Kosið var um fjölda tillagna í ríkjum Bandaríkjanna í nótt til viðbótar við kosningar um forseta, þingmenn og aðrar opinberar stöður.
Í ríkinu Oregon var samþykkt tillaga um að afglæpavæða öll vímuefni, þar á meðal smærri skammta af heróíni. Stuðningsmenn tillögunnar telja að stefna Bandaríkjanna í „stríðinu gegn eiturlyfjum“ hafi fyllt fangelsi landsins af fólki sem þurfi meðferð frekar en refsingu og að stefnunni hafi sérstaklega verið beint gegn svörtu fólki. Þá varð ríkið það fyrsta í Bandaríkjunum til að lögleiða notkun ofskynjunarsveppa í lækningaskyni og undir handleiðslu sérfræðinga.
Í Flórída, þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti fékk meirihluta atkvæða, völdu kjósendur að hækka lágmarkslaun í skrefum upp í 15 dali á klukkutíma. Breytingarnar taka gildi á sex árum. Lágmarkslaun munu hækka úr 8,56 dölum í 10 í september 2021, eða úr andvirði 1200 íslenskra króna í 1400. Þaðan hækka launin um einn dal á ári þar til þau ná 15 dölum haustið 2026, eða andvirði 2100 króna. Er Flórída áttunda ríkið til að hækka launin í 15 dali, en á landsvísu eru lágmarkslaun aðeins 7,5 dalir og hafa verið óbreytt frá 2009.
Í Kaliforníu, þar sem kjósendur studdu Joe Biden, frambjóðanda Demókrata, með yfirburðum, er útlit fyrir að kjósendur hafi samþykkt tillögu sem skilgreinir bílstjóra svokallaðra skutlþjónusta sem verktaka, en ekki launþega. Nær breytingin til starfsmanna fyrirtækja eins og Uber, Lyft og Postmates, sem þurfa ekki að greiða fyrir réttindi eins og veikindadaga og borga yfir lágmarkslaunum. Lögðu fyrirtækin andvirði 25 milljarða íslenskra króna í kosningabaráttuna, sem var sú dýrasta sinnar tegundar, og höfðu erindi sem erfiði.
Athugasemdir