Fyrir örfáum dögum var ég á gangi á Laugaveginum eins og stundum bæði fyrr og síðar. Þetta var um hádegisbil í góðu veðri, sólin skein, það var kyrrt, milt og stillt eins og í stafsetningaræfingu í Melaskólanum fyrir fimmtíu árum. Margir voru líka að spóka sig á Laugaveginum og meira að segja slæðingur af ferðamönnum að líta í kringum sig.
Þá gekk ég fram á útigangsmann sem ég kannast við í sjón, enda við báðir tveir oft á ferðinni í miðbænum. Við erum ekki málkunnugir en ég hef yfirleitt kinkað til hans kolli og hann sömuleiðis til mín. Hann hefur ævinlega verið ljúfur bæði til orðs og æðis, hefur mér virst.
Í þetta sinn var hann illa fyrirkallaður, og svo drukkinn að hann hafði misst fótanna og sat upp við húsvegg og komst ekki á fætur aftur. Verra var þó að eitthvað hafði hlaupið í skapið á honum svo hann urraði og fnæsti á alla sem leið áttu framhjá, þar á meðal fáeina sem sem gerðu sig líklega til að aðstoða hann. Þeir hrukku frá undan furðuljótum svívirðingum og hreinum og beinum hótunum um líkamsmeiðingar og barsmíðar.
Mikill dónaskapur
Hann var náttúrlega ekki í neinu standi til að framkvæma þær hótanir og ég efast reyndar um að hann hefði nokkuð gert í því, þó hann hefði getað – mér hefur aldrei virst hann slíkur maður – en þetta var óskemmtilegt og óþægilegt á að hlýða. Ég ákvað að doka við í nágrenni við manninn ef hann skyldi nú allt í einu ná að rjúka á fætur og gerði sig líklegan til að fara í slag við einhvern.
Þá bar að löggu á mótorhjóli.
Þetta var dökkhærð kona og þegar hún steig af hjólinu gekk hún til karlsins og fór að reyna að róa hann. Hann tók henni vægast sagt illa, urraði æ grimmilegar og var með mikinn dónaskap.
Nú hefði löggan getað gert ýmislegt. Hún hefði getað sest aftur upp á hjólið sitt og ekið burt, enda ekkert hægt að gera fyrir svo illvígan karl. Hún hefði líka getað dröslað honum á lappir, handjárnað hann til öryggis, og kallað til félaga sína að flytja hann í fangaklefa, enda mála sannast að hann hafði lítið að gera á almannafæri í þessu ástandi.
Sú virðing sem hann átti skilið
Hún gerði samt hvorugt meðan ég sá til. Hún settist á hækjur sér hjá karlinum, spurði hvort hann vildi ekki slaka svolítið á og þótt hann brygðist illa við því, þá rótaði hún sér hvergi heldur sat sem fastast og fór að spjalla í rólegheitum við hann. Þegar ég sá síðast til var hún enn að masa við karl í mesta bróðerni og ég heyrði ekki betur en hann væri hættur að urra og hóta líkamsmeiðingum.
Þetta fannst mér fagmannlega og eiginlega fallega að verki staðið hjá löggunni. Kannski þurfti á endanum að færa karlinn í klefa til að sofa úr sér, ég veit það ekki, en löggan gaf sér alla vega tíma til að sinna karlinum af þeirri virðingu sem hann átti skilið sem manneskja – þótt í óþægilegri stöðu væri í augnablikinu – og ég hugsaði með mér að ég þyrfti að skrifa pistil um hvað götulöggurnar í Reykjavík væru upp til hópa mikið sómafólk.
Ég hef vissulega eins og aðrir séð í fréttum gegnum árin að frá því geta verið undantekningar en í þau skipti sem ég hef séð til lögreglunnar að starfi eða þurft sjálfur á þjónustu hennar að halda síðustu áratugi (vegna húsbrota á heimili mínu, samskipta á mótmælafundum og þess háttar), þá hefur löggan undantekningarlaust leyst það vel af hendi.
Rasistamerki
Og þolinmæðin og virðingin sem dökkhærða mótorhjólalöggan sýndi úrilla útigangsmanninum fannst mér alveg fyrirtaksdæmi um það. Já, ég ákvað að skrifa pistil um þetta í Stundina, um sómafólkið í lögreglunni.
Það var því nokkurt áfall þegar ég sá á netinu í fyrradag að lögga hefði verið staðin að því að skreyta sig ofbeldis- og rasistamerkjum, þótt hún þættist svo ekkert hafa vitað hvað fánamerkin þýddu. Það er engin ástæða til að trúa því, svo þar með hefur sú hin sama lögga bitið hausinn af skömm sinni með aumum undanbrögðum og útúrsnúningum.
Hitt kom líka fram hjá henni að margir lögreglumenn skreyti sig þvíumlíkum merkjum, enda viðurkenndi dolfallinn og miður sín varðstjóri það í sjónvarpsfréttunum um kvöldið.
Ofbeldisómenning
Það hvarflaði að mér hvort þetta væri sama löggan og ég hafði örfáum dægrum áður séð hlúa svo fallega að útigangsmanninum. Ég held ekki, en það er samt eitthvað óþægilegt við að í þeirri sömu lögreglu og kann að fara vel að útigangsmanni sé fólk líka að skreyta sig hinum hrottalegustu ofbeldismerkjum (því það eru þessi merki) – og kann svo ekki að skammast sín fyrir það.
Ég mun áfram treysta almennu lögreglunni og hér er vissulega kominn pistillinn sem ég ætlaði að skrifa, en það hryggir mig að þurfa að hafa þennan endapunkt. Við höfum fyrir augunum erlendis frá sorgleg dæmi um í hvaða bönker ofbeldisómenning og rasismi í lögreglunni geta leitt og í guðs bænum, lögreglumenn, upprætið slíkt í huga ykkar áður en ræturnar verða of djúpar.
Athugasemdir