Byrjum á Trump ...
Donald Trump Bandaríkjaforseti sakar andstæðinga sína að tilhæfulausu um að hafa rænt hann sigri í forsetakjörinu í nóvember leið. En hann hefur sjálfur orðið uppvís að ítrekuðum tilraunum til að ræna sigrinum af rétt kjörnum forseta landsins, Joe Biden. Nú síðast lýsti Trump ætlan sinni umbúðalaust í afhjúpandi símtali sem var lekið til fjölmiðla. Svipað henti nokkru fyrr lánlausan rússneskan leyniþjónustumann sem lét ginnast til að viðurkenna aðild sína að tilraun leyniþjónustunnar FSB, áður KGB, um að eitra fyrir Alexey Navalny, helzta andstæðingi Pútíns, forseta Rússlands. Játningin var tekin upp og hafa tugir milljóna manna hlustað á upptökuna.
Þar eð Trump er æðsti yfirmaður hersins í Bandaríkjunum, hafa æ fleiri lýst ótta við að hann gæti á elleftu stundu reynt að fremja vopnað valdarán. Svo rammt kveður að óttanum að allir tíu fyrrverandi og núlifandi varnarmálaráðherrar landsins birtu um daginn sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir vara við valdaráni. Vopnaðir stuðningsmenn forsetans réðust inn í þinghúsið þegar þingmenn bjuggust til að staðfesta kjör Bidens formlega í fyrrakvöld. Forsetinn hafði eggjað stuðningsmenn sína fyrr um daginn og bað þá ekki að draga sig í hlé fyrr en tveim klukkustundum eftir árásina. Það kom í hlut varaforsetans að kalla á þjóðvarðlið til að efla máttvana löggæzlu við þingið og innan veggja þess. Bandaríkjaþing hefur ekki orðið fyrir árás síðan 1814, þá voru það Bretar.
Valdarán algeng
Valdarán eru algengari en margir halda. Frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari 1945 hafa 583 tilraunir til valdaráns verið gerðar um heiminn. Innan við helmingur þeirra tókst, eða 288. Sitjandi valdhafar stóðu á bak við fjórðung þessara 583 valdaránstilrauna, eða 148, og þar af var fjórðungur í lýðræðisríkjum, eða 38. Þessar tölur eru sóttar í væntanlega bók eftir bandaríska stjórnmálafræðinginn John Chin.
Algengast er að sitjandi valdhafar sem reyna að hanga á völdum eins og hundar á roði vanvirði stjórnarskrána eða setji dómsvaldi eða framkvæmdarvaldi stólinn fyrir dyrnar. Það hefur þó gerzt aðeins fimm sinnum að sitjandi valdhafar reyni að ræna sigri af sigurvegara í kosningum líkt og Trump og menn hans reyna nú og þar af aðeins einu sinni í lýðræðisríki. Það var í Kosturíku 1948 og leiddi til borgarastyrjaldar sem stóð í sex vikur og lyktaði þannig að landið hefur verið óskorað lýðræðisríki æ síðan.
Það er meira en hægt er að segja um Bandaríkin. Lýðræðiseinkunn þeirra hefur verið lækkuð úr 10 í 8 fyrir árin 2016-2018 samkvæmt einni helztu lýðræðisrannsóknamiðstöð heims í Háskólanum í Maryland í Bandaríkjunum. Kananum var gefin einkunnin 10 samfleytt frá 1871 til 2015 ef árin 1967-1973 eru undan skilin. Lýðræðisbrestirnir eru bundnir við forsetatíðir tveggja gangstera, Richards Nixon sem náði kjöri 1968 og sat til 1974 og Trumps sem var kjörinn 2016 (auk lokaára Lyndons B. Johnson í embætti 1967-1968). Nixon slapp við fangavist af því að hann sagði af sér og varaforsetinn sem tók við af honum, Gerald Ford, veitti honum uppgjöf saka. Það á eftir að koma í ljós hvort Trump sleppur við fangavist. Hitt er deginum ljósara að Trump á dygga aðdáendur, einnig á Íslandi svo sem margar forustugreinar Morgunblaðsins vitna um.
... og höldum áfram ...
Lýðræðisbrestirnir í Bandaríkjunum eiga sér hliðstæður annars staðar, einkum í Bretlandi, en rannsóknamiðstöð stjórnmálafræðinganna í Maryland hefur lækkað lýðræðiseinkunn Bretlands úr 10 í 8 fyrir árin 2016-2018 borið saman við einkunnina 10 samfleytt 1922-2015. Jafnvel Pólland og Ungverjaland þar sem hefur hallað verulega á mannréttindi síðustu ár halda einkunninni 10 fyrir 2016-2018. Af því má ráða hversu hallað hefur undan fæti frá 2016 í Bandaríkjunum og Bretlandi undir stjórn repúblikana og íhaldsmanna. Ísland hefði trúlega einnig fengið á baukinn í þessari einkunnagjöf væri landið haft með í matinu, en lönd með minna en hálfa milljón íbúa eru skilin út undan.
Tvennt vekur athygli þegar þróun lýðræðis í Bandaríkjunum síðustu ár er borin saman við Ísland. Í fyrsta lagi hefur það nú gerzt vestra tvisvar frá síðustu aldamótum að vilji kjósenda er hunzaður. Einkunnarorð lýðræðisskipulagsins – kjósendur hafa sagt hug sinn! – eru vanvirt líkt og Alþingi hefur gert síðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá 2012. Spyrja má hvort Alþingi sé okkar Trump. Fyrst gerðist þetta vestra 2000 þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna stöðvaði talningu atkvæða í Flórída og dæmdi repúblikönum forsetaembættið með fimm atkvæðum gegn fjórum eftir flokkslínum. Og nú gerist það að sitjandi forseti ætlast til að sitja áfram í embætti þótt hann hafi tapað kosningunum og dómstólar hafi hafnað kærum hans vegna meintra kosningasvika. Dómskerfið hefur staðið af sér árás forsetans þótt hann hafi lagt ofurkapp á að skipa hliðholla dómara úr röðum repúblikana, þar af þrjá af níu dómurum í Hæstarétti.
Í annan stað hefur Trump forseti umkringt sig með einvala liði óhæfra samstarfsmanna sem sumir hafa beinlínis gengið í að eyðileggja ráðuneytin sem þeir stjórna, svo sem menntamálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Forsetinn þekkir ekki muninn á hæfu fólki og óhæfu. Efnahagsráðgjafar hans eru alþekktir asnar og sama á við um flesta aðra sérvalda ráðgjafa hans. Eina raunverulega viðmiðið er meðvirkni.
... heim til þín, Ísland
Og þá berast böndin hingað heim. Meðvirkni er höfuðkennimark, mér liggur við að segja brennimark stjórnsýslunnar og viðskiptalífsins í landinu. Menn eru ekki skipaðir í mikilvæg störf í stjórnsýslunni nema tryggt sé talið að þeir hlýði yfirboðurum sínum í gegnum þykkt og þunnt og þegi þegar þess er krafizt. Aðhaldshlutverk heilbrigðrar stjórnsýslu er að engu haft. Fleyg urðu ummæli fyrrrverandi forsætisráðherra um ónefndan umsækjanda um dómarastarf í Hæstarétti. Ráðherrann lagðist gegn skipun mannsins með þessum orðum: Maður veit aldrei hvar maður hefur hann!
Meðvirknin birtist aftur og aftur í vandræðalega röngum dómum, veikri stjórnsýslu og spillingu sem ágerist ár fram af ári. Meðvirknin í svo nefndum einkageira lýsir sér meðal annars í því að Samtök atvinnulífsins hegða sér sem löngum fyrr eins og landsmálafélag í Sjálfstæðisflokknum. Þau eru einu samtök sinnar tegundar í allri Evrópu sem leggjast gegn aðild að ESB. Sjálfstæðisflokkurinn var lengi með líku lagi eini hefðbundni borgaraflokkurinn í Evrópu sem er andvígur aðild að ESB. En nú hefur það breytzt því flokkurinn hefur á vettvangi Evrópuþingsins skipað sér í sveit með þjóðernissinnuðum hægri flokkum eins og til dæmis stjórnarflokki Póllands og orðið viðskila við gamla systurflokka sína á Norðurlöndum, heiðvirða íhaldsflokka.
„Enn hefur fólkið í landinu engar fréttir fengið af innlögnum inn á Panama-reikninga íslenzkra ráðherra eða úttektum af reikningum þeirra“
Meðvirknin birtist einnig í veikum viðbrögðum við hruninu. Fjárveitingar til sérstaks saksóknara voru skornar niður eins og til að þóknast hrunverjum og hindra framgang réttvísinnar. Síðan var opnuð leið handa hrunverjum með fullar hendur fjár aftur heim í boði Seðlabankans sem spurði einskis um uppruna fjárins. Vararíkissaksóknari hefur lýst því í útvarpi hversu embætti ríkissaksóknara er þröngt sniðinn stakkurinn eins og til að hamla saksókn efnahagsbrota. Fáir stjórnmálamenn og enn færri forustumenn í atvinnulífi fordæma hrunið og lögbrotin sem fylgdu því enda væru þeir þá margir að fordæma sjálfa sig. Traust almennings á stjórnvöldum er í molum.
Að vísu voru 36 Íslendingar dæmdir til samtals 88 ára fangelsisvistar fyrir lögbrot tengd hruninu, en mestmegnis voru það smáfiskar sem dómana fengu og margir stórlaxar sluppu. Eða réttara sagt: Þeim var sleppt. Hrunverjar hreiðra nú aftur um sig í viðskiptalífinu. Enn hefur fólkið í landinu engar fréttir fengið af innlögnum inn á Panama-reikninga íslenzkra ráðherra eða úttektum af reikningum þeirra heldur var látið duga að einskorða athugun yfirvalda við skattahlið 103 reikninga af rösklega 800 leynireikningum 600 Íslendinga í Panama. Málið snýst þó ekki bara um skattsvik heldur einnig um uppruna fjár, innlagnir og úttektir – og það í landi þar sem stærsta útvegsfyrirtækið hefur orðið uppvíst um greiðslur til afrískra stjórnmálamanna og annarra sem hafa af þeim sökum þurft að dúsa í fangelsi í meira en ár og bíða þar dóms.
Hliðstæð leynd grúfir enn yfir neyðarláni seðlabankans til Kaupþings í hruninu 2008, láni sem rann að hluta rakleiðis til Tortólu.
Meðan þessi mál og önnur slík eru óupplýst væri mesta óráð að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka enda myndu þá vakna grunsemdir um að hrunverjar væru nú aftur farnir að hugsa sér til hreyfings. Miklu meira en nóg hafa stjórnvöld nú þegar gert til að greiða götu hrunverja aftur inn í íslenzkt efnahagslíf.
Gerum hlutina í réttri röð
Hvaðan skyldi frumkvæðið koma nú að fyrirhugaðri bankasölu? Frumkvæðið kemur ekki frá ríkisstjórninni í þessari lotu heldur frá Bankasýslu ríkisins sem fjármálaráðherra og forsætisráðherra reyna nú að skýla sér á bak við. Bankasýslan er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir fjármálaráðherra og „fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti ...“ svo sem segir í lögum.
Og hverjir skyldu sitja í stjórn bankasýslunnar? Formaður stjórnarinnar er nvæuverandi stjórnarmaður í Eimskip, óskabarni þjóðarinnar sem hrunverjar keyrðu í kaf og ber nú nýja kennitölu. Hin tvö eru fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem bar þyngsta ábyrgð á hruninu samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, og fyrrverandi stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins sem hafði þar þá lofsverðu sérstöðu að hún lýsti eftir uppgjöri við hrunið. Varamaður stjórnarinnar er núverandi stjórnarmaður í Brimi, næststærsta útvegsfyrirtæki landsins. Samsetning stjórnarinnar vitnar ekki um næman skilning stjórnvalda á þeim þungbæra skaða sem bankarnir lögðu á mikinn fjölda fólks og fyrirtækja í hruninu og ekki heldur á lögbrotunum sem leiddu 88 fangelsisár yfir brotlega bankamenn og aðra í tengslum við hrunið.
Ný ríkisstjórn þarf að girða fyrir tortryggni og efla traust með því að lyfta lokinu af spillingunni og ljúka uppgjörinu við hrunið. Að því loknu verður tímabært að endurskipuleggja bankakerfið, ekki fyrr. Það þarf að gera hlutina í réttri röð. Reynslan sýnir að bankar í röngum höndum geta valdið gríðarlegu tjóni.
Athugasemdir