
Það var hlegið að kónginum unga fyrir það hvernig hann dó. Árið 1920 var vissulega farið að slá ansi mikið á ímynd kónga í vitund almennings í Evrópu; þeir voru ekki lengur taldir hálfguðir, eins og þegar verst lét á fyrri öldum, heldur bara misvitrar manneskjur, en alvöru kóngur átti nú samt ekki að falla í valinn fyrir örlitlum apaketti.
Ef hann Alexander kóngur hefði verið bitinn í bardaga við tígrisdýr, það hefði verið mannsbragur að því, eða honum varpað af baki fnæsandi stóðhests, já, það hefði verið konunglegur dauðdagi, en að veslast upp í blóðeitrun af því smáapi beit konung í lærið, það var eiginlega ekki hægt annað en hlæja að því.
Og var ekki Grikkjum bara mátulegt að svona færi fyrir honum, úr því hann var ekki meiri bógur en þetta?

En sannleikurinn er sá að andlát Alexanders Grikkjakonungs í lok október fyrir einni öld reyndist ekkert aðhlátursefni. Apabitið og dauði konungsins hafði mikil og óvænt áhrif á mannkynssöguna og ekki minni maður en Winston Churchill lét svo um mælt að sennilega hefði í rauninni ekki minna en kvartmilljón manna dáið af þessu apabiti.
„Veiki kallinn í Evrópu“
Til að skýra það er nauðsynlegt að rifja upp samskipti Tyrklands og Grikklands í upphafi 20. aldar.
Sú var tíð að Tyrkland Ottómanættarinnar var risaveldi og réði öllum Balkanskaga, þar á meðal hinu forna veldi Grikkja.
(Hér er reyndar upplesin grein um upphaf og hátind Ottómanaveldis.)
Í byrjun 19. aldar fór hins vegar að halla undan fæti hjá Tyrkjum. Árið 1828 viðurkenndu stórveldi Evrópu sjálfstæði Grikklands og næstu 90 árin kvarnaðist æ meira úr hnignandi veldi Ottómana, sem gjarnan var kallað um þær mundir „veiki kallinn í Evrópu“. Eftir stríð við nágrannalöndin 1912–13 héldu Tyrkir bara eftir svolítilli spildu í Evrópu og Grikkir voru farnir að líta höfuðborg þeirra Konstantínópel hýru auga.
Tyrkir fara halloka
Borgin hafði fyrir 1453 verið höfuðborg grísk-rómverska ríkisins, eða Býsans, sem var mikið veldi á sinni tíð. Tyrkir máttu ekki til þess hugsa að missa Konstantínópel og hugðust snúa við ólukku sinni með því að ganga í lið með miðveldunum, Þjóðverjum og Austurríkismönnum, í fyrri heimsstyrjöld sem braust úr 1914 en það gerði bara illt vera.
Miðveldin fóru halloka og 1918 gáfust Tyrkir upp enda var ríkinu þá að blæða út. Vesturveldin sem voru sigurvegarar í stríðinu áttu alls konar við Tyrki sem urðu að þola þá niðurlægingu að breskt setulið kom sér fyrir í Konstantínópel.
Ég hef þegar í þessari greinaröð fjallað um hvernig Vesturveldin skipuðu málum í Miðausturlöndum vorið 1920 en þar höfðu Tyrkir líka ráðið. (Hér er sú grein.) En nú höfðu Tyrkir verið sviptir öllum sínum löndum utan hinnar fornu Litlu-Asíu sem nú var löngu farið að kalla Tyrkland.
Og þá var spurningin hvað yrði um það.
Grikkir neyta færis
Grikkir höfðu ekki beðið boðanna í stríðslok heldur neyttu færis þegar Tyrkir voru úr heimi heillir vorið 1919 og lentu með her sinn við tyrknesku borgina Izmir við Eyjahafið. Þar hafði heitið Smyrna á dögum Forn-Grikkja og Býsansmanna og Grikkir fóru ekki í felur með að þeir vildu endurheimta alla strönd Eyjahafsins Tyrklandsmegin. Vesturveldin höfðu reyndar lofað þeim stuðningi við þau áform. Þegar kom fram á sumarið 1920 var loks að ljúka erfiðum friðarviðræðum Tyrkja við Vesturveldin Breta, Frakka og Ítali og skrifað var undir samning í postulínsbænum Sèvres í útjaðri Parísar 10. ágúst.
Erfiðar voru þær viðræður fyrst og fremst fyrir Tyrki vegna þess að Vesturveldin nýttu yfirburði sína til að setja Tyrkjum afar stranga skilmála.
Limlesting Tyrklands
Í raun má segja að Sèvres-samningurinn hafi gert ráð fyrir algerri limlestingu Tyrklands. Í austri átti sjálfstæð Armenía að fá stór svæði frá Tyrklandi, enda hefðu þau tilheyrt Armenum frá fornu fari, og óformlega var gert var ráð fyrir myndun ríkis Kúrda þar fyrir sunnan. Bæði Ítalía og Frakkland áttu að fá stór „áhrifasvæði“ í suðurhluta Tyrklands og alveg óvíst hvort þau yrðu nokkru sinni afhent Tyrkjum að nýju.
Grikkir áttu svo að fá allstórt svæði kringum og upp af Smyrnu sem þeir höfðu þegar náð. Konstantínópel og allt svæðið kringum Hellusund, Marmarahaf og Bospórus átti að vera einhvers konar alþjóðlegt verndarsvæði.
Grikkir og stuðningsmenn þeirra ætluðust til þess að þeim yrði í fyllingu tímans afhent þetta „alþjóðlega“ svæði og það er raunar líklegt að svo hefði farið að óbreyttu.
Fámennt smáríki í framtíðinni?
En eftir samninginn í Sèvres var hið nýja „Tyrkland“ aðeins hluti af Svartshafsströndinni og frekar hrjóstrugt svæði þar upp af og inni í miðju landi. Ekki bætti úr skák fyrir Tyrkjum að þetta sama sumar 1920 höfðu Grikkir hafið nýja sókn upp frá Izmir eða Smyrnu og tekið heilmikil svæði til viðbótar frá hart leiknum Tyrkjum.
Allt leit þetta því bráðvel út fyrir Grikki, en Tyrkland yrði vart annað en fátækt og fámennt og rykblásið smáríki í náinni framtíð.
En þá greip apinn inn í.

Hinn 27 ára gamli Alexander Grikkjakóngur var á gangi í garði sumarhallar sinnar í Aþenu þann 5. október 1920 þegar hundar hans réðust á apakött, einn nokkurra makakí-apa sem höfðu verið fluttir inn frá Gíbraltar til að vera upp á punt í hallargarðinum.
Kóngur lyftir staf sínum
Nú þjörmuðu hundar konungs illilega að apakettinum, með hinn illvíga Fritz í broddi fylkingar, en Alexander kom þá aðvífandi, hóf upp staf sinn og hugðist láta hann dynja á Fritz og félögum svo þeir bitu ekki apagreyið til bana. En þá stökk fram annar apaköttur og hélt bersýnilega að kóngur ætlaði að hjálpa hundunum, ekki stöðva þá.
Og hann hentist til varnar félaga sínum, stökk á læri kóngs og beit hann fast.
Þjónar kóngsins komu nú hlaupandi og ráku apana báða í burtu. Sár konungs var ekkert stóralvarlegt en fljótlega hljóp í það roði og síðan bólga og brátt blússandi blóðeitrun. Fyrir daga pensillíns var fátt hægt að gera og brátt varð ljóst að eitrunin var að ganga af kóngi dauðum.
Og um allan heim fylgdist fólk dolfallið og sumt fullt hæðni með því hvort kóngurinn í Aþenu myndi ekki lifa af bit apakattar!
(Hér er grein sem ég skrifaði fyrir mörgum árum um þetta mál frá sjónarhóli apans.)
Dönsk konungsætt í Grikklandi
Hver var Alexander? Ja, Grikkir höfðu sótt sér konung til Danmerkur árið 1863. Það ár varð Kristján 9. kóngur yfir Danmörku og Íslandi en Georg, næstelsti sonur hans, var samtímis dubbaður til hásætis í Aþenu. Hásætið var autt eftir að Grikkir ráku af höndum sér þýskættaðan kóng, misheppnaðan.
Konstanín, sonur Georgs, tók svo við konungdómi 1913. Hann var vart kominn í hásætið þegar braust út stríð milli Grikkja og nágranna þeirra í Búlgaríu.
Konstantín stýrði sjálfur grískum herjum til góðra sigra og landvinninga. Hann var útnefndur marskálkur og naut gríðarlegra vinsælda.
Deilur kóngs og forsætisráðherra
Þá var annars mestur valdamaður í gríski pólitík Eleftherios nokkur Venizelos sem var oft forsætisráðherra þessi árin og dyggur stuðningsmaður þess allt frá 1914 að Grikkir tækju sér stöðu með Vesturveldunum í heimsstyrjöldinni.
Konstantín var hins vegar hallur undir Þjóðverja og deildu þeir Venizelos hart og opinskátt um þetta mál árum saman. Valdmörk konungs og forsætisráðherra voru ekki í alla staði ljós og því skipti missætti þeirra miklu máli.
Árið 1917 neyddu Vesturveldin Konstantín til að segja af sér og völdu Alexander, næstelsta son hans, sem arftaka á konungsstóli. Páll eldri bróðir Alexanders var talinn of hallur undir Þjóðverja.
Flinkur vélvirki
Alexander var ekki mikil mannvitsbrekka þótt hann væri víst mjög flinkur vélvirki, og hann hafði lítinn áhuga á pólitík og engan á hernaði. Venizelos réði þess vegna því sem hann vildi ráða og þegar kom fram á haust 1920 var allt útlit fyrir að vænkaðist heldur betur hagur Grikkja í sókn þeirra bæði hernaðarlega og pólitískt gegn Tyrkjum.
Það helsta sem sumir Grikkir höfðu áhyggjur af var hvort Aþena eða Konstantínópel ætti að vera höfuðborg hins nýja Býsansríkis sem þeir sáu í hillingum, og var reyndar bara mjög raunhæfur möguleiki eftir að Tyrkir höfðu verið píndir til að samþykkja friðarsamninginn í Sèvres.
Ekki hlátur í hug
En þann 25. október dó Alexander konungur, að velli lagður af blóðeitrun út af apabiti.
Og þótt menn hefðu þetta í flimtingum utanlands var Grikkjum ekki hlátur í hug.
Svo vildi til að þann sama dag höfðu átt að fara fram þingkosningar.
Þeim var hins vegar frestað til 14. nóvember þegar ljóst varð að lífi Alexanders yrði ekki bjargað. Þótt Venizelos forsætisráðherra hafi vissulega verið umdeildur bjuggust fáir við öðru en að hann héldi völdum, enda var hann maðurinn sem hafði frelsað Grikkina í Smyrnu undan harðstjórn Tyrkja, eins og það var orðað.
Og vinátta Venizelosar við Vesturveldin var talin tryggja stuðning þeirra við Grikki í stríðinu við Tyrki og að Grikkir fengju bæði Konstantínópel og sennilega góðan hlut af áhrifasvæði Ítala að lokum líka.
Mjög óvæntur ósigur Venizelosar
En nú skipuðust veður hins vegar hratt.

Andstæðingar Venizelosar höfðuðu nú mjög til stríðsþreytu alþýðufólks og hétu því hátíðlega að hætta frekari stríðsrekstri gegn Tyrkjum. Undir leiðsögn Gounaris nokkurs lofuðu þeir að kalla til Konstantín fyrrum konung, marskálkinn vinsæla úr stríðinu við Búlgari, og setja hann í hásætið að nýju í stað hins apabitna sonar.
Konstantín, sögðu þeir glaðhlakkalegir, hefur einn manna næga vigt til að ljúka stríðinu en halda þó því sem unnist hefur.
Skemmst er frá því að segja að í kosningunum unnu fjendur Venizelosar mjög óvæntan sigur. Ástæðan var án nokkurs vafa loforð Gounaris um að setja Konstantín aftur í hásætið og kalla hermennina heim.
Nýr Alexander mikli?
Og Venizelos hvarf frá völdum og fór í útlegð. Í þjóðaratkvæðagreiðslu lýstu 98 prósent Grikkja yfir vilja til að Konstantín settist aftur í hásætið og Vesturlöndin urðu að fallast á það, þótt sárgröm væru í garð Gounaris og Konstantíns.
Nú má fara fljótt yfir sögu.
Ætla má að ef Venizelos hefði setið áfram að völdum hefði hann haldið í horfinu í stríðinu við Tyrki en ekki lagt út í nein frekari ævintýri. Hann hefði bara beðið rólegur með stuðningi Vesturveldanna eftir því að Tyrkir sættu sig við orðinn hlut, sem þeir voru raunar þegar búnir að fallast á í Sèvres; það er að segja missi Smyrnu/Izmir.
Og Venzelos hefði næstum áreiðanlega fengið Konstantínópel í viðbót. Grikkland hefði orðið öflugt ríki á mótum Evrópu og Asíu, og haft tangarhald á innsiglingunni í Svartahaf.
Og Eyjahafið hefði aftur orðið grískt innhaf.
En nú endaði allt með ósköpum frá sjónarhóli Grikkja.
Valdablokkin kringum Konstantín gekk algjörlega á bak þeirra orða sinna að hætta stríðsrekstri. Þvert á móti var hafin ný sókn langt inn í Tyrkland þegar kom fram á árið 1921. Þetta var gert í óþökk Vesturveldanna, en ástæðan fyrir þessari sókn virðist ekki hafa verið mikið flóknari en sú að Konstantín ímyndaði sér að hann væri nýr Alexander mikli.
Allt Tyrkland myndi hrynja undan sókn hans!
Grikkir gætu hirt þær leifar sem þeim sýndust.
Fljótfær klunni
Gounaris forsætisráðherra lét kónginn ráða. Því var sótt í áttina að nýju tyrknesku höfuðborginni Ankara þar sem engir Grikkir bjuggu og engin réttlæting var fyrir grískum landvinningum, ólíkt svæðinu kringum Izmir/Smyrnu þar sem vissulega bjó fjöldi Grikkja.
Tyrkir fylltust eldmóði við þennan ósvífna atgang Grikkja og nýr foringi þeirra, herforinginn Kemal Atatürk, þjappaði þeim saman og gersigraði Grikki í markvissri sókn sem hófst sumarið 1922.
Vígstaða Grikkja hrundi þá á skammri stundu.
Konstantín var þá enginn Alexander mikli, heldur bara fljótfær klunni við herstjórnina og dómgreindarleysi hans og manna hans kostaði fjölda mannslífa, já, eflaust miklu fleiri en Churchill reiknaði með.
Grimmdarverk í Izmir
Vesturveldin vildu nú ekki veita Grikkjum neitt lið, fyrst þeir höfðu ekki viljað haga sér, og á nokkrum misserum gerðist hið nýja Tyrkland Atatürks svo öflugt að samningurinn frá Sèvres varð ónýtt plagg.
Grikkir voru reknir út í sjó við Izmir í september 1922 og mikil grimmdarverk unnin á grískum íbúum þar. Grikkir reiddust svo þessari hörmulegu niðurstöðu að herforingjar rændu undireins völdum í Aþenu, létu skjóta Gounaris og fimm aðra sem svikara og landráðamenn og reka Konstantín kóng öfugan í útlegð, þar sem hann drapst fljótlega.
En gjört var gjört.
Nafni breytt
Armenar og Kúrdar voru svo yfirgefnir eins og alltaf, áhrifasvæði Ítala og Frakka fengin Tyrkjum og 1923 létu Vesturveldin Tyrki fá Konstantínópel að nýju.
Loks sneru Tyrkir svo hnífnum í sári Grikkja með því að tilkynna að þaðan í frá yrði alveg lagt af hið grískættaða nafn borgarinnar, Kostantiniyye, en tekið upp formlega hið tyrkneska „gælunafn“ borgarinnar, İstanbul.
***
Athugasemdir