Útlendingastofnun hefur í yfirlýsingu sinni frá í gær afhjúpað hversu hroðvirknislega stofnunin stendur að mati á hagsmunum barna á flótta.
10 ára stúlka kemur til viðtals hjá Útlendingastofnun. Fyrir liggur að stúlkan er frá landi þar sem kynfæralimlestingar eru hvað algengastar í veröldinni. Um það vitna fjöldamargar alþjóðlegar skýrslur og hafði Útlendingastofnun sjálf í eldri ákvörðun annarrar fjölskyldu fjallað ítarlega um kynfæralimlestingar í Egyptalandi.
Útlendingastofnun, sem ber lagaleg skylda til að framkvæma sjálfstætt mat hagsmunum stúlkunnar á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalaga og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, spyr stúlkuna ekkert um þetta atriði og víkur ekki einu orði að því í ákvörðun sinni. Eftir sem áður synjar stofnunin stúlkunni um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vísar henni aftur til Egyptalands.
En skýringar stofnunarinnar eru komnar fram í yfirlýsingu sem birtist á vef stofnunarinnar í gær (22.9.2020). Það er ekki við Útlendingastofnun að sakast. Stúlkan nefndi þetta ekki sjálf!
Dæmi nú hver fyrir sig hvort verklag og framganga af þessu tagi hjá Útlendingastofnun sé til þess fallin að stuðla að sjálfstæðu og heildstæðu mati á hagsmunum barna þannig að teknar séu ákvarðanir sem eru börnum fyrir bestu.
Það er ákaflega sorglegt að stofnun, sem í daglegum störfum sínum sýslar með hagsmuni barna á flótta, skuli haga sér með þessum hætti. Ég skora á Barnaheill, umboðsmann barna, UNICEF á Íslandi og aðra málsmetandi aðila og samtök að láta í sér heyra.
Athugasemdir