Rætt er um mögulegt framsal tíu núverandi og fyrrverandi starfsmanna útgerðarfélagsins Samherja í bréfi sem lögreglan í Namibíu sendi til Interpol þar í landi í maí. Bréfið er skrifað af einum af rannsakendum Samherjamálsins þar í landi, Nelius Becker. Tilgangur bréfsins er að óska eftir aðstoð Interpol þar í landi til að fá starfsmenn Samherja framselda til landsins ef það fer svo að þeir verða ákærðir fyrir möguleg brot eins og spillingu, fjársvik, peningaþvætti og mútur.
Bréfið er hluti rannsóknargagnanna í Samherjamálinu í Namibíu sem Stundin hefur undir höndum. Gögnin eru vinnugögn ákæruvaldsins í landinu í Samherjamálinu sem snýst um rannsókn á mútugreiðslum félaga Samherja til ráðamanna í Namibíu á árunum 2012 til 2019 sem Kveikur, Stundin og Al Jazeera greindu frá í nóvember í fyrra í samvinnu við Wikileaks.
Tekið skal fram að bréfið snýst bara um hugmyndir um mögulegt framsal en ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum varðandi umrætt Samherjafólk. Enginn starfsmaður Samherja hefur verið ákærður fyrir lögbrot í Samherjamálinu, hvorki í Namibíu né á Íslandi, og óvíst er hvort svo verði á þessari stundu. Bréfið sýnir hins vegar að ákæruvaldið í Namibíu hefur velt þeim möguleika fyrir sér og tekið skref í áttina að því að undirbúa mögulegar aðgerðir gegn stjórnendum Samherja á Íslandi.
„Samkvæmt rannsókninni er sterkur grunur um að umræddir einstaklingar hafi haft aðild að glæpunum sem lýst er.“
Í bréfinu, sem ber yfirskriftina „Athugun á samastað stjórnenda Samherja, sem eru íslenskir ríkisborgarar [...],“ stendur meðal annars að „sterkur“ grunur sé um að umræddir einstaklingar hafi framið lögbrotin sem nefnd eru í bréfinu. „Samkvæmt rannsókninni er sterkur grunur um að umræddir einstaklingar hafi haft aðild að glæpunum sem lýst er.“
Beðið er um aðstoð við að hafa upp á þessum einstaklingum með það fyrir augum að mögulega fara fram á framsal þeirra ef svo ber undir.
Fimm með réttarstöðu sakborninga
Þeir tíu einstaklingar sem nefndir eru í bréfinu eru þau Þorsteinn Már Baldvinsson, Aðalsteinn Helgason, Ingvar Júlíusson, Egill Helgi Árnason, Arna Bryndís Baldvins McClure, Baldvin Þorsteinsson, Jón Óttar Ólafsson, Ingólfur Pétursson og tveir lágt settir starfsmenn til viðbótar sem ekki hafa oft verið nefndir á nafn í tengslum við Samherjamálið í Namibíu. Nöfn þeirra tveggja verða látin liggja á milli hluta að sinni.
Fimm af þeim einstaklingum sem nefndir eru í bréfinu eru einnig með réttarstöðu sakbornings á Íslandi. Þetta eru þau Þorsteinn Már, Arna Bryndís, Aðalsteinn, Egill Helgi og Ingvar. Á Íslandi eru sex einstaklingar með réttarstöðu sakborninga en auk fimmmenninganna er það uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson. Ákæruvaldið í Namibíu fer ekki fram á mögulega aðstoð við að finna Jóhannes þar sem Samherjamálið hófst með því að hann setti sig í samband við yfirvöld í Namibíu um haustið 2018.
Í lok bréfsins segir: „Beiðni okkar lýtur að því að skrifstofa ykkar, í gegnum þær samskiptaleiðir sem hún hefur að ráða, finni út úr því hvar viðkomandi einstaklinga er að finna (talið er að flestir þeirra séu á Íslandi) og hjálpi okkur við að hafa uppi á þeim ef svo fer að gefnar verði út handtökuskipanir að framsalsbeiðnir.“
Samherji neitaði fréttinni
Fréttastofa RÚV sagði frá tilvist þessa bréfs í byrjun mánaðarins en vitnaði ekki í það. RÚV vitnaði í eiðsvarna yfirlýsingu Karl Patrick Cloete um bréfið.
Í kjölfar þessarar fréttar neitaði Samherji því að lögregluyfirvöld í Namibíu hefðu reynt að hafa upp á starfsmönnum Samherja. „Namibísk yfirvöld hafa engar tilraunir gert til að hafa afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum félaga tengdum Samherja. […] Fréttaflutningur um að namibísk stjórnvöld vilji ná tali af nokkrum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Samherja er því mjög villandi.“
Enn frekar sagði Samherji að hugleiðingar einstakra lögreglumanna um mögulegt framsal starfsfólks Samherja skiptu ekki máli. „Hugleiðingar einstakra lögreglumanna í Namibíu ráða engu um þær heimildir sem gilda almennt um framsal milli ríkja í tengslum við rekstur sakamála. Namibísk yfirvöld hafa engar lagaheimildir til að krefjast framsals yfir íslenskum ríkisborgurum þar sem enginn samningur er til staðar milli ríkjanna um framsalið.“
Bréfið sýnir hins vegar að namibísk yfirvöld hafa víst skipulagt óformlega leit að umræddum einstaklingum, hvað svo sem síðar verður, og er því ekki bara um að ræða hugleiðingar einhvers lögreglumanns eins og Samherji sagði. Fréttaflutningur um að ákæruvaldið í Namibíu hafi áhuga á því að ræða við umrætt starfsfólk Samherja, og eftir atvikum að reyna að fá það framselt til Namibíu, er því hvorki rangur né villandi.
Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar kom fram að Jón Óttar Ólafsson væri með réttarstöðu sakbornings í Íslandi. Þetta er rangt. Í stað Jóns Óttars átti nafn Ingvars Júlíussonar að koma fyrir í upptalningunni á þeim sem eru með réttarstöðu sakbornings á Íslandi. Þetta hefur nú verið leiðrétt.
Athugasemdir