„Kalda-nafnið kemur frá langafa mínum. Þetta er ekki ættarnafn heldur tók hann það upp sem skáldanafn. Langafi minn var sem sagt Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi, rithöfundur og þýðandi, sem kallaði sig Jón kaldi frá Kaldaðarnesi og ég er skírður þessu nafni eftir honum. Ég er stoltur af nafninu og ánægður með það en það kemur fyrir að fólk trúi mér ekki þegar ég kynni mig, það heldur að ég sé bara að gera grín en svo er auðvitað ekki, ég heiti bara Finnur Kaldi Jökulsson. Það hefur samt ekki bakað mér nein vandræði, nema kannski einhver skemmtileg vandræði. Ég er í námi í Listaháskólanum og stunda mína list og kannski mun nafnið hjálpa til við að koma mér á framfæri, það er auðvitað eftirminnilegt. Ég merki alltaf mín verk Finnur Kaldi, en list er auðvitað ekki bara nafnið, maður verður að geta eitthvað og gera eitthvað.
Maður heyrir stundum brandara um fólk sem er starfandi í einhverjum starfsgreinum sem passa við nöfnin þeirra. Ég hef stundum hugsað um að það væri gaman að vera jöklaleiðsögumaður, bara út af nafninu mínu. Það gæti líka hentað mér vel, ég er mjög viðkvæmur fyrir hita en þoli vel kulda, það er kannski tengt nafninu.“
Athugasemdir