Ellefu konur sem dvöldu á Laugalandi á árunum 1997 til 2007 hafa sent Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra bréf þar sem þær óska eftir því að hann skipi rannsóknarnefnd til að kanna starfsemi Laugalands í tíð Ingjalds Arnþórssonar sem forstöðumanns. Ásmundur hefur svarað konunum og boðið þeim að funda með hópnum bráðlega.
Í síðasta tölublaði Stundarinnar stigu sex konur fram og lýstu upplifun sinni af harðræði og ofbeldi, andlegu og líkamlegu, sem þær segja Ingjald hafa beitt þær meðan þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti. Gögn sýna að Barnaverndarstofu fékk tilkynningu um illa meðferð á stúlku sem þar dvaldi fyrst árið 2000.
„Könnuðust þau við að hafa heyrt flest af því sem þar kom fram“
Árið 2001 kvörtuðu fleiri stúlkur til umboðsmanns barna, sem brást við með því að boða þrjár stúlknanna á sinn fund þar sem þær lýstu dvöl sinni og meðferðinni á Laugalandi. Umboðsmaður fundaði í kjölfarið með forstöðumanni Stuðla og fleiri starfsmönnum þar sem farið var yfir ábendingarnar. segir í minnisblaði umboðsmanns barna um fundinn. Í sama minnisblaði segir að ábendingar um Laugaland hafi borist úr fleiri áttum, frá stúlkum sem þar hafi dvalið og einnig frá foreldrum nokkurra stúlkna. Niðurstaða fundarins var að haft yrði samband við Barnaverndarstofu og eitthvað yrði gert varðandi ástandið á Laugalandi.
Í maí árið 2002 sendi umboðsmaður barna Barnaverndarstofu erindi þar sem farið var fram á að kannað yrði hvað hæft væri í ábendingum um að rekstraraðilar Laugalands hefðu brotið gegn barnaverndarlögum og gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnaverndarstofa svaraði erindinu tveimur mánuðum síðar og vísaði þar til þess að tvær kannanir hefðu verið gerðar meðal þeirra stúlkna sem dvöldu á Laugalandi, um líðan þeirra þar. Báðar þær kannanir sem vísað var til voru gerðar áður en erindi umboðsmanns barna var sent. Ekki hafa komið fram gögn um að annað hafi verið aðhafst og hélt Ingjaldur rekstri Laugalands áfram ótruflað til ársins 2007.
Ráðherra hyggst funda með konunum
Konurnar ellefu sem skrifa undir bréfið til Ásmundar Einars koma fram fyrir hönd fyrrverandi skjólstæðinga Laugalands en tiltekið er að konurnar séu fleiri, sem kjósa nafnleynd að sinni. Þær skýra út í bréfinu að þær hafi lýst andlegu og líkamlegu ofbeldi sem þær upplifðu á Laugalandi, tilraunum sínum til að upplýsa Barnaverndarstofu þar um, en án árangurs, ekki hafi verið brugðist við kvörtunum þeirra.
„Það er eindregin ósk okkar að rannsóknarnefnd verði stofnuð og starfsemi Laugalands fram til 2007 verði ítarlega könnuð“
„Það er eindregin ósk okkar að rannsóknarnefnd verði stofnuð og starfsemi Laugalands fram til 2007 verði ítarlega könnuð, svo fram komi hvað þar átti sér stað, hvernig það viðgekkst og hvað fór úrskeiðis þegar kvartanir bárust og kallað á eftirlit.
Miðað við þau gögn sem við höfum fengið, t.d. frá umboðsmanni barna, ber ekki á öðru en að málið hafi ekki verið athugað á sínum tíma. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir ofbeldið sem viðgekkst á Laugalandi en þess í stað var ekki brugðist við og fleiri skjólstæðingar sendir þangað sem síðar upplifðu það sama. Við upplifum að á okkur hafi ekki verið hlustað og stígum því fram í dag í þeirri von að nú verði starfsemin rannsökuð, mistök verði viðurkennd og við beðnar afsökunar,“ segir í bréfi kvennana. Þá óska þær eftir því að fá fund með ráðherra.
Í morgun fengu konurnar svar frá aðstoðarmanni Ásmundar Einars þess efnis að hann vildi gjarnan hitta þær bráðlega og hlusta á þeirra sjónarmið. Áður hafði staðið til að Ásmundur fundaði með einni konu sem var vistuð á Laugalandi en í ljósi beiðni kvennana ellefu þá leggur ráðherra til að funda með öllum þeim konum sem það vilja á hópfundi.
Athugasemdir