Byltingar og barátta síðustu ára hafa varpað ljósi á nauðgunarmenningu víða um heim og á Íslandi, þar sem ofbeldi er talið óumflýjanlegt og gerendur ofbeldis axla ekki ábyrgð. Fjöldi brotaþola, einkum konur, hafa stigið fram, skilað skömminni og krafist samfélagslegra breytinga. Gerendur ganga hins vegar huldu höfði, í skjóli mýta sem viðheldur ofbeldismenningu. Til að uppræta ofbeldi er nauðsynlegt að skapa menningu þar sem gerendur ofbeldis geta og þurfa að taka ábyrgð á gjörðum sínum. En ábyrgð einstaklinga er ekki nóg því vísbendingar eru um að nauðgunarmýtur lifa einnig inni í réttarkerfinu okkar, sem hindra framgang réttvísinnar og því að þolendur ofbeldis upplifi réttlæti. Eftirfarandi umfjöllun byggir á viðtölum fyrir vefsjónvarps- og hljóðvarpsþátt sem birtir voru á vef Stundarinnar 23. október sl. undir nafninu „Nafnlausu skrímslin“.
Hvers konar fólk beitir ofbeldi?
„Yfirleitt og langoftast er þetta bara ég og þú-fólk. Bara ósköp venjulegt fólk,“ segir Andrés Ragnarsson, sálfræðingur hjá Heimilisfriði, sem vinnur með gerendur ofbeldis í nánum samböndum af öllum kynjum. Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktor í kynjafræði, sem hefur rannsakað nauðgunarmenningu, telur nauðsynlegt að við, sem samfélag, áttum okkur á því að gerendur ofbeldis standa okkur nærri: „Við þurfum að fara að horfast í augu við það að nauðgarar séu bara hérna, eða ap gerendur eru á meðal okkar.“ Gerendur muni síður gangast við gjörðum sínum á meðan þeim er stillt upp sem skrímslum, fjarri samfélaginu okkar. „Á meðan við erum með skrímslavæðingu þá vill enginn samsama sig því. Það stígur enginn fram og segir, heyrðu ég braut á einhverjum, þegar þú ert settur við hliðina á húsasundanauðgaranum með grímuna og hnífinn.“ Andrés tekur í sama streng og telur skrímslavæðingu á gerendum koma í veg fyrir að þeir leiti sér hjálpar og gangist við gjörðum sínum. „Það versta sem við gerum er að gera gerendur að einhverjum skrímslum, að skrímslavæða þá. Því þá erum við að taka frá séns á meðferð og skoðun og breytingum og þá eiga þessar konur og þessir karlar bara engan séns.“
„Batnandi mönnum er ekki best að lifa“
Í mars 2020 var birt viðtal í Stundinni við ungan mann sem fékk gervinafnið Breki en hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot og gekkst við því. Upplifði hann skrímslavæðingu á eigin skinni. „Ég er sami maður og maður les um í blöðunum sem „þvingaði hana, klæddi úr buxunum og dópaði“. Við erum allir á sama stalli.“ Þrátt fyrir að afleiðingar sem brotaþolar upplifa haldist ekki endilega í hendur við hversu gróft kynferðisofbeldið var, telja sérfræðingar að mikilvægt sé að gerendum sé kleift að taka ábyrgð. „Hvort er ég líklegri eða ólíklegri til að brjóta aftur af mér? Ég hlýt að vera líklegri ef ég er í einangrun frá samfélaginu,“ spurði Breki og ávarpaði þannig skrímslavæðinguna.
Finnborg Salome telur að það sé mikilvægt að „afstigmatisera gerendur“ og hún telur að það sé hægt „án þess að vera gerendameðvirk“. Hins vegar telur hún að það verði „samt örugglega mjög sársaukafullt ferli fyrir þolendur“. Hildur Fjóla Antonsdóttir, doktor í réttarfélagsfræði, segir að fyrir sumum brotaþolum sé jafnvel nauðsynlegt, fyrir þeirra andlegu heilsu, að líta svo á að gerandi þeirra sé skrímsli. En hún hafi auk þess heyrt frá þolendum að gerandinn sé ekkert skrímsli. „Ég hef heyrt frá þolendum að gerendur eru engin skrímsli, þetta eru venjulegir menn, þetta var bekkjarfélagi minn, pabbi minn, þetta var einhver nákominn mér. Þetta er ekki manneskja sem ég myndi álita sem skrímsli og undir öðrum kringumstæðum ekkert skrímsli.“
Réttlæti í hugum brotaþola
Doktorsrannsókn Hildar Fjólu beindist að réttlæti í hugum brotaþola sem hún segir að sé samsett úr nokkrum þáttum. Meðal annars að því að hafa rödd, vera trúað, finna stuðning og tilheyra. „Því oft þegar fólk segir frá kynferðisofbeldi, að þá eru ekki allir sem trúa. Þegar fólk trúir ekki þá upplifir fólk eins og það rofni einhver tengsl. Rofni einhver tengsl við einstaklinga, hópa og samfélagið.“ Í umræðu um ofbeldi, á samfélagsmiðlinum Karlmennskan, kom einnig fram að þolendur óskuðu þess að gerendur þeirra gangist við brotinu, taki ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna og breyti hegðun sinni til frambúðar. Að þessu leyti má segja að hugmyndir brotaþola um réttlæti samrýmist ákalli um afskrímslavæðingu á gerendum.
Lausnin felst í aukinni umræðu
Finnborg telur ekki nóg að varpa ábyrgðinni einungis á einstaklingana heldur þurfi víðtækari breytingar að eiga sér stað „til þess að vinna til dæmis gegn nauðgunarmenningu, þá er ekkert bara nóg að segja, hérna, karlar hættiði að nauðga, vissulega mun það hjálpa mjög mikið en það eru aðrir þættir sem spila þar inn í“. Vísar Finnborg þá meðal annars til þess hvernig nauðgunarmýtur lifa innan réttarkerfisins.
Hildur Fjóla og Andrés segja að málefnaleg umræða um ofbeldi og gerendur vinni gegn ofbeldismenningu og sé til þess fallið að gera gerendum kleift að breyta hegðun sinni. Andrés tekur fram að „við verðum að geta talað um þetta málefnalega og í umræðu þar sem við erum að búa til umræðu sem er bæði mild, sem er góð, sem er lausnamiðuð, sem gefur séns á breytingum og einhverju nýju“.
Hildur Fjóla telur að karlar, sem eru í meirihluta gerenda ofbeldis skv. tölum frá Stígamótum, Bjarkarhlíð og lögreglunni í Reykjavík, gegni lykilhlutverki í að uppræta ofbeldi. „Þar vill maður sjá meiri samtöl, eða semsagt, að karlar ræði saman og ræði málin og líti í eigin barm og séu óhræddir við að skoða eigin gjörðir.“ En til þess þurfi að skapa „menningu þar sem hægt er að reflectera á þetta, með vinum, félögum og svo framvegis. Það er það sem maður vill svolítið sjá, vegna þess að ég held að þannig búum við til einhvern kúltúr þar sem hægt er að taka ábyrgð á kynferðisofleldi.“
Ítarlega er farið í sama viðfangefni í nýjasta hljóðvarpsþætti Karlmennskunnar sem finna má undir Stundinni á Spotify og öðrum hljóðvarpsmiðlum. Þátturinn ber heitið: #4 Nafnlausu skrímslin.
Horfa á 4. þátt - Nafnlausu skrímslin
Hlusta á ítarlegri umfjöllun af þættinum Nafnlausu skrímslin
Athugasemdir