Varnir Þorsteins Más Baldvinssonar og Samherja í opinberri umræðu um Seðlabankamálið svokallaða hafa að stóru leyti snúist um að tala um fisktegundina karfa og rangar ályktanir og umfjöllun um sölu útgerðarinnar á þessari tegund. Svo áberandi hefur þetta tal um karfa verið að einn blaðamaður hefur búið til nýyrðið „karfatuð“ til að lýsa því.
Tal Þorsteins Más um karfann gengur í stuttu máli út á það að upphaf rannsóknarinnar á gjaldeyrisskilum Samherja árið 2012 megi alfarið rekja til umfjöllunar Kastljóss um viðskipti félagsins með karfa frá Íslandi og gögn sem blaðamaður RÚV hafi komið til bankans. Þessi umfjöllun hafi ekki átt við rök að styðjast og að þar af leiðandi hafi öll rannsóknin á gjaldeyrisskilum félagsins verið byggð á sandi.
Á bak við þessa karfaumræðu liggur sú kenning Þorsteins Más að Seðlabankamálið eigi rætur sínar að rekja til samsæris á milli Seðlabankans og Ríkisútvarpsins. Hann hefur sagt að skjallegar heimildir um að rannsóknin á gjaldeyrisskilum hafi hafist fyrir árið 2012 og hafi upphaflega ekki snúist um sölu á karfa séu „eftiráskýringar“ af því þetta rímar ekki við karfakenningu hans. Þorsteinn Már hefur ítrekað lýst yfir furðu sinni á því að Seðlabankamálið hafi verið byggt upp á gögnum um karfaviðskipti félagsins því honum þótti þetta smávægilegt.
„Ég er ekki að tala neitt um karfa“
Seðlabankinn er ekki að tala um karfa
Í aðalmeðferð skaðabótamáls Samherja gegn Seðlabanka Íslands í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag reyndi lögmaður Seðlabankans, Jóhannes Karl Sveinsson, að ná utan um helsta inntak rannsóknar Seðlabankans þegar hann spurði Þorstein Má út í rannsókn málsins.
Þegar rannsókn Seðlabankans á málinu fór fram, árin 2012 til 2015, var Samherji líka að reyna að átta sig á því um hvað nákvæmlega rannsókn bankans á útgerðinni snerist. Þetta sagði Þorsteinn Már fyrir dómi í dag. Meðal annars út af þessu réði Samherji afbrotafræðinginn Jón Óttar Ólafsson til að kortleggja þetta og eftir atvikum að komast að því hvort og þá hvað hafi misfarist í rekstrinum til að hægt væri að bæta úr því.
Ástæðan fyrir því að Þorsteini Má hefur verið sú umhugað um að halda þeirri söguskýringu á lofti að Seðlabankamálið hafi snúist um viðskipti með karfa er líklega sú að það sem var undir í rannsókninni var miklu stærra mál. Gögnin um karfaviðskiptin voru pappírar sem bentu til að Samherji stundaði milliverðlagningu frá Íslandi en tilgáta Seðlabankans um meint brot á gjaldeyrislögunum var stærri en þetta.
Á einu augnabliki í samskiptum Þorsteins Más og Jóhannesar Karls í dag sagði lögmaðurinn, eftir að Þorsteinn Már hafði enn og aftur byrjað að tala um karfa þegar rætt var um Afíkuveiðar og Kýpur: „Ég er ekki að tala neitt um karfa“. Þetta kemur fram í grein Kjarnans.
Átti allur gjaldeyririnn að fara til Íslands?
Þorsteinn Már veit líklega að rannsókn Seðlabankans snerist um annað og meira en viðskpti með karfa þó svo gögnin frá verðlagsstofu skiptaverðs um karfaviðskipti félagsins hafi átt þátt í að leiða til húsleitarinnar hjá félaginu árið 2012. Stærsta atriðið í rannsókn Samherja snerist um veiði og sölu á fiski í Afríku en Samherji rak stóra útgerð þar á árunum 2007 til 2013, Kötlu Seafood.
Í húsleitarheimildinni frá árið 2012 sagði meðal annars að Seðlabankinn teldi líklegt að frekari rannsókn málsins myndi sýna fram á að erlendum dótturfélögum Samherja, meðal annars eignarhaldsfélög og sölufyrirtæki á Kýpur væri stýrt frá Íslandi en ekki viðkomandi löndum og að gjaldeyririnn sem yrði til í starfseminni ætti því að skila sér allur til Íslands samkvæmt reglunum um gjaldeyrismál sem settar voru eftir hrunið árð 2008. „Að mati Seðlabanka Íslands er óumflýjanlegt að rannska ítarlega hversu umfangsmikil meint brot eru. Jafnframt leikur grunur á um að annars vegar að raunveruleg framkvæmdastjórn hinna erlendu félaga, Icefresh GmBh, og Seagold Ltd., sé á Íslandi og hins vegar að þau félög, sem beiðni þessi lýtur að, séu starfrækt sem ein heild.“
Þegar talið barst að Afríkuveiðum Samherja og sölu fyrirtækisins á þessum fiski í gegnum Kýpur komst hiti í leikinn og Þorsteinn Már Baldvinsson snöggreiddist, samkvæmt frásögn RÚV, og barði í borðið sem hann sat við í dómssalnum.
Jóhannes Karl sagði meðal annars að fyrirtæki Samherja á Kýpur hefði selt fisk frá Afríku fyrir 50 milljarða króna á þeim tíma sem rannsóknin tekur til. Kenning Seðlabankans hafi verið sú að allur þessi gjaldeyrir hefði átt að fara til Íslands. Þorsteinn Már sagði jafnframt að Seðlabankinn hefði sakað Samherja um að skila ekki 85 milljörðum króna af gjaldeyri.
Þessar umræður pirruðu Þorstein Má og sagði hann að þetta hefði ekki verið það sem húsleit Seðlabanka Íslands snerist um heldur um meinta milliverðlagningu á sölu karfa frá Íslandi.
Þetta segir Þorsteinn þrátt fyrir að það komi skýrt fram í húsleitarheimild Seðlabanka Íslands að það sem sé undir í rannsókninni sé hvort erlendum félögum Samherja, meðal annars í Afríkurekstrinum, hefði verið stjórnað frá Íslandi og þá hvort gjaldeyririnn í starfsemi þeirra hefði átt að koma til Íslands.
Þorsteinn neitaði því að Samherji seldi í gegnum Kýpur
Viðbrögð Þorsteins Má við umræðunni um fiskveiðar Samherja í Afríku og sölu á fiski sem þar var veiddur í gegnum Kýpur þurfa raunar ekki að koma á óvart þar sem efnið er viðkvæmt fyrir honum og hefur verið lengi. Hann vill að umræðan um Seðlabankamálið einskorðist við karfaviðskipti Samherja frá Íslandi og ekki tugmilljarða viðskipti með fisk veiddan í Afríku í gegnum Kýpur.
„Við stofnuðum aldrei sölufyrirtæki á Kýpur“
Í febrúar og apríl í fyrra þegar Stundin fjallaði um viðskipti Samherja á Kýpur neitaði Þorsteinn Már því að fyrirtækið seldi fisk í gegnum Kýpur. „Við stofnuðum aldrei sölufyrirtæki á Kýpur og það er alveg ljóst hvar sölufyrirtæki Samherja eru,“ sagði Þorsteinn Már aðspurður um reksturinn á Kýpur.
Í ásreikningi helsta eignarhaldsfélags Samherja á Kýpur, Esju Seafood, sagði hins vegar að sala á fiski væri einn helsti tilgangur félagsins: „Helsti tilgangur fyrirtækisins hélt áfram að vera sala á fiski, framleiga á fiskiskipum, eignarhald á langtímafjárfestingum og fjármögnun dótturfélaga og annarra tengdra félaga.“
Félög Samherja á Kýpur áttu einnig í viðskiptum með fisk frá Íslandi. Árið 2014 keypti Esja Seafood til dæmis fiskafurðir af félögum Samherja á Íslandi og í öðrum löndum fyrir tæplega 16,6 milljónir dollara, eða rúmlega 2,1 milljarð íslenskra króna og árið áður námu þessi viðskipti 14 milljónum dollara, eða rúmlega 1,6 milljörðum króna.
Stundin hefur ekki fengið úr því skorið af hverju Þorsteinn Már sagði við Stundina að Samherji væri ekki með fisksölufyrirtæki á Kýpur þegar það liggur fyrir að svo er þar sem félagið hefur selt hestamakrílinn sem það hefur veitt í Afríku í gegnum eyjuna.
„Við skulum segja samskiptum okkar lokið.“
Eftir að Stundin birti þessa grein um Kýpurviðskipti Samherja í fyrra sendi Þorsteinn Már smáskilaboð til blaðamanns Stundarinnar þar sem hann sagði að samskiptunum væri „lokið“ og hefur hann staðið við þetta. „Til hamingju með greinina í dag. Við skulum segja samskiptum okkar lokið.“
Þetta er því umræða, Kýpur og Afríkuveiðarnar, er því umræða sem Þorsteini Má er ekkert sérstaklega vel við.
Aðalmeðferðin í dag sýnir meðal annars að það eru Afríkuveiðar og Kýpurviðskipti Samherja sem Seðlabankamálið snerist í grunninn einna mest um; viðskipti sem námu tugum milljörðum króna og spurninguna um skilaskyldu á þessum fjármunum til Íslands í höftum.
Kýpur og Afríka voru aðalatriðið og karfinn var aukaatriði í stóra samhenginu.
Málinu gegn Samherja var á endanum vísað frá á grundvelli formgalla við lagasetningu á lögum um gjaldeyrismál þar sem samþykki Björgvins G. Sigurðssonar, þáverandi viðskiptaráðherra, á reglum skorti og reglurnar öðluðust því ekki gildi eins og vera bar. Ekki var því á endanum hægt að notast við þessar reglur í framkvæmd gjaldeyrishaftanna sökum þessa formgalla. Allar sektir og mögulegar refsingar sem leiddu af þessum gölluðu reglum, sem í reynd aldrei öðluðust formlegt gildi, voru því ógildar.
Þetta lá hins vegar ekki fyrir þegar málið var til rannsóknar.
Athugasemdir