Kasper er hundur vinar míns sem ég passa af og til. Ég hef mjög gaman af hundum, reyndar dýrum almennt, en hundar eru í uppáhaldi. Ég á því miður ekki hund sjálf enn þá, ég bý bara ein og er í námi, en ég hef verið að passa Kasper, meðal annars til að átta mig á því hvernig það er að eiga hund. Þetta er svolítið eins og æfing, ég er að þjálfa mig upp. Það er nefnilega meira en að segja það að halda hund.
Það hefur verið mjög gott að fá að passa Kasper í þessu COVID-ástandi því það gefur mér aukinn drifkraft að þurfa að vakna snemma og fara út með hann. Ég er eins og sagði bara ein og hef verið svolítið lítil í mér svo ég hef verið að passa hann meira þess vegna.
Það er afskaplega notalegt að hafa svona tryggan vin við hlið sér, ég sef meira að segja betur með hann inni á heimilinu. Mér finnst alltaf leiðinlegt að þurfa að skila honum. Ég deili vinnustúdíói með eiganda hans þannig ég hitti Kasper flesta daga. Ég er að læra tannsmíði og núna á meðan COVID stendur yfir hef ég nýtt stúdíóið til að læra þar. Ég útskrifaðist í fyrravor úr gullsmíði svo hver veit nema ég nýti námið svo til að smíða bling upp í fólk.
Athugasemdir