Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, hefur lagt fram breytingatillögu við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 þess efnis að tíðavörur verið ókeypis fyrir ákveðna hópa. Í tillögunni er gert ráð fyrir að framlag til þess nemi 280 milljónum króna á næsta ári.
Í tillögu Andrésar Inga er gert ráð fyrir að öllum nemendum í grunn- og framhaldsskólum verði með henni tryggt aðgengi að tíðavörum án endurgjalds. Þá verði fólki með lágar tekjur einnig gert kleift að nálgast tíðavörur án endurgjalds og nefnir Andrés Ingi að það gæti gerst á heilsugæslustöðvum eða í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðehrra útfæri aðgerðirnar í samráði við aðra.
„Í samhengi fjárlaga sem telja milljón milljónir króna, þá er það lítið gjald til að tryggja þeim sem þurfa aðgang að þessari nauðsynjavöru“
Stundin greindi frá því í október að tvær stúlkur í Langholtsskóla, Anna María Allawawi Sonde, 14 ára, og Saga María Sæþórsdóttir, 15 ára, hefðu sent inn umsögn við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir næsta ár þar sem þær skoruðu á Alþingi að afnema skattlagningu á tíðavörur, svokallaðan bleikan skatt. Getnaðarvarnir og tíðavörur bera nú 11 prósenta virðisaukaskatt en báru 24 prósenta skatt fram á síðasta ár. Ekki hefur verið orðið við áskorun með framkomnum breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar og því leggur Andrés Ingi fram sína breytingartillögu.
Í nóvember síðastliðnum samþykkti skoska þingið einróma frumvarp þess efnis að tíðavörur yrðu gerðar ókeypis í landinu. Verði breytingartillaga Andrésar Inga samþykkt gæti hún náð til um 22.500 einstaklinga á landinu öllu. Miðað við 1.000 krónur í tíðavörur á mánuði myndi það því kosta ríkissjóð 270 milljónir á ári, sem Andrés hefur kosið að hækka upp í 280 milljónir. Það er raunar sama upphæð og lagt er til að hækka sóknargjöld um í fjárlagafrumvarpinu. „Í samhengi fjárlaga sem telja milljón milljónir króna, þá er það lítið gjald til að tryggja þeim sem þurfa aðgang að þessari nauðsynjavöru,“ skrifar Andrés Ingi um tillögu sína í grein á Stundinni.
Athugasemdir