungis vegna þess að það varð eldra, ekki vegna þess að það sé ófært til vinnu og ekki vegna þess að það sé ekki heilsuhraust. Hópur yngri eldri borgara sem aðeins vill halda áfram að lifa lífinu og njóta með öðrum þegnum þjóðfélagsins, fólk sem er eins hraust og hefur sömu getu og aðrir.
Ríkisstjórnin setur þessi fáránlegu lög til þess að afla fé í peningakassa ríkisins, stelur af lífeyri eldriborgara til að afla fjár fyrir alls konar gæluverkefnum. En það er ekki okkar mál hvað ríkið verður AF í peningum, því það er þeirra starf að fjármagna fé til ríkisins annars staðar en að stela af eldriborgurum þjóðfélagsins.
Eins og ég áður nefndi þá er það á ábyrgð heilbrigðiskerfisins að hugsa um háaldrað og veikt fólk og á ekki að tala um eldri borgara sem einn hóp því það er hann ekki. Við sem erum frísk og líf okkar hefur ekkert breyst við aldurinn, við eigum rétt á því að fá að lifa í því þjóðfélagi sem við byggðum upp án allra hafta. Og ekki skal því gleyma að við erum börnin sem vorum sett í fiskvinnsluna til að bjarga verðmætum, við vorum látin vinna við sveitastörfin eins og fullorðið fólk af því að það þurftu allar hendur til að byggja upp þá velmengun sem þjóðin býr við í dag. Þetta ætti að þakka en ekki að lítilsverða.
Nú líður að kosningum og loforðum frá stjórnmálaflokkum fara að hrynja yfir eldriborgara. Smalað verður saman eldriborgurum af dvalarheimilum og þeim sagt hvar þeir eigi nú að setja X-ið. Flestir yngri eldri borgarar sem fylgjast með stjórnmálunum vita að ekkert er að marka þessi loforð. Það var nú ekki lítið sem Katrín Jakobsdóttir lofaði eldriborgurum fyrir síðustu kosningar en efndi ekki. Bjarni Benediktsson undirritaði meira segja bréf sitt með glæsilegum loforðum til eldriborgara þar sem taka átti af allar skerðingar engar voru efndirnar. Ekki stóð á loforðum frá öðrum flokkum heldur. Flokkur Fólksins hefur komið með tillögur til bóta fyrir eldri borgara en því miður ekki fengið nægilegar undirtektir annarra þingmanna.
Nei, við erum löngu búin að læra að treysta ekki alþingismönnum í hvaða flokki sem þeir eru. Við „yngri eldri borgarar“ bindum vonir okkar við lög og rétt og sanngjarna dómara.
Margrét Sigríður Sölvadóttir, yngri eldri borgari
Athugasemdir