Félag í eigu útgerðarfélagsins Samherja í Namibíu greiddi fé inn á reikning namibískrar lögmannsstofu sem svo millifærði peningana til stjórnmálaflokksins SWAPO. SWAPO-flokkurinn hefur verið með meirihluta á þingi landsins frá því landið fékk sjálfstæði frá Suður-Afríku fyrir 30 árum. Um var að ræða rúmlega 40 milljónir króna. Samhliða greiddi Samherji stjórnmála- og embættismönnum sem tilheyrðu SWAPO-flokknum mútur fyrir að tryggja útgerðinni kvóta í landinu.
Greint er frá greiðslunni frá Samherjafélaginu Mermaria Seafood í yfirlýsingu frá namibíska lögmanninum Sisa Namandje, sem rak lögmannsstofu sem var einn af þeim aðilum sem millifærði peningana sem skiptu um hendur í Samherjamálinu svokallaða. Málið er til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi.
SisaNamandje sendi yfirlýsingu sína til namibísku spillingarlögreglunnar ACC í október síðastliðinn eftir að æðsti ráðamaður þeirrar stofnunar, Paulus Noa, hafði sent bréf til lögmannsins um meðal annars greiðslur frá félögum Samherja í september 2020.
Athugasemdir