Ísland mælist með mesta jafnrétti í heiminum, samkvæmt alþjóðlegum samanburði World Economic Forum, þrátt fyrir að hér ríki íhaldssöm viðhorf sem hindra jafnrétti. Reglulega hefur verið bent á íhaldssamar hugmyndir um karlmennsku, bæði sem karlar (og konur) halda á lofti en líka hugmyndir sem menn reyna að berjast gegn. Ein tegund karlmennsku tengist foreldrahlutverkinu og þá oft í formi þess að vinna lengi og skaffa vel sem fyrirvinnan og sjá þannig farborða fyrir fjölskyldunni. Sú íhaldssama hugmynd sem styður þess háttar karlmennsku er síðan orðræðan um foreldrahlutverkið. Sunna Símonardóttir og Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir hafa rannsakað orðræðu um foreldra og varpað ljósi á hversu íhaldssöm hún er. Íhaldssamur vinnumarkaður, með löngum vinnudegi og kynbundnum launamuni, hefur verið viðfangsefni BSRB sem talað hefur fyrir styttingu vinnuvikunnar og styður meðal annars drög að frumvarpi með breytingum á fæðingarorlofslögum, þar sem eyrnamerktur réttur feðra verði 6 mánuðir. Sitt sýnist hverjum um það frumvarp en Sunna, Rannveig og Magnús Már, framkvæmdastjóri BSRB, voru til viðtals í þriðja þætti vefsjónvarps- og hljóðvarpsþátta Karlmennskunnar sem birtir voru á vef Stundarinnar.
Konur eru meira en mjólkurútibú
Sunna Símonardóttir, aðjúnkt og nýdoktor í félagsfræði við Háskóla Íslands, telur að brjóstagjöf sé notuð sem réttlæting fyrir hefðbundnum kynhlutverkum, meðal annars þeim að karlar sinni fyrirvinnuhlutverkinu og konur sinni börnum og heimili. Jafnt fæðingarorlof beggja foreldra er sagt mikilvægt til að brjóta upp hefðbundin kynhlutverk og kynbundinn vinnumarkað, og Sunna segir að rannsóknir erlendis frá sýni að þar sem fæðingarorlofi er deilt jafnt, skerðist brjóstagjöf móður ekki á móti. „Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að ítreka að konur eru meira en mjólkurútibú. Það eru ekki allar konur sem geta eða vilja vera með börn sín á brjósti.“ Eðlishyggju sé oft haldið á lofti og sér í lagi þegar kemur að móðurhlutverkinu. Það birtist meðal annars í doktorsrannsókn Sunnu sem beindist að upplýsinga- og fræðsluefni á vefnum, sem er búið til af heilbrigðisstarfsfólki og er ætlað verðandi foreldrum og nýbökuðum foreldrum. „Mæður eru skilgreindar sem þessi svona vettvangur ástar, umhyggju, hlýju, næringar, samveru [...] Faðrinn aftur á móti, er skilgreindur þannig að hann er mikilvægur, en hans hlutverk er bara í raun og veru mikilvægt þegar kemur að því að aðstoða móðurina við að uppfylla sitt líffræðilega hlutverk.“ Sérfræðingsorðræðan um foreldrahlutverkið einskorðist þannig við móðurina og feður verði þar af leiðandi útundan. „Og við gerum að sama skapi ekki þessar ofsalegu kröfur á hann, sem við gerum til móðurinnar. Að bara elska allt sem viðkemur þessu hlutverki, að fagna öllu og vilja aldrei komast í burtu.“
Mikilvægt að karlar taki ábyrgð
Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, segir bandalagið hafa lagt þunga á styttingu vinnuvikunnar og jafnt fæðingarorlof. „Það að konur eru að taka miklu meira fæðingarorlof heldur en karlar, þá eru þær lengur frá vinnumarkaði og þá vinna þær sér inn minni réttindi til eftirlauna og svo framvegis. En það er líka bara varðandi framgang í starfi og framgangur í starfi hefur áhrif á launin þín.“ Magnús telur þannig að foreldrahlutverkið og íhaldssöm kynhlutverk geti hindrað framgang jafnréttis meðal annars af því að þær sinni frekar hlutastörfum heldur en karlar. „Það er af því að þær eru að sinna einhverjum umframverkefnum, sem þá karlarnir eða pabbarnir eru ekki að sinna.“ Með styttingu vinnuvikunnar og lengdu fæðingarorlofi feðra geti margt áunnist. „Þetta tengist allt, með því að virkja pabbana strax frá fæðingu barns. Það er held ég það sem pabbar almennt árið 2020 vilja gera.“
Togstreita í sjálfsmynd feðra
Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, kynjafræðingur og doktorsnemi við menntavísindasvið Háskóla Íslands, rannsakar orðræðu í fjölmiðlum um feður. „Hún birtist í andstæðupörum, það er annaðhvort, þú ert annaðhvort fjarverandi eða nærverandi faðir. Þú ert annaðhvort jafnréttissinnaður eða karlremba. Þú ert annaðhvort, góður faðir eða slæmur faðir.“ Rannveig telur fæsta samsama sig öðru hvoru hlutverkinu alltaf, heldur samsami fólk sig oftast mitt á milli og því geti myndast togstreita í sjálfsmyndinni. Þannig geti svart-hvít orðræða verið skaðleg. Rannveig tengir þessa svart-hvítu ímynd, út frá orðræðunni, við það hversu áberandi forsjárdeilur eru í umfjöllun fjölmiðla um feður. „Þar verða fjölmiðlar einhvers konar réttarsalur, almennur réttarsalur, þar sem foreldrar og feður oft, þurfa að vera að sanna sakleysi sitt.“ Í forsjármálunum birtast einnig andstæðupörin, annaðhvort ertu saklaus eða sekur. „Annaðhvort ertu slæmur faðir og ofbeldismaður og skrímsli eða [...] góður faðir, og andstæðuparið á móti því er þá einhvers konar tálmunarmóðir, sem er þá hið raunverulega skrímsli, og faðirinn þá fórnarlambið.“ Telur hún fjölmiðla og samfélagsmiðla bera töluverða ábyrgð á þessari svart-hvítu ímynd vegna keppni um athygli, tíma og klikk. Rannveig er einnig að rannsaka feður sem beitt hafa ofbeldi og segir að „þessum feðrum langar, langoftast, að vera í góðum samskiptum við börnin sín og upplifa sig oft og tíðum sem góða feður“ og veltir því fyrir sér hvernig við sem samfélag ætlum að taka á því.
„Mögulega erum við bara ekki enn þá búin að átta okkur hreinlega á því að fjölskyldur geti verið öðruvísi“
Gagnkynhneigt forræði í orðræðu um foreldra
Ekki virðast allir feður geta verið góðir feður, samkvæmt greiningu Rannveigar á orðræðu fjölmiðlanna. „Orðræðan í fjölmiðlum er rosalega heterónormatív. Þeir feður sem eru að birtast eru hvítir, gagnkynhneigðir, ófatlaðir og í flestum tilfellum sískynja millistéttarmenn. Ótrúlega áhugavert út frá því, að það er svo margt sem er ekki sagt, og það eru svo margir feður sem eru ekki greinilega hluti af þessum hóp, góðir feður.“ Einsleitar hugmyndir um foreldra birtist einnig í rannsókn Sunnu á orðræðu í upplýsinga- og fræðsluefni fyrir verðandi og nýbakaða foreldra. Þar er ekkert minnst á öðruvísi pör en karl, konu og barn. „Samkvæmt minni greiningu sem ég gerði á þessu fræðsluefni, þá er hreinlega ekki talað um slík sambönd. Þessi fræðsla ber öll merki um þetta svona gagnkynhneigða forræði, það er bara kjarnafjölskyldan, kona, maður og barn. Þannig að það er svona ákveðin þöggun um öðruvísi fjölskylduform.“ Telur Sunna það ekki endilega vera meðvitað, „mögulega erum við bara ekki enn þá búin að átta okkur hreinlega á því að fjölskyldur geti verið öðruvísi.“
Besta leiðin til að beita sér fyrir jafnrétti
Jafnvel pör sem eru jafnréttissinnuð falla í hefðbundin kynhlutverkamynstur þegar barn kemur til sögunnar og telja viðmælendur það hægt að rekja til þess skipulags sem ríkir á vinnumarkaði, fæðingarorlofslögum og orðræðunni um foreldra. Þetta vinni saman að því að hindra framgang jafnréttis í reynd. Telur Sunna að foreldrahlutverkið sé ein besta leiðin til að beita sér fyrir jafnrétti. Foreldrar „gera það með því að ákveða strax frá upphafi að þetta sé eitthvert verkefni, það er að segja að hugsa um og annast um þetta barn sem parið ætlar að deila með sem jöfnustum hætti [...] þetta mun líka, held ég, hafa áhrif á viðhorf barnsins ykkar til jafnréttis, að sjá pabba gera allt sem mamma gerir og öfugt.“
Rannveig telur mikilvægt að við séum gagnrýnin á umhverfið sem við erum mótuð í og hluti af þótt ekki sé raunhæft að breyta því „einn, tveir og bingó“, heldur sé nauðsynlegt að rýna í rótgróin viðhorf og hugmyndir sem hafa jafnvel orðið hluti af sjálfsmynd okkar. Þá bindur Magnús vonir við að frumvarpsdrög að endurskoðuðum lögum um fæðingarorlof nái fram að ganga því í dag sé „umhverfið „hostile“ og hvetur í rauninni ekki til þess að fólk taki ákvarðanir um það hvað væri best út frá barninu og samfélaginu til lengri tíma.
Ítarlega er farið í sama viðfangefni í nýjasta hljóðvarpsþætti Kalrmennskunnar sem finna má undir Stundinni, á Spotify og öðrum hljóðvarpsmiðlum. Þátturinn ber heitið: #3 Feður og jafnrétti.
Athugasemdir