Á síðasta ári komu 171 mannslát til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem er umtalsverð fjölgun frá fyrri árum. Á árabilinu 2017 til 2019 komu að meðaltali 114 mannslátsmál inn á borð lögreglunnar. Talsvert hærra hlutfall krufninga fór fram á síðasta ári en verið hafði. Lögreglan hefur ekki skýringu á því en telur mögulegt að ástandið í þjóðfélaginu, tengt kórónaveirufaraldrinum, hafi þar eitthvað að segja.
77%
Fjölgun mannsláta sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk inn á sitt borð er í takt við það sem gerðist á landinu öllu á síðasta ári. Í síðasta tölublaði Stundarinnar var greint frá því að á landinu öllu hefðu verið skráð 265 óútskýrð dauðsföll á síðasta ári, samanborið við 180 árið 2019. Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur var þar inntur eftir skýringum á þessari miklu fjölgun milli ára. Pétur svaraði því til að hann gerði sér ekki grein fyrir því hvað valdi. „Það er ekki alveg á hreinu. Ég veit ekki nákvæmlega hvar aukningin liggur.“
Fleiri réttarkrufningar á síðasta ári
Á árunum 2017 til 2019 fór réttarkrufning fram í 65 prósentum tilvika af þeim mannslátsmálum sem lögregla hafði afskipti af. Það hlutfall jókst hins vegar verulega árið 2020. Af þeim 171 máli sem komu til kasta lögreglu á síðasta ári var framkvæmd réttarkrufning framkvæmd í 76,7 prósentum tilvika. Er því sýnileg aukning í fjölda mannsláta og í réttarkrufningum einnig.
„Engin ein skýring er á þessari fjölgun krufninga“
Í svari Margeirs Sveinssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við fyrirspurn Stundarinnar segir að samkvæmt lögum sé ekki gefið út dánarvottorð nema dánarorsök liggi fyrir. Dánarorsök er ýmist fengin með vottorði læknis þar um eða með krufningu. „Engin ein skýring er á þessari fjölgun krufninga,“ segir í svari Margeirs. „Því til viðbótar má eflaust velta því upp hvort það ástand sem ríkir og hefur ríkt s.l. mánuði/ár að tenging sé þar á milli en tíminn einn getur gefið skýringar á því þegar búið er að ná tökum á ástandinu/Covid,“ segir Margeir einnig.
Í flestum tilvikum finnst dánarorsök við réttarkrufningu en þó ekki í öllum tilvikum. Árið 2019 voru 37 andlát þannig skráð í dánarmeinaskrá með þeim hætti að orsakir dauða væru óþekktar eða ótilgreindar. Rétt er að nefna að ekki er samasemmerki milli þess að orsakir dauða séu óþekkktar og að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað. Í einhverjum tilvikum séu lík þannig svo illa farin þegar þau finnast, til að mynda hafi fólk orðið úti eða farist á sjó, að ógerningur er að komast að ákveðinni dánarorsök. Sambærilegar tölur liggja ekki fyrir fyrir árið 2020.
Athugasemdir