Forseti Namibíu, Hage Geingob, þakkaði forsætisráðherra Noregs, Ernu Solberg, fyrir stuðning norskra stjórnvalda við rannsókn Samherjamálsins í Namibíu. Geingob og Solberg ræddust við í síma á fimmtudaginn var, samkvæmt Facebook-síðu forsetaembættisins í Namibíu og fjölmiðlum þar í landi.
Samherjamálið í Namibíu gengur undir nafninu Fishrot á ensku og snýst rannsóknin um mútugreiðslur upp á vel á annan milljarð króna frá Samherja til ráðherra og viðskiptafélaga þeirrra í skiptum fyrir hestamakrílskvóta á árunum 2012 til 2019. Kveikur, Stundin og Al Jazeera sögðu frá málinu í fyrra á grundvelli gagna frá Wikileaks.
Sjö Namibíumenn sitja nú í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa þegið mútur frá Samherja auk fleiri brota. Tekið skal fram að engir núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Samherja hafa réttarstöðu sakborninga í namibísku rannsókninni. Sex núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja eru hins vegar með réttarstöðu sakborninga á Íslandi grunaðir um aðild að mútugreiðslum og peningaþvætti.
Samtalið á milli Geingobs og Solbergs sýnir að Samherjamálið og umræður um það eru ráðamönnum þessara þjóða ofarlega í huga þegar þeir ræða sín á milli enda standa yfir rannsóknir á málinu í báðum löndunum. Samherjmálið er stærsta spillingarmál sinnar tegundar sem komið hefur upp í Namibíu og málið er einnig stórt í Noregi þar sem ríkisbankinn DNB var notaður til að greiða hluta af mútugreiðslunum sem sjömenningarnir sitja í gæsluvarðhaldi fyrir að hafa þegið.
„Geingo forseti þakkaði ríkisstjórn Noregs fyrir samvinnu þess í rannsóknum á spillingu í fiskveiðiiðnaðnum í Namibíu“
Efni símtalsins var hins vegar ekki eingöngu Samherjamálið heldur ræddu þau Geingob og Solberg einnig önnur mál eins og sjálfbærni í framleiðslu sjávarafurða og fleiri mál.
Yfirvöld á Íslandi og Noregi aðstoða Namibíu
Yfirvöld á Íslandi, væntanlega embætti héraðssaksóknara ef marka má fjölmiðla í Namibíu, og í Noregi hafa veitt namibískum rannsóknaraðilum aðstoð við rannsókn málsins eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Ísland og Noregur tengjast rannsókn Samherjamálsins í Namibíu þannig að fyrirtækið sem sjömenningarnir sitja í gæsluvarðhaldi fyrir að hafa þegið mútur frá, Samherji, er íslenskt og bankareikningarnir sem að Samherji notaði til að greiða múturnar til Namibíumannanna eru í norskum banka sem að hluta til er í eigu norska ríkisins. Samherjamálið er einnig til rannsóknar í Noregi.
Orðrétt segir um samskipti Geingobs og Solbergs á Facebook-síðu forsetaembættisins: „Geingob forseti þakkaði ríkisstjórn Noregs fyrir samvinnu þess í rannsóknum á spillingu í fiskveiðiiðnaðnum í Namibíu. Eftir að málið kom upp [í nóvember í fyrra], greindi Geingob forseti forsætisráðherranum frá, hefur Namibía unnið að endurbótum á fiskveiðistjórnunarkerfi sínu til þess að takast á við þau vandamál og þá misnotkun á kerfinu sem átt hefði sér stað í gegnum tíðina.“
Fá lönd hjálpfús
Í namibíska fjölmiðlinum Neweralive er símtalið á milli Geingobs og Solberg sett í samhengi við það að fyrir viku síðan steig helsti rannsakandinn í Samherjamálinu í Namibíu, Andreas Kanyangela, og sagði frá því að afar erfiðlega hefði gengið að fá aðstoð við rannsókn málsins frá einstökum ríkjum. Af þeim níu ríkjum sem rannsóknin teygði sig til hefðu aðeins Noregur og Ísland verið samstarfsfús og reiðubúin að veita Namibíumönnunum aðstoð. Meðal þessara ríkja sem ekki hafa verið eins hjálpfús eru Angóla, Kýpur og Dubaí sem öll tengjast rannsókninni.
Andreas Kanyangela nefndi sérstaklega er að erfitt hefði verið að fá aðstoð frá Angóla en rannsókn Samherjamálsins tengdist því landi sterkum böndum vegna Namgomaviðskiptanna svokölluðu sem rannsökuð eru sem samsæri af namibískum yfirvöldum þar sem grunur er á að milliríkjasamningur hafi verið gerður á milli landanna í þeim eina tilgangi að tryggja Samherja hestamakrílskvóta.
Rannsóknarstofnunin ACC, sem sérhæfir sig í að rannsaka spillingu í Namibíu, hefur þar til 14. desember að ljúka rannsókn málsins. Ellegar er mögulegt að sjömenningunum verði sleppt úr gæsluvarðhaldi og að ACC þurfi að ljúka rannsókninni með sjömenninganna utan við fangelsismúrana.
Athugasemdir