Endurskoðandafyrirtækið KPMG vinnur samkvæmt verkferlum sem fela það í sér að félagið líður ekki mútugreiðslur og spillingu í neinni mynd. Um þetta er fjallað í gagnsæisskýrslum sem KPMG vinnur eftir á Íslandi og alþjóðlega.
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Jón S. Helgason, neitar að svara spurningum um hvernig það atvikaðist að KPMG hætti að vera endurskoðandi félagsins Samherja Holding ehf, sem heldur utan um erlenda starfsemi Samherja til að mynda í Namibíu, en vísar í umrædda gagnsæisskýrslu þar sem verkferlum KPMG er lýst. „Fyrir liggur að KPMG var um margra ára skeið endurskoðandi Samherja. Áður hefur einnig komið fram að KPMG er bundið trúnaði um málefni viðskiptavina sinna,“ segir Jón í svari til Stundarinnar um af hverju viðskiptasambandi KPMG og Samherja er lokið. Jón bætir við: „Upplýsingar um þá ferla sem KPMG starfar eftir má meðal annars finna í gagnsæisskýrslu KPMG. KPMG fylgir ákvæðum alþjóðlegra endurskoðunarstaðla (ISA) og staðals um gæði í endurskoðun (ISQC1) um reglulegt mat á viðskiptasamböndum.“
Jón hefur áður sagt við Stundina að Samherji hafi ákveðið að finna sér annan endurskoðanda en KPMG. Endurskoðandinn sem varð fyrir valinu er lítt þekkt fyrirtæki í Skútuvogi, BDO ehf.
Ekkert umburðarlyndi gagnvart spillingu
Jón vísar ekki til neinna atriða eða orða í umræddri gagnsæisskýrslu en meðal þess sem fram kemur í þessari skýrslu árið 2018 eru eftirfarandi orð. „Tekið er sérstaklega fram að KPMG hefur ekkert umburðarlyndi gagnvart mútum og spillingu. Við bönnum þátttöku í hvaða tegund af mútum sem er, jafnvel þó slíkt væri að einhverju leyti löglegt samkvæmt landslögum. Við höfum heldur ekki neitt umburðarlyndi hvað varðar mútur af hálfu þriðja aðila, þar á meðal viðskiptavina okkar, birgja eða opinberra aðila.“
„Við höfum heldur ekki neitt umburðarlyndi hvað varðar mútur af hálfu þriðja aðila“
Áhugavert er það sem þarna segir um að KPMG taki ekkert tillit til staðbundinna laga eða hátta sem kunni að heimila spillingu. Með þessu er átt við að engu skipti þó að mútugreiðslur séu kannski að einhverju leyti hluti af menningu viðkomandi ríkja eða landa; KPMG vilji ekki undir nokkrum kringumstæðum bendla sig við slíkt.
Nýjar upplýsingar geta leitt til „slita viðskiptasambands“
Samherjamálið í Namibíu er nú til rannsóknar þar í landi og á Íslandi og eru 13 einstaklingar með réttarstöðu sakborninga í löndunum tveimur, sjö í Namibíu og sex á Íslandi.
Namibíumennirnir sjö sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um mútuþægni og aðkomu að peningaþvætti; Íslendinganir, núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja, eru grunaðir um aðkomu að því að hafa greitt mútur til Namibíumannanna.
Aftur skal undirstrikað að Jón hjá KPMG vísar ekki til neinna sérstakra orða í skýrslunni sem hann vísar til og því er ekki hægt að fullyrða að KPMG hafi, með einum eða öðrum hætti, sett Samherja stólinn fyrir dyrnar á grundvelli þess að fyrirtækið hafi greitt mútur í Namibíu.
Umrædd orð er hins vegar að finna í verklagsreglum KPMG og Samherjafélagið hafði verið viðskiptavinur KPMG í þrettán ár áður en viðskiptasambandinu lauk nú í september eftir að sagt hafði verið frá Samherjamálinu í Kveik, Stundinni og Al Jazeera í samvinnu við Wikileaks í nóvember í fyrra.
Þá segir enn fremur í skýrslunni undir liðnum „slit viðskiptasambands“ að nýjar upplýsingar sem KPMG berst geti leitt til þess að KPMG segi upp sambandi við viðskiptavin: „Ef við fáum upplýsingar sem gefa til kynna að við ættum að segja okkur frá verkefni eða sambandi við viðskiptavin höfum við um það samráð innanhúss og greinum möguleg skref sem taka þarf samkvæmt lögum eða reglugerðum. Við höfum einnig samráð eftir því sem við á við stjórnendur viðskiptavinarins og önnur viðeigandi yfirvöld.“
Fyrir liggur að KPMG var endurskoðandi Samherja á því tímabili sem þær gjörðir sem nú eru til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi áttu sér stað og vann KPMG meðal annars fyrir Samherja í Namibíu. Af hverju KPMG er ekki lengur endurskoðandi Samherja liggur hins vegar ekki fyllilega fyrir.
Stundin hefur sent Björgólfi Jóhannssyni, öðrum forstjóra Samherja, ítrekaðar beiðnir um að svara því af hverju Samherji Holding skipti um endurskoðanda. Þessu hefur ekki verið svarað enn.
Athugasemdir