Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur upplýst ríkisstjórnina um að hann hafi málefni meðferðarheimilisins Laugalands og lýsingar hóps kvenna á ofbeldi sem þær urðu fyrir þar til skoðunar. Ákvörðun um hvort opinber rannsókn fari fram á rekstri Laugalands mun ráðast af mati Ásmundar á málinu.
Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Katrín svaraði þar fyrirspurn Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingkonu Pírata, sem vakti máls á lýsingum sex kvenna, sem stigu fram í síðasta tölublaði Stundarinnar og lýsta því að þær hefðu búið við harðræði og ofbeldi af hálfu Ingjalds Arnþórssonar, forstöðumanns Laugalands á árabilinu 1997 til 2007.
Sara spurði Katrínu hvort hún hyggðist beita sér fyrir því að málefni Laugalands yrðu rannsökuð og hvort ekki væri eðlilegt að þær konur sem þar voru vistaðar fengju greiddar miskabætur vegna þess skaða sem þær hefðu orðið fyrir af dvölinni. Katrín svaraði því til að Ásmundur Einar hefði greint samráðherrum sínum frá því að hann væri með umrædd mál til skoðunar og myndi upplýsa ríkisstjórnina um framvindu þeirrar skoðunar. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar hyggst Ásmundur funda með hópi kvenna sem vistaðar voru á Laugalandi 12. febrúar næstkomandi.
„Það mun að sjálfsögðu ráðast af því hvaða mat hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra leggur á málið“
„Háttvirtur þingmaður spyr hér sömuleiðis um það hvort rétt sé að efna til rannsóknar. Nú er það svo að það mun að sjálfsögðu ráðast af því hvaða mat hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra leggur á málið,“ sagði Katrín.
Forsætisráðuneytið hefur, að sögn Katrínar, verið að fara yfir fyrirkomulag rannsókna á frásögnum af harðræði og ofbeldi inni á stofnunum sem rekin hafa verið af hinu opinbera. Sú yfirferð hófst vegna umfjöllunar um málefni vistheimilisins í Arnarholti á síðasta ári. Mun ráðuneytið hafa skilað velferðarnefnd Alþingis minnisblað þar um í dag. Katrín sagði að hægt væri að skipa rannsóknarnefndir Alþingis til að fara yfir slík mál en einnig væri hægt að skipa sérstakar rannsóknarnefndir. Til þess þyrfti þó lagastoð. Hvað þetta tiltekna mál varði sagði Katrín rétt að bíða eftir yfirferð Ásmundar Einars á vettvangi ríkisstjórnarinnar, áður en hún geti sagt til um hver endanleg niðurstaða verði.
Athugasemdir